Helgarpabbinn – Skemmtanastjórinn |
Höfundur: Hannes Jónas | |
06 September, 2006 | |
Iðulega berst mér til eyrna umkvörtun fráskyldra mæðra vegna agaleysi “helgarpabbans”. Börnin fara til pabba á föstudegi og koma dýrvitlaus og illa sofin til baka á sunnudagskveldi. Þegar ég hef hlustað eftir þessu hjá helgarpöbbum þá er þeirra upplifun önnur en mæðranna. Nokkur atriði standa upp úr í mínum huga. • Helgarpabbinn sér börnin sín 6 daga á mánuði og vill því að þessir dagar séu sem ánægjulegastir fyrir bæði sig og börnin. Best er að byrja umræðuna á síðasta liðnum – eilífar útásetningar á uppeldisaðferðir barnsföður. Þegar svona er í pottinn búið snúast umkvartanirnar allt of oft ekki um uppeldisaðferðir heldur ósætti foreldra. Afleiðingar slíkra ósætta er efni í langa grein út af fyrir sig en ljóst er að farsælast fyrir börnin er að samskipti foreldra séu í það minnsta á kurteisum nótum. Ósætti milli foreldra bitnar alltaf á börnum, börnin lenda jafnvel í því hlutverki að ferja boð á milli ellegar að vera uppspretta neikvæðra frétta um hitt foreldrið. Slíkt hlutverk getur haft neikvæð áhrif á uppvöxt og þroska barna, auk þess að það hefur áhrif á tengslamyndun barna og foreldra.
Þetta leiðir okkur að næst síðasta atriðinu, mismunur áherslna í uppeldismálum. Foreldrar eru oft ekki samstíga í uppeldi, eða skoðunum á hvaða uppeldisaðferðum eigi að beita. Þetta getur valdið togstreitu milli foreldra og ekki síst hjá börnum, sem þurfa að búa við breytilegar reglur milli dvalarstaða. Það má segja að það sé kaldhæðið að þegar foreldrar hafa slitið sambandi eykst krafan á samhæfðar reglur í uppeldi barna og þar með krafan á samskipti milli foreldra. Með grunnreglum á ég við svefntíma, matartímar og helstu reglur er lúta að hegðun barna innan og utan heimilis. Eindregið er hægt að mæla með að foreldrar eyði smá tíma í að setja niður sanngjarnar reglur sem báðir aðilar treysta sér til að framfylgja. Þessar reglur þarf svo að endurskoða með tilliti til aldurs barna og breytinga í aðstæðum þeirra. Að vera óöruggur sem uppalandi. Hver hefur svo sem ekki upplifað óvissu um það hvort uppeldisaðferðir eru að virka eða ekki? Hvort rétt hafi verið að láta undan barninu eða skamma það við tilteknar aðstæður? Ekkert í uppeldi barna gefur 100% örugglega ákveðna niðurstöðu. Þegar við upplifum óöryggi er almennt farsælast að leita sér upplýsinga eða ráða vegna þess sem skapar óöryggið. Í dag eru til fjöldi möguleika á að leita sér upplýsinga vegna uppeldis mála. Hægt er að nálgast margþættar upplýsingar um uppeldi í tímaritum, t.a.m. uppeldi, á pabbar.is er einnig ýmislegt um uppeldi og heilsu barna og svona mætti lengi telja. Nánasta uppspretta upplýsinga eru aðstandendur og eigum við ekki að vera smeyk við að leita okkur ráða hjá þeim. Þá er það uppspretta þessarar greinar, það er hinn algengi misskilningur helgarpabba að dvöl barnanna hjá þeim eigi að vera skemmtun frá upphafi til enda. Þessi misskilningur getur verið sprottinn af hinum ýmsu ástæðum. Þörf fyrir að vera vinsæll hjá börnunum sínum, sú hugmynd að verið sé að bæta fyrir fjarveru hina 24 daga mánaðarins, bæta upp missinn við skilnað, jafnvel bara sú einlæga þörf að gleðja börnin sín. Vissulega skilur það eftir skemmtilegar minningar og augnabliksánægju hjá bæði föður og börnum. Á móti kemur að börnin upplifa ekki þann ramma og öryggi sem þeim er oft nauðsynlegt til kjölfestu. Börn geta jafnvel kviðið komunni til pabba þar sem þau vita ekki hvað á að gera, hve mikill þeytingur verður á þeim. Þessi kviði getur birst móður sem aukin spenna, svefnörðuleikar eða jafnvel skapbreytingar hjá börnum. Vissulega eru börn misjöfn og þol þeirra fyrir breytileika er bæði einstaklings sem og aldursbundin. En almennt má segja að börn hafa ákveðna þörf fyrir ramma og skýr mörk, hafa þörf fyrir að vita hvað verður. Hikið ekki við að setja börnum ykkar sanngjarnar reglur og mörk. Ef börnin eru komin til vits og ára þá er gott að hafa þau með í ráðum. Nýtum þann tíma sem við höfum til þess að vera með börnunum, leika við þau, leyfa þeim að hjálpa til eða bara að horfa á sjónvarp saman. Síðast en ekki síst viðhaldið samskiptum við hitt foreldrið. Því þó þið búið ekki saman lengur þá eruð þið ennþá og verðið áfram foreldrar barna ykkar.
Hannes Jónas Eðvarðsson, félagsráðgjafi og sálfræðingur. |
Leave A Comment
You must be logged in to post a comment.