Ekkert orð yfir þá sem fara illa með börn?

Hér á eftir eru vangaveltur um orðanotkun varðandi illa meðferð á börnum. Þessi orðanotkun er svo borin saman við orðanotkun á illri meðferð á öðru en börnum og skoðaðir möguleikar á forskeytum á orðið níðingur. Ástæðan fyrir þessum vangaveltum um orðanotkun er sú að nýlega var mér bent á að ekki megi setja forskeytið barn- á orðið níðingur nema þegar talað er um karlmenn sem haldnir eru kynferðislegri hneigð til barna og var vísað í íslenska orðabók því til staðfestingar. Ég gef mér því það í þessum skrifum að ekki sé hægt að nota orðið barnaníðingur yfir annað en þá sem haldnir eru kynferðislegri hneigð til barna.

Níðingur

Samkvæmt Íslenskri orðabók hefur orðið níðingsverk merkinguna svívirðilegur verknaður eða ódrengilegur verknaðu. Sá sem fremur níðingsverk getur þá væntanlega verið níðingur. En orðið níðingur hefur merkinguna ódrengur, þrælmenni eða nirfill (ÍO).

Dæmi um níðinga með forskeyti samkvæmt Íslenskri orðabók eru:

 • hestaníðingur: sá sem ofþjakar hesta eða reiðfantur.
 • trúníðingur: maður sem afneitar trú sinni (og berst gegn fyrri trúbræðrum).
 • griðníðingur: sá sem rýfur grið, gerir sig sekan um griðrof.
 • valdníðingur: sá sem misnotar vald.
 • skepnuníðingur: sá sem fer illa með skepnur.
 • fataníðingur: sá sem fer illa með föt.
 • matníðingur: sá sem er naumur á mat, matsínkur, matsár maður.
 • þjóðníðingur: sá sem svíkur þjóð sína eða berst gegn hagsmunum hennar.
 • ökuníðingur: ökufantur.
 • mannníðingur: illmenni, glæpamaður.
 • barnaníðingur: maður sem sækist eftir kynlífi með börnum eða barnafleða. (ÍO).

Barn- sem forskeyti

Barnafleða er nýyrði og tengist sálfræði. Merking orðsins er fullorðinn maður haldinn barnhneigð, barnaníðingur (e. paedophile) (EÍO, ÍO).

Enska orðið paedophile hefur merkinguna maður haldinn barngirnd (EÍO) eða (e. „an adult who is sexually attracted to children“) (EEO).

Þannig er orðið barnaníðingur eina orðið af þessum níðings orðum sem ekki skýrskotar til níðingsverks heldur til afbrigðilegrar kynhneigðar. Orðið barnaníðingur sker sig þannig úr í orðabókinni hvað varðar merkingu þar sem „barn“ sem forskeyti á orðið „níðingur“ breytir merkingu orðsins frá níðingsverkum til hugarástands (hneigðar). Ekkert annað forskeyti á orðið „níðingur“ breytir með þessum hætti merkingu orðsins „níðingur“ þannig að það fjalli ekki lengur um níðingsverk.

Er níð verknaður eða hneigð?

Orðið Paedophile hefur sem hér segir greinilega merkingu hneigðar en ekki verknaðar þannig að ef paedophile og barnaníðingur er sama orðið þá er barnaníðingur sá sem hefur kynferðislega hneigð eða girnd til barna hvort sem hann hefur komið nálægt börnum eða ekki. Hneigðin ein og sér gerir hann að barnaníðingi. Þannig er maður sem haldinn er hneigð til barna án þess að láta eftir hneigð sinni barnaníðingur alveg burt séð frá því hversu mikið hann leggur á sig til að láta þessa afbrigðilegu heigð sína ekki bitna á öðrum. Hugarástand mannsins gerir hann þannig að níðingi samkvæmt Íslenskri orðabók.

