Unnur María Sólmundardóttir fjallar um slysahættu um áramót: “Hugum að öryggi æskunnar sem og okkar eigin. Fullorðið fólk slasast ekki síður en börn og áfengi og flugeldar eiga enga samleið.”
VIÐ sjáum oft hrikalegar myndir í sjónvarpi af hrjáðum börnum, limlestum eftir sprengjur vígamanna, einfættum að horfa á leik heilbrigðra jafnaldra, sem öll alast upp í skugga jarðsprengja og kúlnahríðar. Þó efni frá stríðshrjáðum löndum birtist reglulega eru raunir þolendanna svo langt frá íslenskum veruleika að það tekur varla að nefna það – eða hvað?
Það eru forréttindi að lifa á friðartímum framfara og vellystinga. En friðsamt samfélag er ekki alltaf öruggt samfélag. Framundan er sá árstími þegar flest slys verða af völdum flugelda, flugelda sem innihalda sömu sprengiefni og notuð eru á vígvellinum og valda sömu áverkum hjá þeim sem fyrir þeim verða.

Flugeldar hafa þróast mikið frá því að Kínverjar fundu þá upp fyrir um 1000 árum. Kraftmikil, sprengifim efni eru notuð við gerð þeirra, s.s. púður og súrefnisrík efni. Blandan er sérlega eldfim því alla jafna þarf utanaðkomandi súrefni svo sprenging eigi sér stað. Flugeldaslysum fækkar, þó slösuðust 9 börn á augum um síðustu áramót og 2 alvarleg handarslys urðu hjá fullorðnum auk minni brunaslysa. Tíðni flugeldaslysa er ekki há miðað við fjöldann sem skotið er upp en afleiðingarnar fyrir þann slasaða geta verið gífurlegar. Óbærilegur sársauki er ekki metinn til fjár, og útlima- og sjónmissir er ekki framtíðarnestið sem við viljum búa börnum okkar.

Flugeldur er ekki hættulegur í höndum þess sem með kann að fara, þvert á móti. Mikið eftirlit er með flugeldasölu sveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar og einungis er um vandaðar og viðurkenndar vörur að ræða. Flugeldur er ekki flókinn að gerð og því hafa ungmenni áttað sig á. Forvitni er þeim eðlislæg og aðdáunarvert hugvitið sem býr í æsku landsins, en forvitnin er ekki alltaf bundin skynsemi. Ekki er óeðlilegt að ungir uppfinningamenn dáist að aldagömlu handverki, kryfji það og reyni að toppa markaðinn með heimatilbúnu efni. En þekkja þeir eðlisfræðina sem býr að baki framleiðslunni? Vita börn að flugeldar eru litlar púðurtunnur sem framkalla 330°C heitt gas þegar þær springa? Og að litlu málmflögurnar sem framkalla litadýrðina verða glóandi heitar við brunann? Vissir þú það?

Röng meðferð flugelda er lífshættuleg og ekki að ástæðulausu sem meðferð þeirra er bundin í reglugerð. Leikreglur eru skýrar, bannað er að selja börnum yngri en 16 ára vörur sem innihalda kveikiþráð og bannað er að selja börnum yngri en 12 ára eitthvað yfir höfuð. Hver hugsandi maður sér að af þessu leiðir bann við því að þeir eldri kaupi flugeldavörur fyrir þá yngri. Þetta þýðir þó ekki að börn megi ekki meðhöndla neitt af því sem í boði er heldur á slíkt ekki að viðgangast nema með aðstoð fullorðinna. Aldursleiðbeiningar er að finna á vörum sem þarfnast sérstakrar aðgátar.

Börn eru á ábyrgð foreldra sinna til 18 ára aldurs. Vanræksla er sterkt orð sem felur í sér athafnir og athafnaleysi. Það er vanræksla að fræða börn ekki um hættuna samfara flugeldafikti og horfa framhjá því þegar börn og unglingar undir viðurkenndum aldri skjóta flugeldum og öðrum vörum upp. Verndum börn okkar og fræðum þau um hættuna líkt og við gerum á öðrum sviðum. Við leyfum ekki 4 ára barni að ganga eitt síns liðs í leikskólann, við horfum ekki framhjá barni sem leikur sér að beittum hnífi og lánum ekki fermingarbarni fjölskyldubifreiðina. Það er vanræksla að leyfa börnum yngri en 12 ára að kaupa flugeldavörur, eða nota þær án eftirlits, og það er vanræksla að leyfa börnum yngri en 16 ára að kaupa flugelda og aðrar vörur sem innihalda sprengiefni. Það er á sama hátt vanræksla að selja börnum undir aldri vörur og vanræksla af þinni hálfu að horfa upp á slíkt, taka þátt í verknaðinum eða standa aðgerðarlaus hjá.

Hugum að öryggi æskunnar sem og okkar eigin. Fullorðið fólk slasast ekki síður en börn og áfengi og flugeldar eiga enga samleið. Gæta verður að undirstöðum þegar skotið er, fjarlægð og varast að handleika gallaða flugelda sem geta sprungið fyrirvaralaust. Hella verður vatni yfir þá og gera þá skaðlausa. Geyma þarf skotelda á köldum og þurrum stað, fjarri börnum. Aldrei má setja þá í vasa og nauðsynlegt er að allir noti öryggisgleraugu. Í samvinnu við Blindrafélagið, Prentsmiðju Odda og Íslandspóst gefur félagið árlega öllum 10-15 ára börnum flugeldagleraugu, notið þau!

Flugeldar heilla háa sem lága, þeir gefa litrík loforð og eru boðberar nýrra tíma. Þeir veita áhorfendum ómælda gleði og eru ein mikilvægasta tekjulind björgunarsveita. Stutt er á milli hláturs og gráts svo sýnum aðgát. Hugum og að dýrum, félagið gaf út bækling um flugelda og gæludýr sem nálgast má í gæludýraverslunum og á slóðinni www.landsbjorg.is.

Við voðaskot fer lögreglurannsókn í gang, flugeldar innihalda sama púður og skotfæri, sama sprengikraft, sömu afleiðingar. Til að meðhöndla vopn og skotfæri þarf leyfi yfirvalda, sama gildir um flugeldaviðskipti. Mætum ekki nýju ári með fréttum af slösuðum börnum heldur fræðum þau og fyrirbyggjum fikt með flugelda, púður og sprengiefni áður en það er of seint!

Með ósk um ánægjuleg og slysalaus jól og áramót,

Unnur María Sólmundardóttir
Höfundur starfar á slysavarnasviði Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

www.mbl.is 28.12.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0