Hér er hægt að finna upptöku af þættinum í morgun. Ekki var möguleiki á því að koma öllu að í stuttu viðtali. En eitthvað af því sem er í þessari grein kemur þar fram.

 

 

Gunnar segir félagið rakalaust og öfgafullt

 

Gunnar heldur því fram að félagið hafi engin rök fyrir því að staða feðra sé verri á Íslandi en löndunum í kringum okkur. Gunnar hefur þá ekki kynnt sér skýrslu nefndar um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerðum sem skipuð var af Félagsmálaráðuneytinu og skilaði af sér síðastliðinn vetur. Þar sem það kemur glögglega fram að staða feðra er lakari hér á landi og að íslensk barnalög skera sig verulega úr lögum landanna sem við miðum okkur við.

 

Gunnar talar um félagið okkar eins og við séum umdeild öfgasamtök sem tali á skjön við samfélagið. Það er rangt og það er hægt að skoða í sömu skýrslu nefndarinnar og einnig með því að skoða ályktanir flokkanna, t.d. hafa Sjálfstæðisflokkur og Samfylking tekið upp 9 af þeim 10 atriðum sem eru þar og Framsóknarflokkurinn hefur tekið vel undir hugmyndir okkar. Nefndin telur til að mynda nauðsynlegt að endurskoða barnalögin og tryggja að unnt verði að grípa til skilvirkari úrræða vegna tilhæfulausra umgengnistálmana. Flokkarnir vilja einnig endurskoða þessi mál. Félagið sker sig ekki úr hvað það varðar.

 

Bæklingurinn og kröfurnar

 

Gunnar talar um bæklinginn okkar þar sem tíu kröfur félagsins hafa verið settar fram. Hann telur upp sex kröfur Félags um foreldrajafnrétti og allar sex kröfurnar eru búnar til úr einni kröfu félagsins.

 

Gunnari þykir það fráleitt að félagið fari fram á að þekking á málefninu verði aukin og spyr í kaldhæðni að því er virðist hvort félagsmenn FUF eigi að sjá um fræðsluna. Ég veit ekki hvar hann fékk þá hugmynd. Alvöru fræðimaður getur aflað sér þekkingar sjálfur en væntanlega þarf hann samt að tala við félagsmenn FUF alveg eins og það er talað við þá sem leita til kvennaathvarfsins þegar þekkingar á heimilisofbeldi er aflað.

 

Gunnar telur upp fleiri atriði sem félagið taldi upp varðandi aðgerðir vegna umgegnistálmana. Flest atriðin sem talin eru upp eru nú þegar í lögum að einhverju leiti en þó ekki að virka eða ekki beitt sem skildi. Kannski væri besta leiðin að færa forsjá svo fljótt sem auðið er til umgengnis foreldrisins til að koma megi í veg fyrir harkalegar aðgerðir við tálmandi foreldrið. En það sem félagið er fyrst og fremst að fara fram á varðandi tálmanir er að málin fái fljóta og vandaða afgreiðslu. Það er ólíðandi að umgengnistálmanir fái að viðgangast í mörg ár jafnvel 8 til 18 ár án þess að kerfið bregðist við. Kerfið á að bregðast við á fyrstu dögum tálmunar.

 

PAS aðferðir

 

Gunnar Hrafn skilgreinir eitthvað sem hann kallar PAS aðferðir og lýsir þeim með mjög grófum hætti meðal annars með því að börn sem ekki vilji hitta föður sinn verði sett í fangelsi. Hann segir FUF krefjast þessara aðferða. Þetta er alrangt. Félagið vill umræðu um það sem kallað hefur verið PAS. Félagið vill að tilhæfulausar tálmanir verði gerðar refsiverðar eins og hvert annað ofbeldi. Börn eru ekki sek í þessum málum en rannsaka þarf hvort viðhorf barns sé frá því sjálfu komið eða hvort það er af ótta eða undirgefni við tálmandi foreldrið.

 

Gunnar vísar rangt í félagið

 

Þegar Gunnar Hrafn vísar í félagið þá vísar hann í síðuna hinhlidin.com sem tengist félaginu ekkert. Gunnari er vel kunnugt um hvar málefni okkar er að finna en notar þessa aðferð væntanlega til að gera okkur umdeilda.

