Mér er gleði af að mega hugsa upphátt niður á lyklaborðið og gefa ykkur, ágætu ábyrgu feður, hlutdeild í hugsunum mínum um málefni ykkar góða félags. Mér dettur náttúrulega í hug hann Jósef hennar Maríu. Hvað annað?! Guðspjöllin segja fátt um hann en María kona hans fær mun meira pláss, enda lifði hún son sinn og fylgdi honum eftir allt til dauða.

En af þögn guðspjallanna má dæma að Jósef hafi verið látinn þegar starfsdagar Jesú runnu upp. Hinsvegar er það litla sem fram kemur um Jósef fjarska mikilvægt, enda ekki lítils virði að vita eitthvað um þann karlmann sem Guð valdi til að vera jarðneskur faðir sonar síns og veita honum þá fyrirmynd sem faðir óhjákvæmilega er barni sínu.

Matteusargupspjall afhjúpar að aðstæður Jósefs voru ekki eftirsóknarverðar í fyrstu. Þessi óvænta meðganga Maríu var alls ekki uppfylling á hans óskum, og hann varð að kyngja vænum skammti af stolti til þess að geta reynst konu sinni og barni vel. En allt sem um Jósef er sagt bar merki um sanna karlmennsku. Hann var vænn maður og hann gerði allt sem í hans valdi stóð til þess að veita syni sínum það skjól sem hann þurfti. M.a. lagði hann á flótta með fjölskylduna þegar Heródes fyrirskipaði barnamorðin í Betlehem og dvaldi um hríð í Egyptalandi, uns hættan var liðin hjá.

Ljóst er að Jósef var á lífi þegar Jesús var 12 ára gamall því að Lúkas guðspjallamaður greinir svo frá: “Foreldrar hans ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Og þegar hann var 12 ára gamall, fóru þau upp þangað eins og siður var á hátíðinni.” Sagan af Jesú 12 ára, sem er eina frásagan af honum allt frá fæðingu uns hann hefst handa við starf sitt þrítugur að aldri, gefur mjög mikilsverða innsýn í líf Jesú og fjölskyldu hans. M.a. sjáum við að þau hjón voru trúaðir gyðingar sem ræktu hefðir og siði trúar sinnar af fullri meiningu. Annars hefðu þau ekki lagt í þetta ferðalag ár hvert. En mér finnst enn athyglisverðara að þegar sagan segir frá því að foreldrar Jesú týna honum í stórborginni, leita hans skelfingu lostin í 3 daga en finna hann loks þar sem hann situr glaður og rólegur mitt á meðal lærifeðranna í musterinu og er bæði að hlusta og spyrja svo að menn “furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum” (Lúk. 2.47), þá má greina svo heilbrigð viðbrögð í orðum Maríu þegar hún segir: “Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.?” Og maður sér hana beinlínis faðma hann að sér og hrista hann duglega í fögnuði og reiði. En svar Jesú afhjúpar ekki síst tengsl hans við Jósef: “Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?” – Í húsi föður míns! Þarna velur Jesús tengslahugtökin ‘faðir og sonur’ í fyrsta sinn til þess að varpa ljósi á samhengi sitt við Guð himinsins. Hvernig hefði hann getað það ef hann hefði ekki átt sterkt og heilbrigt samband við sinn jarðneska föður? Ef hann hefði ekki notið ekta tilfinningalegrar næringar frá jarðneskum föður sínum, hvernig hefði hann þá getað nýtt þessi hugtök til að varpa ljósi á hlutverk sitt sem frelsara mannkyns? Sagan af Jesú 12 ára afhjúpar þannig á milli línanna hin heilbrigðu tilfinningatengsl sem ríktu innan upprunafjölskyldu Jesú frá Nasaret. “Ég og faðirinn erum eitt” sagði Jesús síðar.

