Meðlagsgreiðslur eru oftar en ekki í umræðunni í samfélaginu og snúast þá aðallega um hvort meðlagið sé of hátt eða lágt. Viðhorf manna á þessu fer jafnan eftir því hvort viðkomandi fær greitt meðlag eða þarf að greiða meðlag sjálfur. Þeir sem tilheyra fyrri hópnum, þ.e. þeim sem fá greitt meðlag, finnst meðlagið oft allt of lágt og ekki óalgengt að farið sé fram á viðbótarmeðlag til þess að upphæðin verði ásættanleg.

En hvað er ásættanleg upphæð á meðlagi? Hvað kostar að framfleyta einu barni á mánuði? Sjálfsagt ekki einfalt mál að svara en meðlagið sjálft þ.e. það sem meðlagsgreiðandinn þarf að greiða dugar kannski ekki alveg í hverjum mánuði. Það sem gleymist allt of oft í þessari umræðu er að sá sem tekur á móti meðlaginu á að leggja fram jafnháa upphæð til móts við meðlagið. Þá er upphæðin orðin tæpar 50.000.- kr. á mánuði sem ætti nú undir venjulegum kringumstæðum að duga til að framfleyta einu barni á mánuði sé meðaltalskostnaður yfir árið reiknaður. Ekki skal heldur gleyma því að sá sem hefur sama lögheimili og barnið fær greiddar barnabætur og sitthvað fleira sem hitt foreldri fær ekki þrátt fyrir að vera með barn á framfæri. Þegar ég var í hjónabandi þá hafði ég ekki tæpar 50.000 kr. á mánuði til að framfleyta hverju barni og því skyldi ég þurfa það nú.

En í hvað á að nota meðlagið? Samkvæmt 63.gr. Barnalaga tilheyrir meðlag barni og skal notað í þágu þess. En er það alltaf gert? Ég þekki því miður allt of mörg dæmi þess að svo er ekki. Til dæmis eru mörg tilfelli þess að foreldrar barns hafa verið ósáttir eftir skilnað og þá reynir sá sem hefur forsjá yfir barninu, að ná sem mestu út af peningum frá þeim sem ekki hefur forsjána, oft vegna eigin gremju og afbrýðisemi, í stað þess að hugsa um hagsmuni barnsins, t.d. með viðbótarmeðlagi sem margir þekkja. Það virðist því í einhverjum tilfellum vera sem svo að eftir því sem meira ósætti ríkir á milli foreldranna því “dýrara” er að framfleyta barninu.

Tíminn líður og fólk, sem betur fer jafnar sig stundum á skilnaðinum. Umgengni við hitt foreldrið, oftast föður, breytist og barnið fer að eiga meiri samskipti við það foreldri sem það býr ekki hjá og jafnvel að eiga jafna búsetu hjá báðum foreldrum en eftir sem áður þarf sá sem greiðir meðlagið að halda áfram að greiða hinum aðilanum fullt meðlag.

Samkvæmt 64.gr barnalaga kemur fram að sýslumaður geti með úrskurði breytt staðfestum samningi um meðlag eða dómsátt ef lögð er fram rökstudd krafa um að aðstæður eða hagir foreldra eða barns hafi breyst verulega. Er þetta ákvæði nýtt t.d. þegar barn er komið með jafna búsetu hjá báðum foreldrum? Það hlýtur að flokkast undir breytta hagi þegar umgengni fer úr t.d. fjórum dögum í mánuði í 14.

Því miður held ég að svo sé ekki þar sem það foreldri sem hefur náð því  fram, eftir stundum harða baráttu, fram að fá að umgangast barnið sitt til jafnt við hitt þorir ekki að vagga bátnum að ótta við að missa umgengnina niður í upphaflegt form.

Ástæðan fyrir því að ég velti þessum hlutum fyrir mér núna er sú að ég stend í þeim sporum að vera sjálfstæð móðir með þrjú börn. Ég er í þeirri stöðu að geta farið fram á viðbótarmeðlag þegar horft er til þeirra tekna sem barnsfaðir minn hefur. Ég er líka í þeirri stöðu að hafa búið allt of lengi í hjónabandi sem átti fyrir löngu að vera búið, hjónabandi sem hefur einkennst af andlegu og líkamlegu ofbeldi, hjónabandi þar sem uppeldi barnanna hefur verið að næstum öllu leyti í mínum höndum.

Reynsla mín af þessu, eins ömurleg og hún er, hefur kennt mér að dæma ekki aðra því enginn getur sagt fyrir um hvernig hann bregst við hlutum fyrirfram. Áður var ég tilbúnari en nú í að hlusta á hryllingssögur vinkenna minna sem höfðu skilið við mennina sína. Aldrei hélt ég að ég myndi láta bjóða mér ýmislegt af því sem ég hef gengið í gegnum og ég skildi ekki hvernig konur gerðu það. Ég hef því ríka ástæðu, að einhverra mati, til að ná mér niðri á barnsföður mínum og get fúslega viðurkennt að ég hef velt fyrir mér ýmsu í þeim efnum.