Pervert

Enska orðið pervert merkir öfuguggi og hérvillingur (EÍO). Ein merking orðsins er „maður með afbrigðilegar hvatir, einkum kynferðislegar, öfuguggi“ (EÍOA). Á ensku hefur nafnorðið pervert merkinguna (e. „a person whose behavior deviates from what is acceptable especially in sexual behavior“) (EEO).

Á íslensku hefur nafnorðið pervert óformlegu merkinguna „maður með afbrigðilega kynhneigð“ (ÍO). Íslensk orðabók inniheldur einnig slangur yrðið perri og hefur það merkinguna: „maður með afbrigðilega kynhneigð, öfuguggi, pervert.“ (ÍO).

Nafnorðið öfuguggi hefur samkvæmt Íslenskri orðabók þrjár merkingar.

 • eitraður vatnafiskur með ugga sem snúa öfugt eða hver á móti öðrum. (þjóðtrú)
 • maður sem er sérkennilegur í orðum og athöfnum, sérvitringur, þverhaus.
 • samkynhneigður maður (yfirleitt karl), maður með afbrigðilega kynhneigð. (niðrandi) (ÍO).

Hvað eru þeir sem fara illa með börn?

Eins og áður segir þá er til nafn yfir þá sem níðast á (fara illa með) hesta, trú, grið, vald, skepnur, föt, mat, þjóð, akstur og menn. Nafnið er einfaldlega níðingur með viðeigandi forskeyti. Einfalt og gegnsætt. Auðskilið og hægt að færa yfir á hvað sem er. Nema þegar kemur að því að farið sé illa með börn. Þá má ekki setja „barn“ á undan níðingur vegna þess að það orð virðist vera frátekið í Íslenskri orðabók undir hugarástand manna með afbrigðilega kynhneigð og má því ekki nota orðið undir níðingsverk önnur en þau sem tengjast þessari afbrigðilegu kynhneigð.

Hvað er þá hægt að kalla þá sem níðast á börnum með öðrum hætti en kynferðislega? Þrátt fyrir mikla leit þá hef ég ekki fundið neitt orð á íslensku sem hægt er að nota yfir þá sem fara illa með börn án þess að hafa þessa afbrigðilegu kynhneigð.

Hvað veldur því að íslensk tunga setur þær skorður á að hægt sé að gefa þeim nafn sem fara illa með börn að verknaðurinn hafi verið tengdur kynferðislegri barnagirnd? Íslensk tunga leyfir okkur að gefa öllum þeim nafn sem fara illa með hvaðeina annað á alla vegu en ekki þá sem fara illa með börn.

Í mínum huga liggur það beinast við að bæta forskeytinu „barna“ við orðið „níðingur“ um þá sem fara illa með börn með sama hætti og gert er með alla aðra sem fremja níðingsverk. Þeir sem níðast á börnum kynferðislega eru áfram barnaníðingar enda um verknað að ræða. Hins vegar tel ég að annað orð eigi að nota yfir hugarástandið barnagirnd eða kynheigð til barna (e. paedophile) því þar er ekki um verknað að ræða heldur hugarástand (hneigð). Afherju notum við ekki sálfræðilega nýyrðið „barnafleða“ sem hefur merkinguna „fullorðin maður haldinn barnahneigð“ (ÍO). Einnig er hægt að nota orðin „barnapervert“ eða „barnaperri“ í almennri umræðu og þá getum við kallað alla þá sem fara illa með börn “barnaníðinga”.

Heimildir:

ÍO. (e.d.). Íslensk orðabók. (e.d.). Sótt 16. september 2010 af http://snara.is.

EÍO. (e.d.). Ensk-íslenska orðabókin. Sótt 16. september 2010 af http://snara.is.

EEO. (e.d.). Enskt-enskt orðanet. Sótt 16. september 2010 af http://snara.is.

EÍOA. (e.d.). Ensk-íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi. Sótt 16. september af http://snara.is.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0