Stefán Guðmundsson fjallar um forræðismál og umgengnisrétt: “…börn eru svipt feðrum sínum í stórum stíl í meðförum kerfisins…”

ÞETTA er fyrirsögnin á heimasíðu umboðsmanns barna og eðlilegt að velta því nánar fyrir sér hvert hlutverk umboðsmanns sé í raun og veru – vegna þess hve lítið ber á hans störfum í þeim málaflokki sem hann sannarlega á að vinna í – flokki forsjár- og umgengnismála.
Nánari skýringu er einnig að finna á hans störfum á sömu heimasíðu:

“Umboðsmaður barna vinnur að því að bæta hag barna og unglinga og gætir þess að tekið sé tillit til réttinda barna, þarfa og hagsmuna á öllum sviðum samfélagsins.

Umboðsmaður er talsmaður barna og unglinga, en í því felst m.a. að koma réttinda- og hagsmunamálum barna og unglinga á framfæri við opinbera aðila sem og einkaaðila.”

Undirritaður dregur í efa að umboðsmaður sinni þeirri skyldu sinni til fullnustu að “gæta þess að tekið sé tillit til réttinda barna, þarfa og hagsmuna á öllum sviðum samfélagsins” sem og að “koma réttinda- og hagsmunamálum barna og unglinga á framfæri við opinbera aðila”.

Nú er umboðsmanni fullkunnugt um það hörmungarástand sem ríkir í meðferð forsjármála á Íslandi, þar sem réttindi barna til beggja foreldra sinna eru yfirhöfuð fyrir borð borin á öllum stigum í meðförum kerfisins og dómstóla, og hafa verið í áratugi. Umboðsmaður barna hefur verið hvattur til þess margsinnis að gera gangskör að því að leiðrétta hlut þeirra barna sem verða bitbein milli foreldra sinna í deilum eftir skilnað eða sambúðarslit – deilum sem rata fyrir stjórnsýslu og dómstóla – en lítið gerist. Ljóst er að ítrekað er brotið á réttindum barna þar sem kynjabundið misrétti framkvæmdavalds og dómsvalds ásamt ráðandi viðhorfum stjórnsýslu minnka stórlega möguleika barna á forsjá og umgengni við feður.

Í lögum um umboðsmann barna nr. 83 frá 1994 með síðari breytingum sem tóku gildi 6. júní 1997 segir:

3. gr. Umboðsmaður barna skal vinna að því að stjórnvöld, einstaklingar, félög og önnur samtök einstaklinga og fyrirsvarsmenn lögpersóna taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Í starfi sínu skal umboðsmaður barna setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins. Umboðsmaður barna skal einkum:

hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni barna,

koma á framfæri tillögum um úrbætur á réttarreglum og fyrirmælum stjórnsýsluhafa er varða börn sérstaklega,

bregðast við með tiltækum úrræðum telji hann að aðilar þeir, er greinir í upphafi 1. mgr., hafi með athöfnum sínum eða athafnaleysi brotið gegn réttindum, þörfum og hagsmunum barna í samfélaginu.

Sem fyrr segir er umboðsmanni fullkunnugt um hvernig málum er háttað í umræddum málaflokki – en til skerpingar skal eftirfarandi getið: Börn eiga litla sem enga möguleika á að njóta forsjár feðra sinna eftir að parasambandi lýkur. Umgengni barna við feður sína er í kjölfarið skorin við nögl – oftar en ekki á viðkvæmum aldri þeirra. Stundum með alvarlegum afleiðingum og sálarkvölum og yfirleitt á þeim tímapunkti þegar börn þurfa hvað mest á báðum foreldrum sínum að halda. Börn búa ekki við þann eðlilega hlut að feður þeirra fái upplýsingar um gengi þeirra í skólum (nema munnlegar), fái upplýsingar um þau frá opinberum aðilum eins og heilsugæslum o.fl. Börn eru ekki skilgreind sem íbúar á heimili föður – heldur í heimsókn. Með öðrum orðum; börn eru svipt feðrum sínum í stórum stíl í meðförum kerfisins, á árinu 2005.

Umboðsmaður á einnig að stuðla að því að virtir verði þjóðréttarsamningar er varða réttindi og velferð barna og fullgiltir hafa verið af Íslands hálfu ásamt því að benda á að samningar um þetta efni verði fullgiltir. Til áréttingar skal þess getið að í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir í 18. gr. m.a: Aðildarríki skulu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska

Það er mat okkar í Félagi ábyrgra feðra (FÁF) að sú meginregla sem á að virða – sé ekki virt. Mannréttindi barna okkar séu þverbrotin og jafnræðis ekki gætt.

Nú ber þess að geta að fulltrúar FÁF óskuðu eftir fundi með umboðsmanni síðastliðinn vetur og sóttu. Skemmst er frá því að segja að fulltrúum félagsins ofbauð viðhorf umboðsmanns til málefnanna. Ekki verður reynt að reifa það í þessum pistli hver viðhorfin voru nákvæmlega – en það var engu líkara en fulltrúarnir sætu fyrir framan praktiserandi lögfræðing sem hefði haft þann aðalstarfa að gæta hagsmuna mæðra fremur en barna og kæmist ekki upp úr því farinu.

Umboðsmaður barna tröllreið fjölmiðlahúsum að hausti 2004 og beitti sér harkalega, þegar kennaraverkfall hafði staðið yfir og börn án menntunar og skólasóknar í 7 vikur samfleytt, og er það vel.

Þess væri óskandi að umboðsmaður eygði viðhorfum sínum hillupláss í nútímanum, í forsjár- og umgengnismálum, og kippi sér upp við það þegar börn hafa verið án feðra sinna margfalt lengur en sem nam verkfalli kennara – mánuðum og árum saman, og vinni að því ötullega að koma réttindum barna til beggja foreldra sinna, úr fortíð til nútíðar.

Höfundur er stjórnarmaður í FÁF.
Mbl Þriðjudaginn 22. nóvember, 2005 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0