Samkvæmt ársskýrslu Innheimstustofnunar sveitarfélaganna voru á Íslandi 12.054 meðlagsgreiðendur við lok árs 2003. Af þeim eru 4.124 skuldarar í greiðsluerfiðleikum og af þessum 4.124 eru um 100 manns gjaldþrota, um 815 með skiptalok og um 2.300 með árangurslaust fjárnám.

Í skýrslunni stendur að„Mjög hert eftirlit er með þeim skuldurum, sem komnir eru í vanskil og fylgst vel með stöðu hvers og eins.“ Áfram segir í skýrslunni „Greiðlsuáskoranir voru sendar út til 1272 skuldara árið 2003 en 912 skuldara árið 2002. Aðfarabeiðnir voru sendar til 1360 skuldara árið 2003 en 576 skuldara árið 2002.“ Innheimtustofnun sveitarfélaganna er með öðrum orðum að stefna á annað þúsund manns í gjaldþrot. Getur verið að allir þessir 4.124 einstaklingar séu ábyrgðarlausir eða getur verið að eitthvað sé að hjá okkur í þessum málaflokk?

Meðlög á Íslandi og í nágrannalöndunum.

Í dag er meðlag 16.025 kr á mánuði. Til þess að meðlagsgreiðandi geti átt þessa upphæð, þá þarf viðkomandi að hafa 25000 kr í laun fyrir skatta. Á Íslandi er lögum samkvæmt ekki hægt að semja um lægra en lágmarksmeðlag. Í Svíþjóð er lágmarksmeðlag 1.173 Sek á mánuði með barni eða um 11.062 íslenskar krónur. Í Danmörku er mánaðarlegt lágmarksmeðlag 998 danskar krónur á mánuði eða sem svarar 11.274 íslenskum krónum. Lágmarks meðlag í Svíþjóð og Danmörku eru því um 69 %-70% af því sem íslenskir meðlagsgreiðendur þurfa að greiða. Í Noregi skiptist framfærslukostnaður barna eftir tekjum foreldra að teknu tilliti til greiðslu barnabóta og umfangs umgengni. Við háar tekjur forsjarforeldris og lágar tekjur forsjárlausa foreldrisins verða mánaðarlegar meðlagsgreiðslur í Noregi mun lægri en á Íslandi og geta jafnvel verið felldar niður. Svipað er í Kanada Bretlandi og Bandaríkjunum. Sameiginlegt með þessum löndum er að meðlagsgreiðandi verður að hafa greiðslugetu til innheimt sé meðlag. Lágmarksmeðlag á Íslandi eru því að minnsta kosti 30% hærri en í nágrannalöndunum. Opinbert framlag til barnafólks virðist hærra á Norðulöndunum en hér. Á Íslandi greiða því forsjárlausir meira en hið opinbera minna til forsjár foreldra.

Hvað kostar að framfleyta barni.

Þann 30 júni sl ritar Katrín Ólafsdóttir í Fréttablaðið. Greinin bar yfirskriftina “Hvað kosta börnin”. Þar telur hún að samkvæmt skýrslu Hagstofu Íslands (nr 89/2004), kosti fyrir árin 2000-2002 um 47.000 krónur að framfleyta barni á mánuði, þ.m.t. húsnæðiskostnaður. Báðir foreldrar þurfa að eiga þak yfir höfuðið og því óeðlilegt að annað foreldri sé að greiða húsnæðiskostnað hins foreldrisins.

Ef rýnt er í tölur Hagstofunnar, þá má sjá að kostnaður án húsnæðis er um 36.064 kr á mánuði við að framfæra barni. Uppreiknað til dagsins í dag, miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis er kostnaður við barn á mánuði kr 38.912. Einfalt meðlag er um 41 % af mánaðarlegum framfærslu kostnaði barns. Forsjáforeldri fær barnabætur sem geta verið 17.107 kr á mánuði. Einfalt meðlag og óskertar barnabætur eru því um 85 % af farmfærslukostnaði barns. Flestir forsjárlausir hafa einhverja umgengni við börn sín og þann tíma greiða forsjárlausir einnig meðlög til forsjárforeldrisins. Að auki er hægt að krefja forsjárlausra um greiðslur vegna sérstakra útgjalda, s.s. tannlæknakostnaðar, ferminga oþh. Sýslumannsembættin dæma forsjárlausa í auknar meðlagsgreiðslur hafi þeir sómasamleg laun. Forsjárlaust foreldri, sem greiðir aukið meðlag með barni, greiðir meirihluta framfærslu vegna barnsins og með barnabótum er búið að dekka nánast þennan kostnað, sem er skv tölum Hagstofunnar.

Skattaleg staða meðlagsgreiðenda.

Meðlagsgreiðendur eru framfærendur barna sinna rétt eins og forsjárforeldrar. Flestir forsjárlausir hafa nokkra umgengni og þurfa að eiga eða hafa húsnæði fyrir börn sín rétt eins og forsjárforeldrið. Meðlagsgreiðendur njóta þó ekki vaxtabóta, húsleigubóta osfrv sem slíkir. Hér er um mismunun að ræða á milli framfærenda með forsjár og forsjárlausra framfærenda.. Hafi foreldrar sameiginlega forsjá, þá hefur barnið ávallt lögheimili aðeins á einum stað og það foreldri fær allar barnabætur og þiggur meira að segja meðlag frá hinu foreldrinu, jafnvel þótt umönnun barnsins sé nokkuð jöfn..

Meiri umönnun og minni meðlög.

Forsjárlausir eru að öllu jöfnu karlar og forsjárforeldrar eru að öllu jöfnu konur. Sú mynd , að móðirin fái meðlag sem faðirinn greiði, styrkir gömlu staðalímynd kynjanna að karlar séu fyrirvinnur og konur uppalendur. Framtíðarjafnréttissýn beggja kynja hlýtur að vera að báðir foreldrar séu jafn virkir í uppeldi barna sinna, hvort heldur í hjónabandi eður ei. Við slíkar aðstæður fullnægja báðir foreldrar framfærsluskyldu sinni með beinni umönnun barna sinna. Við slíkar aðstæður er óþarfi að vera að millifæra meðlagsgreiðslur frá einu heimili til annars. Við nýjar aðstæður munu konur fyrst ná launajafnrétti á vinnumarkaði. Því miður hyllir ekkert undir neitt af þessu.

Á meðan herðir Innheimtustofnun sveitarfélaganna eftirlit með vanskila skuldurum og fleiri börn munu eignast gjaldþrota feður sem hafa verið skattlagðir í heimsins hæstu lágmarksmeðlög.

Gísli Gíslason
Höfundur er markaðsstjóri og ritari Félags Ábyrgra Feðra.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0