Fyrir mér snýst þetta um val, mitt val að taka á hlutunum eins og fullorðin manneskja en ekki eins og bitur fyrrverandi eiginkona. Fyrir mér er hreinlega ekki í boði að láta gremju mína í garð fyrrverandi eiginmanns míns koma niður á börnunum okkar.  Ég geri mér fulla grein fyrir því að uppeldi barna minna verður áfram að mestu í mínum höndum áfram og það verður  sennilega því miður ekki um jafna búsetu að ræða hjá okkar börnum vegna áhugaleysis hans á að umgangast börnin sín. Ég er sjálf ekki á neinum ofurtekjum en ef barnsfaðir minn þyrfti að borga tvöfalt meðlag með þremur börnum er næstum útilokað fyrir hann, þrátt fyrir ágætis tekjur, að byrja nýtt líf. Ég fæ því greitt einfalt meðlag með mínum börnum miðað við aðstæður í dag þ.e. börnin eru hjá mér fyrir utan aðra hvora helgi. Breytist þær aðstæður þ.e. ef t.d. búseta þeirra verður jafnari þá verður meðlagsmálunum breytt í samræmi við það.

Ég held í þá von að ég og fyrrverandi maðurinn minn náum bæði að verða hamingjusöm aftur og ég vil gera það sem í mínu valdi stendur til þess að það geti orðið. Hamingja mín verður aldrei háð því hversu mikla peninga ég fæ frá fyrrverandi maka mínum.

Mín upplifun er sú að erjur á milli fyrrverandi hjóna séu í raun afbrýðisemi sem blindar fólk og gerir það óhæft til að hugsa um það sem mestu máli skiptir, börnin sín. Ef til vill er eðlilegt að ekki séu allir sáttir í kjölfar skilnaðar því um er að ræða tvær manneskjur sem sáu sér ekki fært að búa með hvort öðru lengur. Mér kemur alltaf til með að þykja vænt um fyrrverandi manninn minn, þrátt fyrir að geta ekki hugsað mér að búa með honum, því saman eigum við það sem mér þykir vænst um í lífinu, börnin okkar. Einhver sagði vð mig einu sinni að ekki væri hægt að skilja við þann sem maður á börn með. Heilmikið til í þessu og ég vona svo innilega til þess að við sem foreldrar barna okkar fáum að upplifa saman gleðistundir í lífi þeirra. Mitt helsta áhyggjuefni eftir skilnaðinn er það hvernig konu barnsfaðir minn á eftir á eignast og ég vona að sú kona komi til með að verða góð við börnin mín. Ég þekki því miður allt of margar konur sem eru ekki góðar við börn maka síns eingöngu vegna þess að þeim er í nöp við fyrrverandi konuna hans. Konur sem með ótrúlegum hætti ná að eitra sambandið á milli föður og barna. Ég spyr í þessu samhengi, hver vill eiga maka sem er ekki góður við börnin sín?

Þarna tel ég að ég sjálf geti haft áhrif því oftar en ekki versnar samband á milli fyrrverandi hjóna þegar nýir maka koma í spilið og þá skiptir að mínu mati miklu máli að kunna að sýna hvort öðru virðingu.

Að lokum langar mig til að segja smá sögu af því hvernig meðlagið er ekki alltaf nýtt í þágu barna. Ég á 19 ára dreng sem hefur átt kærustu í um eitt og hálft ár. Kærastan sem er utan af landi er barn fráskilinna foreldra, bjó með móður sinni og fósturföður þegar sonur minn kynntist henni. Fljótlega eftir að sonur minn og þessi stúlka fóru að vera saman flutti hún svo að segja inn hér á heimilið. Þetta var eitthvað sem ég ekki ætlaði mér en ég sá aumur á henni því ég sá fljótt að hún naut ekki mikils stuðnings heima fyrir. Stúlkan hefur verið í námi og móðir hennar fær greitt með henni meðlag frá föður hennar. Stúlkan er nýbyrjuð í vinnu með námi en allan þann tíma sem hún hefur búið hér hefur hún ekki fengið svo mikið sem eina krónu til framfærslu frá móður sinni og fósturföður sem þó hafa fengið vel á fjórða hundrað þúsund greiddar, í formi meðlags, frá föður hennar á þessum tíma. Ég hef því séð henni fyrir bæði fæði og húsnæði ásamt helstu nauðsynjum á þessum tíma en hvorugt foreldra stúlkunnar hefur svo mikið sem hringt einu sinni í mig á þessum tíma. Einhverjir kunna að halda að stúlkan komi frá heimili þar sem óregla eða annað er í gangi en í raun og veru er “ekkert að” á því heimili nema algert sinnuleysi er varðar barnið sem skal ekki gera svo lítið úr. Í framhaldinu velti ég fyrir mér hver réttur föður stúlkunnar er í þessu máli sem hefur borgað meðlagið á þessum tíma til þess að leggja sitt af mörkum við framfærslu dóttur sinnar. Réttur stúlkunnar er ljós þrátt fyrir að hann sé brotinn en er réttur föður hennar jafn skýr eða á hann bara að halda áfram að taka þátt í heimilishaldi fyrrverandi konu sinnar eftir að dóttir hans er flutt þaðan út? Þessi pistill er ekki skrifaður til að deila á neinn og allra síst konur og sagan hér að ofan á sem betur fer ekki við alla heldur er skrifuð út frá eigin reynslu. Fólk verður að velja hvernig það hefur hlutina fyrir sig. Einhverjir kunna að segja að þeir hafi ekki val en oftast getum við haft áhrif á það hvernig hlutirnir eru í kringum okkur, í það minnsta getum við haft áhrif á það hvernig fólk kemur fram við okkur með því að sýna hvort öðru virðingu.

 

 

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0