Heimdallur tekur undir gagnrýni dóms- og kirkjumálaráðherra á lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og hvetur þingmenn til að nema lögin úr gildi, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu. „Markmið laganna miðast fyrst og fremst við jafnstöðusjónarmið enda er jafnrétti varið af stjórnarskrá íslenska lýðveldisins,“ að því er segir í tilkynningunni.

Þar segir að raunverulegt jafnrétti felist í því að ríkisvaldið mismuni ekki einstaklingum á grundvelli þátta á borð við kyn, kynferði og kynþátt. „Jöfn hlutföll kynja á hinum ýmsu sviðum samfélagsins eru ekki markmið í sjálfu sér. Kúganir eru ekki rétta aðferðin við að auka virðingu og jafnt tillit til einstaklinga. Slíkt takmark næst með minni afskiptum ríkisvaldsins af frjálsum markaði. Reynslan hefur sýnt að á frjálsum markaði er engum stætt á því að mismuna fólki til langs tíma,“ segir í tilkynningunni. Þar segir jafnframt að markmið jafnstöðulaganna séu mótsagnakennd og geti leitt til þess að ákvarðanir séu teknar sem brjóti gegn jafnréttishugsjóninni. Þá samræmist mismunun á grundvelli kynferðis ekki hugmyndum um jafnrétti.

Heimdallur sér enn fremur ástæðu til að minna fólk á að sitt er hvað jafnrétti og jafnstaða, að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0