Gísli Gíslason og Garðar Baldvinsson fjalla um stöðu forsjárlausra feðra: “Jafnrétti kynjanna er minnst í sifja- málum en ekki í launamálum.”

Það er full ástæða til að óska konum til hamingju með alþjóða kvennadaginn hinn 8. mars sl. Í Morgunblaðinu þann dag var sögð sé frétt að af öllum málum í Evrópusambandinu væri jafnrétti kynjanna minnst í launamálum. Svipuðu hefur verið haldið fram hér á landi. Launamunur kynjanna er víða í hinum vestræna heimi áætlaður um 15%. En er launamunur mesta kynjamisréttið, þ.m.t. á Íslandi ? Á Íslandi búa börn í yfir 90% tilvika hjá móður eftir skilnað. Af 12.000 meðlagsgreiðendum eru um 97% karlar.

Á Íslandi greiða feður heimsins hæstu lágmarksmeðlög og um einn af hverjum þremur meðlagsgreiðendum er í vanskilum. Þessir karlmenn hrekjast í neðanjarðarhagkerfið, þ.e. í svarta vinnu, og það skilar engum tekjum til hins opinbera.

Í 18. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, segir “Aðildarríki skulu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska…” Hér á landi er sameiginleg forsjá ekki sjálfkrafa við skilnað. Jafnvel þótt foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns eftir skilnað, þá hefur það foreldri sem barnið hefur lögheimili hjá, oftast móðir, stöðu forsjárforeldris og faðirinn stöðu forsjárlauss foreldris. Sú leið að annað foreldið greiði meðlag styrkir þá gömlu ímynd kynjanna að annað foreldrið sé fyrirvinna (karlinn) og hitt uppalandi (konan).

Sameiginleg forsjá á Íslandi er því fín í orði en rýr á borði.

Sameiginlegir hagsmunir beggja foreldra og barnsins er að báðir foreldrar hafi alltaf mikið hlutverk í lífi barnsins. Foreldrajafnrétti mun leiða til launajafnréttis, það er þó spurning hvort hænan eða eggið komi fyrst. Ef forsjárforeldri, sem er oftast móðir, hamlar umgengni þá eru úrræði fá og staðreyndin er sú að mæður komast upp með að hamla umgengni í lengri eða skemmri tíma. Eftir standa feður varnarlitlir og geta þurft að búa við að mæður hafa svert föðurímyndina í huga barnsins. Slíkt er ofbeldi af hendi móður gagnvart barni og föður.

Til að leysa ágreiningsmál í sifjamálum eins og úrskurð um meðlag og umgengni, þá þarf að leita til sýslumannsembættanna. Samkvæmt www.syslumenn þá starfa hjá Sýslumannsembættinu í Reykjavík fjórtán konur í Sifjamáladeild og enginn karl, í Kópavogi fimm konur og þrír karlar, á Akureyri ein kona. Það kemur ekki fram hver skiptingin er hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði. Það eru því oftast konur, sem úrskurða í deilum karls og konu. Það hefur víða komið fram að körlum finnst þeir mæta fordómum hjá embættismönnum, það má lesa í bókinni Áfram foreldrar, og félagsmenn í Félagi ábyrgra feðra upplifa slíkt reglulega.

Ef einstaklingar kæra úrskurð sýslumannsembættanna þá fer sú kæra til Einkamálaskrifstofu dómsmálaráðuneytisins og þar eru 4 af 5 starfsmönnum konur. Einkamálaskrifstofa hefur áður skrifað leiðbeiningar fyrir sýslumenn hvernig túlka eigi lög og reglugerðir. Með áfrýjun til Einkamálaskrifstofu verður það embætti úrskurðaraðili í málefnum á lögum sem það hefur áður túlkað. Þetta hlýtur að vera ákaflega óheppileg stjórnsýsla. Sú staðhæfing að segja að kynjamisrétti sé mest í launamálum stenst ekki.

Jafnrétti kynjanna er minnst í sifjamálum, þegar kemur að forsjá og umgengni og þar hallar á karla. Þeim er aftur á móti gert að greiða heimsins hæstu lágmarksmeðlög. Þetta er hin hliðin á jafnréttisumræðunni sem fáir ræða.

Höfundar eru formaður og ritari Félags ábyrgra feðra.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0