Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingar á nokkrum lögum á sviði sifjaréttar. Meðal breytinga sem þar eru lagðar til að við skilnað foreldra eða sambúðarslit skuli foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns nema annað sé ákveðið. Þetta er breyting frá fyrri lögum þar sem miðað var við að annað foreldrið (venjulegast móðir í reynd) færi með forsjá en sameiginleg forsjá væri þá sérstakt úrræði.

Þetta frumvarp er í takt við við þróun í jafnréttismálum hér á landi undanfarin ár. Sú breyting verður nú á að kerfið hér á landi verður líkara því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Sameiginleg forsjá er að ýmsu leyti eðlilegt fyrirkomulag ef foreldrar skilja þar sem börn eiga tvo foreldra og báðir foreldrar eiga að bera ábyrgð á uppeldi og umönnun barna sinna.

Hins vegar þarf að skoða málin út frá ýmsum hliðum. Ef foreldrar geta til að mynda ekki komið sér saman um hvernig umönnun og uppeldi barns eigi að vera háttað getur sameiginleg forsjá verið óheppilegur kostur, a.m.k. ef henni fylgir ekki ákveðinn umgengnissamningur og jafnvel ráðgjöf af hálfu hins opinbera til foreldra. Því miður eru allmörg dæmi um að foreldrar sem hafa skilið og haft sameiginlega forsjá með börnum sínum hafa í raun alls ekki farið með sameiginlega forsjá enda veltur hún á því að foreldrar geti talað saman.

Þá er ýmislegt óljóst í lagaumhverfinu fyrir sameiginlega forsjá. Þannig verður barn t.a.m. að eiga lögheimili á einum stað og á því alltaf „heima“ hjá öðru foreldrinu. Hefðin er þá sú að hitt foreldrið greiðir meðlag til þess foreldris. Þá gildir einu hvort barnið eyðir tíma til jafns hjá báðum foreldrum eða hvort það er meira á lögheimili sínu, meðlagsgreiðslur fylgja því ekki nema annað foreldrið beinlínis afsali sér greiðslunum. Það gerist sjaldan og feður sem hafa börnin sín mikið hjá sér og búa þeim í raun annað heimili greiða þá eigi að síður fullt meðlag til móður á þeim forsendum að þar eigi börnin lögheimili — en sú er langoftast raunin í sameiginlegri forsjá. Það er auðvitað óréttlátt fyrirkomulag.

Skilnaður er erfið lífsreynsla fyrir fullorðna og börn. Það er í raun skylda hins opinbera gagnvart þeim börnum sem þurfa að kynnast skilnaði að foreldrar þeirra fái alla mögulega hjálp við að komast að samkomulagi um uppeldi barnanna til að sameiginleg forsjá geti virkað sem best. Því að sjálfsögðu er það börnunum best að alast upp hjá föður og móður. Og vissulega eiga foreldrarnir báðir rétt á því að sinna sínum börnum eins vel og þeim er unnt. Í þessum efnum þarf að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi, sem og hagsmuni foreldra. Ef að þessu verður gáð gæti þetta orðið framfaraskref í fjölskyldumálum á Íslandi.

22.11.2005
kj

Sjá nánar: http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1802&gerd=Frettir&arg=6

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0