Hugleiðingar ástandsbarns - mynd

Hellen Kolbrún Condit

NÚ ÞEGAR bandaríski herinn hverfur af landi burt, vakna margvíslegar hugsanir til lífs! Ótal myndir koma upp á yfirborð vitundarinnar.

Koma hersins vakti miklar umræður á sínum tíma. Meðal almennings var það mjög umdeilt að hafa NATO-herstöð á Íslandi. Það voru ekki aðeins kommúnistar sem voru því andvígir. Mjög margir Íslendingar litu á það sem skerðingu á fullveldi þjóðarinnar að hafa erlendan her í landi sínu. Ríkisstjórn Íslands og meirihluti alþingismanna áleit það illa nauðsyn af öryggisástæðum. Þetta var í skugga kalda stríðsins sem sífellt magnaðist. Innganga Íslands í NATO kostaði átök – næstum blóðug í miðborg Reykjavíkur. Íslenskir ráðamenn lýstu því jafnframt yfir að “hér skyldi aldrei vera erlendur her á friðartímum.” Samt var NATO-herstöðin tekin í notkun í Keflavík vorið 1951 með tilkomu bandarískra hermanna þangað.

Þetta voru ekki fyrstu kynni Íslendinga af erlendum her því vorið 1940 steig breskur her hér á land í aðdraganda styrjaldarinnar við Þjóðverja. Þrátt fyrir stuðning almennings við bandamenn í styrjöldinni litu margir á herinn sem hreint innrásarlið, sem hefði fótum troðið fullveldi landsins. Ári síðar leysti bandarískur her þann breska af hólmi.

Allt frá komu Bretanna höfðu íslenskir karlmenn átt í erjum við hermennina. Voru hinir síðarnefndu ásakaðir fyrir að blekkja, tæla og misnota íslenskar stúlkur og konur. Og börnin sem voru ávextir þessara samskipta voru kölluð ástandsbörn.

Ég er sjálf “ástandsbarn”. Skömmu eftir fæðingu mína hvarf faðir minn. Um leið og ég fór að fá vit til hóf ég leit að honum. Mér þótti það undarlegt að bera nafn manns sem ég þekkti ekki. Ég vildi vita meira um uppruna minn. En öll viðleitni mín var árangurslaus. Enginn vissi eða vildi vita neitt. Ég skildi ekki af hverju Tryggingastofnun hafði engar upplýsingar um hann eða af hverju ég fékk engin svör þegar ég skrifaði til herstöðvarinnar í Keflavík. Bandaríska sendiráðið vissi heldur ekki neitt.

Árin liðu en ég hætti aldrei að hugsa um málefnið. Og svo löngu seinna komst ég að því að í varnarsáttmálanum á milli Íslands og Bandaríkjanna var ákvæði um það að íslenska ríkið bæri ábyrgð á börnum hermannanna. Og að Pentagon hefði þagnarskyldu og veitti þess vegna engar upplýsingar um hermenn sína. Segja má að íslenska ríkið sé faðir minn. En þvílíkur faðir!

Saga mín er að sjálfsögðu ekkert einsdæmi. Alls staðar, þar sem hermenn hafa verið, hafa ástarsambönd myndast. Engin ríkisstjórn getur þar um breytt. Hins vegar geta ríkisstjórnir krafist þess að feður beri ábyrgð á börnum sínum, ekkert síður en mæðurnar. Segja má að það sé hluti af jafnréttisbaráttu kynjanna og mannréttindabaráttu barna. Og flest viljum við geta rakið uppruna okkar.

Samtökin Warbabies voru stofnuð í Bretlandi til þess að hjálpa börnum bandarískra hermanna þar að finna feður sína. Samtökin fóru í mál við Pentagon og unnu fyrir dómstólum í Bandaríkjunum. Síðan 1990 eiga börn hermanna rétt á að fá upplýsingar hjá hernum um feður sína. Þó virðast réttindi okkar vera mjög takmörkuð. Það er engu líkara en sé ég eingetin!

Höfundur er “ástandsbarn”.

Mbl.is Sunnudaginn 3. september, 2006 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0