Hæfileikar kynjanna

Félag kvenna í atvinnurekstri, Samtök atvinnulífsins og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið stóðu í fyrradag fyrir glæsilegri og fjölsóttri ráðstefnu undir yfirskriftinni “Virkjum kraft kvenna”.

Félag kvenna í atvinnurekstri, Samtök atvinnulífsins og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið stóðu í fyrradag fyrir glæsilegri og fjölsóttri ráðstefnu undir yfirskriftinni “Virkjum kraft kvenna”. Umræðuefnið var brýnt; hvernig hægt sé að nýta hæfileika kvenna í viðskiptalífinu betur. Allir vita að þar er pottur brotinn; konur í forstjórastólum stórfyrirtækja eru teljandi á fingrum annarrar handar, sömuleiðis stjórnarformenn. Konur í stjórnunar- og sérfræðingsstöðum eru miklu færri en karlar og konum eru greidd lægri laun en körlum. Viðskiptalífið hefur ekki náð að nýta sér hæfileika kvenna til jafns við hæfileika karla.

Á ráðstefnuna mættu um 400 manns. Þar af voru um 380 konur og 20 karlar. “Þetta eru vonbrigði því við viljum meina að það sé ekki bara mál kvenna að þjóðfélagið nýti sér hæfileika beggja kynjanna,” sagði Margrét Kristmannsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnurekstri, í Morgunblaðinu í gær.

Þetta er auðvitað rétt. Það er ekki bara mál kvenna. Karlar, sem eru til dæmis forstjórar, stjórnarformenn og fjárfestar, hefðu átt að hafa fulla ástæðu til að mæta á ráðstefnuna, vegna þess að það eru þeirra hagsmunir – hreinir og klárir peningalegir og samkeppnislegir hagsmunir – að ná að nýta mannauð kvenna ekki síður en karla. En þeir létu ekki sjá sig. Af hverju? Hafa þeir ekki áhuga á peningum?

Hitt er svo annað mál, að ástæðan fyrir því að ekki mættu jafnmargir karlar og konur á ráðstefnuna, gæti verið sú, að hinn stóri meirihluti karla – þessir sem eru ekki forstjórar, stjórnarformenn eða fjárfestar – hafi ekki fundið neitt við sitt hæfi á dagskránni.

Þegar rætt er um að nýta hæfileika beggja kynja jafnt, er oftast einblínt á hvernig auka megi hlut kvenna í atvinnulífinu, í stjórnsýslunni og í pólitík. En það er auðvitað önnur hlið á málinu. Frá fornu fari sitja konur uppi með meginábyrgðina á börnum og heimili. Það er ástæða þess að margar konur hafa ekki sama svigrúm og karlar til að keppa eftir frama og metorðum í atvinnulífinu. Það er vitlaust gefið. Konur munu ekki njóta hæfileika sinna á vinnumarkaðnum nema karlar fái að njóta sinna á heimilinu og innan fjölskyldunnar. Ef hæfileikar kvenna eiga að geta nýtzt atvinnulífinu, þurfa fjölskyldan og heimilið að njóta hæfileika karla í auknum mæli.

Það er mikið af námskeiðum fyrir konur um það hvernig þær geti orðið betri stjórnendur og náð meiri árangri í starfi. En er mikið af námskeiðum fyrir karla um það hvernig þeir geti orðið betri feður eða náð nánari tengslum við fjölskyldu sína með því að sinna henni betur? Karlar þurfa að rýma til fyrir konum í atvinnulífinu og konur fyrir körlum á heimilunum. Þannig er hægt að nýta hæfileika beggja kynja á báðum vígstöðvum.

mbl.is, Laugardaginn 13. janúar, 2007 – Ritstjórnargreinar

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0