Eftirfarandi texti er tekinn beint af vefslóðinni: http://www.persona.is/index.php?action=faqs&method=display&fid=42&pid=20

Spurning:

Hver er ég?

Svar:

Einn mikilvægasti þátturinn í andlegri heilbrigði hvers einstaklings er fólginn í því hvernig hann skilgreinir sjálfan sig sem persónu, hver hann er, hvað hann er og hvernig hann greinir sig frá öðrum og upplifir sig sem sjálfstæðan einstakling.
Sjálfsmyndin er í mótun frá barnsaldri. Barnið sér sjálft sig fyrst og fremst með augum annarra, einkum foreldra sinna og nánustu fjölskyldu. Það upplifir sig gott eða slæmt, duglegt eða vanmáttugt, stórt eða lítið, eftir því hvað það heyrir aðra gefa í skyn. Þessi upplifun barnsins af sjálfu sér í gegnum aðra þróast smám saman í eigin meðvitund um sig sem einstakling, sjálfsvitund. Unglingsárin eru umbrotatímar í þessari þróun. Unglingurinn gerir oft uppreisn gegn gildum foreldranna, fer að hegða sér gagnstætt væntingum þeirra, en áréttar sig þess í stað sem sjálfstæður einstaklingur sem fer sínar eigin leiðir og reynir að skilgreina sig á eigin forsendum. Þetta er erfiður tími hjá mörgum unglingum og sumir lenda í sjálfsvitundarkreppu, þar sem þeir eru ráðvilltir og hafa efasemdir um hverjir þeir eru í raun og veru. Ef unglingnum tekst ekki að komast út úr þessari kreppu getur hann orðið ósjálfstæður, rótlaus og finnur sig ekki í tilverunni.
Margir þeirra sem leita til sálfræðinga eða geðlækna láta í ljósi lágt sjálfsmat og óvissa sjálfsmynd: “Ég er eiginlega ekki neitt, neitt.” Aðrir skilgreina sig á sama hátt og barnið gerir, eins og aðrir sjá þá. “Ég er maðurinn hennar Jónínu hans Jóns”, segir í þekktri gamanvísu. Reyndar hefur það verið siður hjá frændþjóðum okkar að skilgreina eiginkonur sem viðhengi við menn sína, þar sem aðeins er bætt frú framan við nafn og stöðu mannsins: “Frú húsasmíðameistari Jens Jensen.” Þegar eiginmennirnir í saumaklúbbnum hittast í fyrsta sinn, kynna þeir sig gjarnan í þessa veru: “Ég er maðurinn hennar Margrétar.” En líklega mundu þeir undir öðrum kringumstæðum taka skýrar til orða: “Ég heiti Guðmundur Jónsson og er múrari. Ég er Skagfirðingur og hestamaður, kominn af Jóni Arasyni í beinan karllegg.” Þarna er verulegur munur á og er ekki líklegt að þessi maður þurfi að biðjast afsökunar á sjálfum sér.
Nokkrir þættir skipta meira máli en aðrir sem auðkenni á einstaklingnum. Nafnið er þar tvímælalaust veigamest. það er að jafnaði traustasti og varanlegasti hluti sjálfsmyndarinnar. Það fylgir manni frá vöggu til grafar, eða svo á við um flest okkar. Undantekningar eru þó útlendingar sem gerast íslenskir ríkisborgarar og bera ekki nöfn sem falla að íslensku máli og nafnasiðum. Þeir þurfa að taka sér nýtt nafn. Mörgum þeirra hlýtur að veitast erfitt að horfa á eftir mikilvægasta auðkenni sjálfsmyndar þeirra. Þótt okkur sé annt um að vernda íslenskuna og þann mikilvæga menningararf sem fólginn er í nafnasiðum okkar, jaðrar það við mannréttindabrot að skylda fólk til að segja skilið við svo stóran hluta af sjálfsmynd sinni.
Annar mikilvægur þáttur í sjálfsmynd okkar er starfið. Snemma fær einstaklingurinn hugmyndir um hvað hann ætlar að verða, þegar hann er orðinn stór. Orðalagið eitt, – hvað hann ætlar að verða, – bendir til þess að í því sé fólgið eitt megininntak tilvistar hans sem sjálfstæðs einstaklings. Við skilgreinum eða þekkjum annað fólk af því starfi sem það gegnir. Við spyrjum stundum, þegar við viljum vita deili á einhverjum: “Hvað er hann?”, og eigum þá við hvað hann starfi. Sá sem ekki hefur starfsheiti er óskilgreind persóna að töluverðu leyti.
Enn einn veigamikill þáttur í sjálfsmynd okkar er uppruni okkar og rætur. Við fáum í vöggugjöf marga eiginleika foreldra okkar og forfeðra lengra aftur. Við líkjumst þeim svo og svo mikið í útliti, fasi og skapgerð, þótt umhverfið eigi eftir að móta þessa eiginleika að verulegu leyti og skapa þannig nýjan og sjálfstæðan einstakling. Flestir hafa þörf fyrir að þekkja uppruna sinn til þess að skerpa vitund sína um það hverjir þeir eru. Alltof margir fá þó ekki tækifæri til þess fyrr en seint og um síðir. Margir kjörforeldrar kjósa að leyna ættleiddu barni sínu sannleikanum um uppruna þess. Ástæður fyrir því geta verið ýmsar, svo sem trú foreldranna að með því hlífi þau barninu við óþægilegri vitneskju, sem það hafi ekki þroska til að skilja, eða ótti við að barnið verði þeim fráhverft. Langoftast fær þó barnið þessa vitneskju, fyrr eða síðar, jafnvel á fullorðinsárum, og þá oft á miður heppilegan hátt. Slíkt getur skilið eftir sig djúp sárindi í sálarlífi viðkomandi einstaklings og tilfinningu um að hafa verið blekktur af þeim sem hann treysti best. Affarasælast fyrir alla sem hlut eiga að máli er að barnið alist upp með þessa vitneskju frá fyrstu tíð, þótt það skilji ekki strax hvað í henni felst.
Nú eru að byrja að vaxa upp börn sem getin hafa verið með tæknifrjóvgun og er þá venjulega notað sæði frá manni sem nýtur nafnleyndar. Fyrr eða síðar munu mörg þessara barna fara að leita uppruna síns, en líklega með minni árangri en ættleiddu börnin. Vilhjálmur Árnason heimspekingur skrifaði fyrir skömmu grein í Morgunblaðið, þar sem hann lagði áherslu á rétt þessara barna til að þekkja uppruna sinn. Undir þau orð skal tekið hér. Það eru ekki aðeins mannréttindi þeirra heldur ein af forsendum þess að þau öðlist skýra og heilbrigða sjálfsmynd.

Gylfi Ásmundsson sálfræðingur

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0