 

Þegar hann vísar í nafn félagsins þá hefði verið nóg að vísa í Félag um foreldrajafnrétti eins og það heitir í dag. Það hefði nægt hvaða manni sem er til að átta sig á hvaða félag hann var að vísa í. Félagið hefur einu sinni skipt um nafn. Það var gert í þeim tilgangi að skerpa á tilgangi félagsins og til þess fjölga konum í félaginu. Nafnið Félag ábyrgra feðra var ekki beint að bjóða konum í félagið. Gunnar gefur í skyn að við séum nafnaflakkarar þegar hann vísar í þrjú nöfn á félaginu og segir það fyrst hafa heitið Félag forsjárlausra feðra sem er rangt. Hann hefði getað staðfest það hjá fyrirtækjaskrá.

 

Foreldrajafnrétti vs hagmunir barna

 

Hann segir foreldrajafnrétti ekki fara saman við hagsmuni barna en á sama tíma segir hann að ekki megi mismuna foreldum eftir kynjum. Enn talar hann í hringi. Það er alveg ljóst í mínum huga að ef við höfum hagsmuni barnsins að leiðarljósi eins og við eigum að gera, þá ríkir foreldrajafnrétti. Um leið og við tökum hagsmuni annars foreldrisins fram yfir hagsmuni hins foreldrisins þá erum við farinn að skerða hagsmuni barnsins. Rannsóknir hafa sýnt að bestu hagsmunir barns eftir skilnað er að vera í sem mestri umgengni. Munurinn er ótrúlega mikill á farsæld þeirra barna sem njóta ríkrar umgengni og þeirra sem fá ekki notið þessarar umgengni. Í grein Gunnars virðist hann telja það eðlilegt að barn haldi í reiði gagnvart forsjárlausa foreldrinu vegna skilnaðar allt til 18 ára aldurs en sættist þá við forsjárlausa foreldrið.

 

PAS og kynferðisásakanir

 

Gunnar segir PAS eiga eingöngu við í málum þar sem uppi eru ósannar ásakanir um kynferðisbrot foreldris á barni sínu og vitnar í grein Gardners frá 1992 sem ber titilinn „True and false accusations of child sexual abuse“ Sannar og ósannar ásakanir um kynferðislega misnotkun á börnum. Fyrir það fyrsta þá ber titill greinarinnar það með sér að hann er að fjalla um ásakanir um kynferðisbrot en ekki PAS í heild sinni. Og það sem hann segir er að foreldrið sem dæmt sé frá barninu sé kallað barnaníðingur (e. pedophile). Ég fæ ekki betur séð en að Gunnar segi ósatt og fari rangt með heimilidir þegar hann segir að PAS eigi eingöngu við í málum þar sem uppi eru kynfeðisásakanir. Gunnar Hrafn talar einnig í hringi í grein sinni því á sama tíma og hann heldur því fram að PAS eigi eingöngu við um kynferðisásakanir þá segir hann líka að það vera PAS ef móðir hringir í barn í umgengni hjá föður og spyr hvað það hafi verið að gera með honum. Bæði er hann að tala í hringi og fara rangt með. Hann gerir heldur ekki greinarmun á því hvort um hóflega hegðun er að ræða eða hvort hegðunin sé óhófleg og ítrekuð eins og ef foreldri er stöðugt að hringja og yfirheyra barn um hvað það er að gera í umgengni með hinu foreldrinu.

 

PAS sjúkdómur

 

Félag um foreldrajafnrétti hefur ekki haldið því fram að PAS sé sjúkdómur. Við höfum haldið því fram að sú hegðun sem lýst er í PAS kenningunni sé andlegt ofbeldi á barni. Við viljum að þetta andlega ofbeldi verði refsivert eins og annað ofbeldi. Ef við teldum PAS vera sjúkdóm þá værum við varla að fara fram á að sjúkdómurinn væri refsiverður. Það væri eins og að fara fram á fangelsisvist við krabbameini eða þunglyndi. Það er hins vegar athyglisvert í grein Gunnars að hann setur samasem merki á milli sjúklegs og ills ásetnings. Hann gerir ekki greinarmun á illum ásetningi og sjúkdómi. Þetta finnst mér lýsa miklum fordómum Gunnars Hrafns gagnvart notendum geðheilbrigðisþjónustunnar.

 

Það má alveg segja það að félagið hafi ofnotað hugtakið PAS. Við þurfum að finna heiti yfir ofbeldið sjálft í stað þess að nota gamla skilgreiningu geðlæknis sem vill sjúkdómsgera hlutina. Ástæður þess að þessi skammstöfun hefur verið notuð er væntanlega sú að undir þeirri skilgreiningu er hægt að finna upplýsingar um hegðun sem fylgir því ofbeldi sem við viljum að verði viðurkennt vandamál.

