Eftir Ingibjörgu Rafnar: “Vald til þess að breyta lagaumgjörðinni liggur hjá Alþingi og ábyrgð á framkvæmd laganna í einstökum málum hvílir á stjórnsýslunni, dómstólum og foreldrum sjálfum.”

SÍÐASTLIÐINN þriðjudag birtist í Morgunblaðinu grein eftir Stefán Guðmundsson, stjórnarmann í Félagi ábyrgra feðra, undir yfirskriftinni “Hvað gerir umboðsmaður barna?” Er mér ljúft að svara þeirri spurningu að því marki sem greinin gefur tilefni til.
Stefán veltir fyrir sér “hvert hlutverk umboðsmanns sé í raun og veru – vegna þess hve lítið ber á hans störfum í þeim málaflokki sem hann sannarlega á að vinna í – flokki forsjár- og umgengnismála.” Vísar hann í umfjöllun á heimasíðu umboðsmanns barna um hlutverk embættisins jafnframt því sem hann reifar ákvæði 3. gr. laga um umboðsmann barna nr. 83/1994 þar sem hlutverk hans er skilgreint almennt. Stefán gerir hins vegar ekki grein fyrir því að í 3. mgr. 4. gr. laganna er skýrt tekið fram að umboðsmaður barna tekur ekki til meðferðar ágreining milli einstaklinga. Í athugasemdum með frumvarpi til greindra laga er jafnframt ítarleg umfjöllun um hlutverk og valdmörk embættisins. Meðal þess sem þar kemur fram er að verkefni umboðsmanns barna varða hagsmuni ótiltekins fjölda barna, honum sé því ekki ætlað að hafa afskipti af málefnum einstakra barna sem eru til meðferðar fyrir dómstólum eða stjórnvöldum og eru forsjár- og umgengnismál þar sérstaklega nefnd. Þá kemur þar fram að umboðsmanni barna er ekki ætlað það hlutverk að láta í ljósi álit sitt á því hvort stjórnvöld hafi brotið gegn lögum eða góðum stjórnsýsluháttum við meðferð einstakra mála af því tagi. Eftirlit með því heyrir undir valdsvið umboðsmanns Alþingis. Formleg aðkoma umboðsmanns barna að rekstri og meðferð einstakra forsjár- og umgengnismála fyrir stjórnvöldum og dómstólum er því engin.

En hvernig getur og á umboðsmaður barna að koma að þeim málaflokki sem Stefán gerir að umræðuefni?

Umboðsmanni barna ber samkvæmt lögum að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál um ýmis lögfræðileg atriði og hvar og hvernig þeir geti leitað réttar síns. Umboðsmanni berast fjöldamörg erindi og fyrirspurnir frá einstaklingum um þessi mál og fullyrði ég að embættið veiti þeim sem til þess leita greinargóðar upplýsingar.

Umboðsmaður barna getur tekið ákveðin málefni til sérstakrar skoðunar að eigin frumkvæði eða í tilefni af niðurstöðu í einstökum málum og komið athugasemdum og ábendingum um breytingar á lögum eða lagaframkvæmd til þeirra sem ábyrgð bera að lögum. Í mars 2003 samþykkti Alþingi ný barnalög og tóku þau gildi þann 1. nóvember það ár. Stóð vinna sifjalaganefndar við endurskoðun þeirra yfir í rúm þrjú ár eða frá 1999. Mikil og vönduð vinna var lögð í þá skoðun eins og sjá má af athugasemdum með frumvarpinu. M.a. var leitað eftir sjónarmiðum og tillögum frá ýmsum þeim stofnunum, félaga- og hagsmunasamtökum sem láta sig málefni á sviði barnaréttar varða. Þáverandi umboðsmaður barna, Þórhildur Líndal, kom á framfæri ýmsum ábendingum og skilaði allsherjarnefnd Alþingis einnig umsögn um frumvarpið. Eitt af síðustu verkum fyrrverandi umboðsmanns barna var að senda dómsmálaráðuneytinu bréf þar sem kynntar voru niðurstöður verkefnis sem tveir laganemar unnu fyrir embættið um framkvæmd sýslumannsembætta á ákvæðum barnalaga um umgengnisrétt, einkum hvernig sjónarmið barnanna sjálfra kæmust að áður en til úrskurðar kæmi. Komu þar fram ýmsar ábendingar og tillögur.