Þá var Jósef sennilega löngu dáinn. En minningin um samsömun sonar og föður bjó í hverri taug hans, reynslan af því að vera samþykktur og elskaður af Jósef, hefur gefið Jesú það djúpa heilbrigði og þá sönnu karlmennsku sem allt framferði hans ber vott um. Jesús hlýtur að hafa átt minningar um það að tuskast við pabba sinn í slag, kreppa vöðvana og bera þá saman við hans, mæla hve langt kollurinn næði uppá bringu föður síns og rökræða við hann um heima og geima. Hann hefur farið með honum í hinar og þessar sendiferðirnar og líka fylgst með honum vinna og fylgst með því hvernig hann talaði við fólk, hvernig hann hlustaði og ályktaði. Já, og svo hefur hann náttúrulega lært að smíða og verið smiður, rétt eins og Jósef. Persóna Jesú frá Nasaret fær ekki staðist nema í ljósi slíkrar sálrænnar og líkamlegrar nándar. Því orð hans og verk, viðhorf hans og atferli allt er hlaðið svo blygðunarlausri nálægð við manneskjur og svo djúpu samþykki á fólki, að hann Jósef gamli birtist hvarvetna á milli línanna sem elskuríkur og ábyrgur faðir. “Ég og faðirinn erum eitt.”

Þú sem ert faðir barns!

Veistu að sá arfur sem mestu máli skiptir frá þér til barnsins þíns er tilfinningalegur arfur? Hvort sem þú ert meðvitaður um það eða ekki, þá ertu alla daga að yfirfæra af þínum tilfinningareikningi yfir á tilfinningareikning barnsins þíns. Hvern dag sem líður, já, daginn í dag ertu að gefa barninu þínu skilaboð. Þú ert að segja því hvernig lífið er og þú ert að segja því hvernig það sjálft er, hvers virði það er í þínum augum og þ.a.l. í eigin augum. Hvernig sem tenglsum ykkar er háttað á ytra borði, hvort sem barnið býr hjá þér eða ekki, þá ert þú faðir þess og enginn og ekkert getur komið í þinn stað. Því til eru þau tilfinningalegu vítamín sem einungis faðir getur gefið barni sínu.

En þar erum við líka komin að því atriði sem er sárast.

– Hefur þú hitt marga karlmenn sem ekki þjást af slíkum vítamínskorti. Hefur þú hitt marga karlmenn sem áttu djúpt og gefandi samband við föður sinn? Og ég spyr um karlmenn vegna þess að hafi maður ekki þegið af föður sínum það sem manni bar, hvernig á maður þá að geta gefið barni sínu það sem maður ekki á? Ég finn mjög til þess í starfi mínu sem prestur, bæði í samskiptum við börn og eins við fullorðna að þarna er mjög víða pottur brotinn.

Stundum finnst mér eins og að allt þjóðfélagið þjáist af slíkum bætiefnaskorti. Þjóðfélagið skortir karlmannleg vítamín. Af hverju falla svo margir ungir menn fyrir eigin hendi? Af hverju eru fangelsin full af körlum? Af hverju una drengir sér verr í skólum en stúlkur? Af hverju er vímuvandinn stærri hjá okkur körlum? Mig grunar að svarið liggi einhverstaðar þarna nærri, og mig grunar að enginn geti neinu breytt nema ábyrgir feður. Þess vegna skrifa ég þessi orð.

Þjóðfélagið okkar vantar ábyrga feður. Elskulega, staðfasta, karlmannlega feður sem rækta tengsl við börn. Karlmennska er styrk nálægð. Ég segi það aftur: Karlmennska er styrk nálægð. Ekki pottþéttar lausnir í hverjum vanda. Ekki fullar hendur fjár. Ekki jeppi. Ekki snjallar ræður um þjóðfélagsmál eða eitthvað annað aðdáunarvert.

Sönn karlmennska er bara styrk nálægð. Vertu nálægur barninu þínu og vertu til staðar fyrir það. Einfaldlega. Taktu frá tíma. Gerðu áætlanir gagnvart barninu þínu, áætlanir sem standast. Það er karlmennska. Ekki leika karlmann, vertu karlmaður, vertu þú sjálfur og gefðu barninu þínu sjálfan þig. Og vittu til! Dag einn muntu uppgötva að vítamínin sem þú e.t.v. fórst á mis við eru runnin þér í merg og bein, vegna þess að þú ert ekki lengur tómur og einn, heldur ertu orðinn að farvegi sannra tilfinningalegra vítamína inn í líf barns þíns. Sjálfur ertu ekki uppsprettan heldur farvegur lífs. Þann dag veistu að þú hefur fundið hamingjuna og sjálfan þig um leið.

Eigðu gagnlega aðventu.

Séra Bjarni Karlsson,
sóknarprestur í Laugarneskirkju

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0