 

Ný skilgreining

 

Við höfum undanfarið verið að nota Foreldrafirringu og sleppum heilkenni. Foreldrafirring er ekki endilega orðið sem á að nota því það orð segir ekki nægilega mikið ef þá nokkuð og alls ekki allir sem skilja það orð. Við getum vel skipt upp í þrjá flokka því sem við erum að tala um þegar við tölum um PAS.

 

Neikvæð innræting

 

„Neikvæð innræting“ er þegar foreldri gerir lítið úr eða kemur inn vondum hugmyndum um hitt foreldrið eða ættingja þess. Þessi innræting getur verið allt frá ítrekuðum athugasemdum vegna þess sem hitt foreldrið gerir fyrir barnið. Til dæmis að setja stöðugt út á föt sem hitt foreldrið kaupir eða klæðir barnið í. Þetta getur líka orðið mjög gróft og grófast þannig að barni er innrætt slæm meðferð af hendi hins foreldrisins. Þessi innræting getur byrjað þegar barnið er ungabarn. Það er þekkt í heimi sálfræði að minnið er ekki alltaf rétt og það getur verið erfitt að greina á milli þess sem manni hefur oft verið sagt og þess sem maður virkilega upplifði og sérstaklega á þetta við um minningar frá barnæsku.

 

Tálmanir (Fjölskyldusvipting)

 

Tálmanir eru þegar foreldri lokar á alla umgengni við hitt foreldrið og yfirleitt alla fjölskyldu þess foreldris. Þetta getum við kallað „Fjölskyldu sviptingu“ og getum flokkað það undir einangrunarofbeldi og frelsissviptingu. Þessi börn eru ekki bara svipt öðru foreldri sínu heldur yfirleitt ömmu og afa, systkina börnum sínum, og öðrum ættingjum í þann legginn. Telja má líklegt að þegar tálmanir eiga sér stað þá sé líka um að ræða neikvæða innrætingu. Gunnar segir PAS aðferðir harðneskjulegar en honum ljáist að nefna það að „Fjölskyldusvipting“ sem felst í tilhæfulausum tálmunum eru harðneskjulegar aðferðir.

 

Falskar ásakanir

 

Falskar ásakanir eru til og í raun er það nóg til að slík mál þurfi að rannsaka. Það er ekki aðalatriðið hversu algengar þessar fölsku ásakanir eru því ef þær eru til þá megum við ekki loka augum okkar fyrir þeim. Jóhann Loftsson sem er hinn sálfræðingurinn sem starfar fyrir sýslumannsembættin kannast vel við þessar ásakanir og sagði hnefaréttinum vera umbunað í umgengnismálum á ráðstefnu í fyrra. Viðhorf Gunnars Hrafns að trúa í blindni að móðirin segi satt og ganga út frá því að faðirinn sé að ljúga eru stórvarasöm. Ég segi það stórhættulegt að ákveða út frá tölfræði hvort manneskja er sek eða saklaus. Hvert mál verður að rannsaka.

 

Gunnar segir að þó svo ósannar ásakanir séu til þá eigi frekar að beina athyglinni að algengari vandamálum. Hann gerir ekki greinarmun á alvöru málsins og horfið aðeins til fjöldans. Það er mjög alvarlegt að sálfræðingur sem starfar við þessi mál vilji líta fram hjá fölskum ásökunum þó hann viti af þeim.

 

Heiðarlega sálfræðinga

 

Ég rak augun í grein á mbl.is þar sem Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands 5.okt.2001. Ég hef eftir honum góða setningu sem ég tel að allir fræðimenn ættu að hugleiða og Gunnar Hrafn ekki undanskilinn. Hann sagði: “Ef ég hagræði niðurstöðum einu sinni er ég búinn að vera sem fræðimaður”. Hann vísaði í að niðurstöður væru oft pantaðar hjá sálfræðingum og það væri til skaða fyrir greinina þegar slík vinna væri viðhöfð. Hann var að tala um sakamál og ég hef enga ástæðu til þess að halda að þetta sé öðruvísi í forsjármálum.

 

Ég tel fulla ástæðu til þess að dómsmálaráðuneytið rannsaki það hvort sálfræðingar hafi í einhverjum tilfellum hagrætt niðurstöðum í forsjármálum. Ég tel einnig að þeir sálfræðingar sem hafa verið áminntir fyrir slík vinnubrögð eigi ekki að koma að slíkum málum.

 

 

Heimir Hilmarsson
formaður Félags um foreldrajafnrétti

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0