Hrefna Pálsdóttir fjallar um launakjör í uppeldis- og kennslustörfum: “Mjög illa hefur gengið undanfarið að manna láglaunastörfin í þjóðfélaginu og á það ekki síst við um umönnunar- og uppeldisstörf.”

 

Í LITLA samfélaginu okkar eru uppi nokkuð einkennilegar hugmyndir um það sem máli skiptir í lífinu. Uppeldis- og umönnunarstörf eru vanmetin og allt of breitt bil er á milli þeirra tekjuhæstu og þeirra tekjulægstu í þjóðfélaginu. Bretta þarf upp ermarnar í málefnum aldraðra og öryrkja, því að illa er farið með fólkið sem skilað hefur sínu út í samfélagið sem og þeirra sem sökum sjúkdóma og slysa eru ófærir um að skila fullu vinnuframlagi. Það ætti að vera metnaðarmál hjá ríkisstjórninni að búa vel að öldruðum og öryrkjum og tryggja það að þessir einstaklingar fái lifað með reisn.
Mjög illa hefur gengið undanfarið að manna láglaunastörfin í þjóðfélaginu og á það ekki síst við um umönnunar- og uppeldisstörf. Gríðarleg mannekla hefur bitnað á starfi leikskóla, frístundaheimila og umönnun aldraðra, sem og störfum ófaglærðra á sjúkrahúsum. Þessi staða veldur miklu álagi, óöryggi og óþægindum fyrir alla hlutaðeigandi. Slíkt ástand vekur jafnframt spurningar um hvers virði uppeldis- og umönnunarstörf eru?

Í leikskólum er almennt unnið frábært starf. Með breyttu samfélagi hefur leikskólinn orðið afar þýðingarmikil stofnun, bæði sem lögfest fyrsta skólastig og einnig heppilegt úrræði fyrir foreldra barna á leikskólaaldri sem eru útivinnandi eða í námi.

Undirrituð býr í Kópavogi. Þar ríkir sú staða að enn er verið að senda börn heim sökum manneklu. Vandinn felst meðal annars í of mikilli starfsmannaveltu, bæði hjá faglærðum starfsmönnum sem og ófaglærðum. Lausnin á vanda leikskólanna felst fyrst og fremst í verulegum launahækkunum faglærðra starfsmanna því vegna launakjaranna ráðast faglærðir ekki til starfa. Það er jafnframt þörf á því að bæta kjör ófaglærðra til að starfið verði samkeppnishæft. Ógjörningur væri að halda uppi starfsemi leikskólanna ef ekki kæmi til vinnuframlag þeirra. Efling – stéttarfélag hefur bent á að auka þurfi menntun og starfsþjálfun ófaglærðra starfsmanna í leikskólum. Nauðsynlegt sé að ná til þeirra er lengstan starfsaldur hafa og þar með góða þekkingu og reynslu af starfi leikskólanna.

Grunnskólakennara má flokka í hóp láglaunastétta. Störf grunnskólakennara eru vanmetin og umræðan um kennara í þjóðfélaginu er fremur neikvæð. Þessa neikvæðu umræðu má að einhverju leyti rekja til kjarabaráttu kennara, sem endað hefur með verkfalli. Baráttu sem engan endi virðist ætla að taka og bitnar því miður alltaf mest á þeim er síst skyldi. Kjörin hafa lítið skánað í kjölfarið, en vinnuálagið aukist. Verkfall og kjarabarátta grunnskólakennara eru sönnun þess að íslensk stjórnvöld verði að gera breytingar á forgangsröðun í menntakerfinu.

Það er staðreynd að grunnskólakennarar og leikskólakennarar eru kvennastéttir. Hvort sem það útskýrir skammarleg launakjör eða ekki, verður ekki gert að frekara umræðuefni hér. Karlmenn skila sér illa inn í kennarastörfin, þeir eru fáir í grunnskólanum, enn færri finnast þeir í leikskólum og er það synd. Það er börnum nauðsynlegt að njóta samvista við fullorðna af báðum kynjum.

Í leikskólum og grunnskólum er hópur úrvals einstaklinga sem koma að uppeldi og uppfræðslu æskunnar sem erfa skal landið. Það er hagur allra foreldra að þeir sem sinna börnunum okkar lungann úr deginum séu vel menntaðir og faglegir starfsmenn sem eru áhugasamir og ánægðir í starfi.

Það er umframeftirspurn eftir námi við Kennaraháskóla Íslands og hundruðum umsókna er hafnað sökum takmarkaðs fjármagns til skólans. Það er mikið áhyggjuefni þar sem skortur er á leikskólakennurum og jafnvel kennurum. Leikskólum fjölgar stöðugt og síauknar kröfur eru gerðar til þessara starfsstétta.

Námið í Kennaraháskólanum er mjög gott, en alltaf má gera gott betra. Námið er þó ef til vill of stutt á öllum brautum skólans, enda er stefnt að lengingu þess. Kröfurnar til skólastarfs aukast stöðugt og góður undirbúningur er því nauðsynlegur. Vel menntaðir og ánægðir kennarar/leikskólakennarar eru forsenda góðs skólastarfs.Virðing í starfi og sanngjörn launakjör eru forsenda ánægju í starfi.

Í umræðunni er einnig stytting á námi til stúdentsprófs. Sú breyting hlýtur að hafa áhrif á menntun grunnskólakennara og kalla á aukna fagþekkingu, aukið námsframboð og breytingar á Aðalnámskrá. Námsefni færist trúlega niður í grunnskólana. Ef til þessara breytinga kemur hlýtur veruleg leiðrétting á kjörum kennara að fylgja í kjölfarið. Er launaumræðan hafin eða er eingöngu rætt um aukna ábyrgð og kröfur kennurum til handa?

Trúlega er vanmat á uppeldis- og kennslustörf komið til að vera og störfin seint metin að verðleikum. Að minnsta kosti hefur ráðamönnum, með menntamálaráðherra í fararbroddi, ekki þótt ástæða til að bæta kjör kennara og leikskólakennara verulega svo að þau megi teljast mannsæmandi. Gera þarf þá kröfu að kjör þessara starfsstétta verði bætt þar sem vandi þeirra kemur öllum við og hefur oft mikil margfeldisáhrif. Hvar er forgangsröðin? Gleðileg jól!

Hrefna Pálsdóttir
Höfundur er með kennarapróf (B.Ed.) og er uppalandi.
Mánudaginn 19. desember, 2005 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0