Hugo Þórisson sálfræðingur hefur yfir tveggja áratuga reynslu af starfi með foreldrum og börnum. Hann segir að eitt einkenni helgarpabbana svokölluðu sé hræðsla.

“Þeir pabbar sem fara að fá börn sín til sín aðra hvora helgi lenda í þeirri stöðu að verða hræddir. Þeim verður svo mikið í mun að börnunum finnist gaman að koma til þeirra og þeir hræðast það mest að börnunum leiðist. Þeir búa yfirleitt ekki í nágrenni við nánasta umhverfi barnsins og því eru börnin ekki í nálægð við vini sína, nágrana og hið hefðbundna umhverfi sem þau eru vön. Börn eru vissulega háð þessum hlutum. Feðrunum finnst þeir því sitja uppi með þá skyldu að hafa ofan af fyrir krökkunum. Og þá er farið í bíó, keilu, barnaleikhús og svo framvegis. Síðan er pitsa og hamborgari til skiptis að borða. Þetta verður því allt öðruvísi líf en það hversdagslíf sem börnin eiga að venjast. Margir helgarpabbar lenda í þessu fari,” segir Hugo.

Ekki lulla gegnum lífið

En hvað með tengslin milli barns og föður, eru þau þá ekki að gleymast? Þessi lýsing ber því tæpast vitni að þau séu ræktuð sem skyldi? ,,Jú, ég skil satt að segja ekki þessa hræðslu við að börnunum leiðist. Það er ekkert að því að þau séu að dunda í legó eða að lita eða lesa. Það væri nær að sleppa að fara út að borða og elda með þeim eða baka með þeim. Vera með þeim í stað þess að vera bara við hliðina á þeim og horfa á eitthvað sem á að vera þeim til skemmtunar. Hættan er sú að þessir feður lulli bara við hliðina á börnum sínum í gegnum lífið. Þeir sem vilja rækta tengsl við börnin sín eiga ekki að vera hræddir við að búa til hversdagslíf með þeim. Auðvitað er sjálfsagt að fara eitthvað og gera eitthvað stöku sinnum en slíkar uppákomur eiga að vera undantekning frekar en regla.”

Reglulaus veröld

Hugo segir þessa feður líka oft missa af ýmsum hlutum, smáum sem stórum, í reglubundnu uppeldi barnanna. Þeir fylgjast ekki með heimanámi þeirra, hafa ekki áhyggjur af útvistar- eða háttatíma, félagslífi og öðru slíku. Börnin koma til þeirra en taka ekki skyldur sínar með sér, koma eiginlega í veröld þar sem engar þær reglur gilda sem þau eru öðru jöfnu vön. ,,Ætli maður að kynnast barni sínu og rækta það verður maður að eiga alla þessa hluti með því,” segir hann. Sé um sameiginlegt forræði að ræða verður faðirin þó aðeins meiri þáttakandi í hinu venjubundna lífi barnsins. Þá þarf að koma því í skóla,
eða leikskóla eftir atvikum, og um leið verður hinn hversdagslegi þáttur viðameiri.

Þegar pabbi eignast barn

Það er ljóst að það er ekki einfalt að vera helgarpabbi, hvorki fyrir föðurinn né barnið. En málin flækjast enn frekar ef og þegar helgarpabbinn fer í aðra sambúð og eignast börn eða fósturbörn. Þá fer á koma á heimilið gestur aðra hvora helgi, gestur sem ekki er víst að öllum í fjölskyldunni finnist jafn æskilegt að fá. Föðurnum getur meira að segja farið að finnast hans eigið barn vera sínu nýja fjölskyldulífi fjötur um fót.

,,Ef við göngum út frá að við séum að tala um helgarpabba sem sinnir vel sínu barni og heldur áfram að sinna því vel þó hann fari í nýja sambúð þá getur hann lent í vandræðum hafi hann verið of mikið í þessum ,,skemmtanabransa” með því áður. Nú eiga hlutirnir að breytast allt í einu. Nú eru börn eftir hjá pabba þegar barnið þarf að fara heim. Því finnst það missa pabba sinn; það skilur hann eftir hjá börnum sem hafa hann alltaf og ávallt og skemmtanirnar minnka jafnframt. Það veldur óánægju þess. Ef pabbinn ætlar hins vegar að halda áfram að gera alltaf eitthvað þegar hann fær barnið í heimsókn þá verða hin börnin óánægð því það er aldrei neitt gert nema þegar ,,hitt barnið” er í heimsókn. Við tekur togstreita um athygli, tilfinningar og annað og hlutirnar flækjast verulega. Og þeir flækjast enn ef hann reynir að gera eitthvað með sinni nýju fjölskyldu því þá heyrir barnið hans hin börnin tala um eitthvað skemmtilegt sem fjölskyldan gerði þegar það var ekki með,” segir Hugo.

Mamma eignast barn.

Enn á eftir að taka með í reikninginn hvað gerist ef barnsmóðirin eignast nýjan maka og síðan með honum börn. Þá á nefnilega barn helgarpabbans systkyni og hann þarf að taka tillit til þeirra. ,,Mér virðist helgarpabbar oft gleyma að barnið þeirra er búið að eignast systkyni þó svo þeir hafi ekki eignast barn. Barnið þeirra fær allskonar hluti aðra hvora helgi meðan systkyni þess fær ekki neitt. Það er eitthvert réttlæti til hjá börnum sem segir að einn eigi ekki að fá meira en annar, allt þarf að skiptast hnífjafnt. Þetta getur því skapað vandkvæði. Ég ráðlegg feðrum að muna eftir þessum systkynum barna sinna og sýna þeim virðingu og tillitsemi. Gefa þeim gjafir á jólum og slíkt því það er ekki bara erfitt fyrir systkynin að horfa upp á stórar og miklar jólagjafir sem eitt barnið fær um fram þau, heldur líka fyrir það barn sem fær gjafirnar,” segir Hugo.

Hversdagsleikinn.

“Mér finnst afar mikilvægt að þessir feður hræðist ekki hversdagsleikann því það kemur að hversdagslífi, til dæmis í nýrri sambúð, og menn þurfa að kynnast barninu sínu í gleði og leiða, skyldum og skemmtun. Faðir sem ræktar tilfinningaleg tengsl við barnið og hlúir að því, og býr því íverustað á heimili sínu þar sem það hefur sína hluti og gengur að þeim vísum er að gera rétt. Hann á ekki að vera með það á þeytingi á milli staða og reyna að kaupa sér athygli. Börnin þurfa að vita af sínum stað og vita að hann verði þar jafnvel þó þau fari. Börn þurfa öryggi, það er algjör grunnþáttur,” segir Hugo Þórisson sálfræðingur.

Að vera ekki skemmtanastjórar

Það er ljóst mikið gengur á í sálarlífi barna ekki síður en foreldra þegar sambúðarslit verða. Tilfinngalegt rót er mikið, það ríkir upplausn, depurð, fjárhagsáhyggjur fylgja oftar en ekki og streita; í einu orði kaos. Öryggi er grundvallaratriði eigi tilveru barnanna að vera borgið og þó grunnt geti verið á því góða milli foreldranna verða þeir að geta rætt framtíð barna sinna á skynsemisnótum.

Feður missa ekki börn sín þó til skilnaðar komi en þeir geta misst þau frá sér haldi þeir ekki vel á spöðunum. Þeir verða að varast það að enda sem skemmtanastjórar. Og eru sennilegast að gera mest með barni sínu þegar þeir eiga með því kyrrláta stund heima við og dunda sér. Lifa hversdagslífinu.

Haraldur Jónsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0