Gömul gildi og nýjar hættur

Gömul gildi hvað uppeldi varðar þarf stundum að heimfæra upp á nýjan raunveruleika. Reynsla foreldra af ábyrgð gangvart ungviðinu á þeirri tækniöld er ríkt hefur um nokkurra áratuga skeið hefur fyrir löngu fært sönnur á það.

Gömul gildi hvað uppeldi varðar þarf stundum að heimfæra upp á nýjan raunveruleika. Reynsla foreldra af ábyrgð gangvart ungviðinu á þeirri tækniöld er ríkt hefur um nokkurra áratuga skeið hefur fyrir löngu fært sönnur á það. Á Íslandi sem annars staðar á Vesturlöndum hefur aukin velmegun leitt til þess að foreldrar þurfa sífellt að sýna aðhald og aga á nýjum sviðum til að vernda börnin sín.

Fréttir af afskiptum lögreglu á heimilum vegna deilna um tölvunotkun hljóta að vekja alla uppalendur til umhugsunar um samskipti sín við börn og unglinga heimilisins og hvaða reglur beri að setja þeim. Það er fyrir löngu sannað að tölvur eru ekki góðar barnfóstrur – frekar en sjónvarp. Tölvur veita vissulega aðgang að afþreyingu og upplýsingum, en þær eru jafnframt opinn farvegur að margvíslegu efni, aðgerðum og jafnvel fíkn sem börn ráða ekki við.

Í Morgunblaðinu í gær segir Haukur Haraldsson sálfræðingur, að vandamál af þessu tagi eigi sér yfirleitt langan aðdraganda og foreldrar bregðist ekki við fyrr en það er um seinan og allt er komið í óefni.

Á fyrstu árum sjónvarpsútsendinga varð það að venju stórs hluta þjóðarinnar að horfa á allt sem í boði var á meðan útsending stóð á annað borð yfir. Þótt eflaust megi enn finna Íslendinga sem eru háðir sjónvarpi að því marki að það dragi töluvert úr virkni þeirra og lífsgæðum, þá eru fáir í dag sem horfa svo gagnrýnislaust. Tölvuvæðingin, og þá ekki síst netvæðingin, felur í sér samskonar gildrur. En þar að auki ákveðna hættu sem er mun afdrifaríkri en sjónvarpsglápið forðum sem þó fór yfirleitt fram í faðmi fjölskyldunnar. Því tölvunotkun, jafnvel í gagnvirkum leikjum eða hópleikjum, styrkir ekki fjölskyldubönd eða svalar þörf barna fyrir samvistir við þá sem þeim eru nánastir, þótt vissulega skapi hún þeim stundum sess félagslega.

Flestir foreldrar setja börnum sínum skorður með útivistartíma; um það hefur skapast samstaða í samfélaginu. Átaks er þörf um áþekka samstöðu í kringum tölvunotkun barna. Foreldrar þurfa að gera upp við sig strax þegar börnin þeirra byrja að þreifa sig áfram við tölvuna, hversu langur tími þeim er skammtaður á hverjum degi – klukkustund eða tvær – og standa við þá ákvörðun. Á sama hátt og fæstir myndu leyfa barninu sínu að borða sælgæti eða aðra óhollustu í öll mál ættu foreldrar ekki að leyfa barni eða unglingi að eyða öllum sínum frístundum fyrir framan tölvuna heldur takmarka notkunina þar til barnið kann sér hóf. Ábyrg aðgæsla eflir einungis traust á milli foreldra og barna. Það er því ekki seinna vænna að horfast í augu við það að fyrirbyggjandi aðgerðir hvað ásókn í tölvur varðar, auk vitneskju um hvað börnin eru að aðhafast á Netinu, eru grundvallaratriði í uppeldi barna á tuttugustu og fyrstu öldinni.

mbl.is Fimmtudaginn 25. janúar, 2007 – Ritstjórnargreinar

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0