Árið 1997 var skipuð nefnd til að kanna ýmis atriði varðandi sameiginlega forsjá og umgengni barna og foreldra. Nefndin skilaði áfangaskýrslu árið 1999 og voru sumar af þeim tillögum er þar komu fram teknar inn í ný barnalög 2003. Í vor skilaði nefndin lokaskýrslu sinni til dómsmálaráðherra og var efnt til málþings um hana í lok apríl. Að beiðni ráðuneytisins hélt umboðsmaður barna erindi á því málþingi sem ráðherra, ásamt ýmsum lykilmönnum í þessum málaflokki, sat. Fjallaði undirrituð um þær tillögur sem fram komu í skýrslunni og jafnframt um ýmis atriði sem bæta þyrfti í meðferð þessara mála. Þess ber að geta að dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp til breytinga á barnalögum í upphafi yfirstandandi þings og er það nú til meðferðar þar.

Stefán segir að umboðsmanni sé fullkunnugt um það sem hann kallar “hörmungarástand sem ríkir í meðferð forsjármála á Íslandi”. Hafi umboðsmaður verið “hvattur til þess margsinnis að gera gangskör að því að leiðrétta hlut þeirra barna sem verða bitbein milli foreldra sinna í deilum eftir skilnað eða sambúðarslit – deilum sem rata fyrir stjórnsýslu og dómstóla – en lítið gerist.” Eins og að framan er rakið hefur umboðsmaður barna ekki vald til þess að beita sér með öðrum hætti en hann hefur gert og hér hefur verið lýst. Vald til þess að breyta lagaumgjörðinni liggur hjá Alþingi og ábyrgð á framkvæmd laganna í einstökum málum hvílir á stjórnsýslunni, dómstólum og foreldrum sjálfum.

Stefán víkur í grein sinni að fundi sem umboðsmaður barna átti með forsvarsmönnum Félags ábyrgra feðra þann 1. mars sl. Á fundinum lögðu þeir fram “tillögur til úrbóta í málefnum feðra og barna” og byrjuðum við að fara yfir þær. Lýsti undirrituð sig sammála ýmsu því er þeir höfðu fram að færa, svo sem að skoða mætti ýmsar lögfylgjur sem forsjár- og lögheimilisákvarðanir hafa í skatta- og félagslega kerfinu og að skilgreina betur rétt forsjárlausra foreldra til að fá upplýsingar um börn sín. En þegar í ljós kom að umboðsmaður var ekki sammála þeim í einu og öllu þá ruku tveir þeirra á dyr. Stefán sat eftir og áttum við góðar samræður í tæpan klukkutíma.

Stefán veit að undirrituð var starfandi lögmaður í fjöldamörg ár og að ég vann mikið í forsjár- og umgengnismálum – jafnt fyrir konur og karla. Dylgjur um að ég hafi gætt hagsmuna mæðra fremur en barna eru ekki á rökum reistar. Samkvæmt barnalögum – sem og Barnasáttmála SÞ – eiga börn rétt á að fá að njóta samvista við og umönnunar beggja foreldra sinna. Þegar þeim málum er skipað í hverju einstöku tilviki ber samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum fyrst og fremst að taka mið af hagsmunum þess barns sem í hlut á hverju sinni. Þar verða hagsmunir foreldra að víkja, jafnt mæðra sem feðra.

Ég ætla ekki að standa í þrefi í fjölmiðlum við forsvarsmenn Félags ábyrgra feðra. Ég er sem fyrr reiðubúin til samskipta og samvinnu við félagið – ekki á þeim forsendum að við þurfum að vera sammála í einu og öllu, heldur á grundvelli hreinskilinna skoðanaskipta í þeim tilgangi að tryggja sem allra best rétt barna.

Ingibjörg Þ. Rafnar
Höfundur er umboðsmaður barna.
Mbl. Mánudaginn 28. nóvember, 2005 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0