Frá Borgþóri Ásgeirssyni: “BRÆÐRAFÉLAGIÐ VKB var stofnað árið 1998 í Vestmannaeyjum. Síðan félagið var stofnað hefur fjölgað ört í því og hafa markmið þess einnig breyst örlítið.”

BRÆÐRAFÉLAGIÐ VKB var stofnað árið 1998 í Vestmannaeyjum. Síðan félagið var stofnað hefur fjölgað ört í því og hafa markmið þess einnig breyst örlítið. Nú eru 25 virkir meðlimir í félaginu sem hafa það sameiginlegt að hafa gaman af því að skemmta sér í góðra vina hópi auk þess að starfa í þágu hagsmuna karlmanna. VKB telur að vegið sé að hagsmunum karlmanna í samfélaginu í dag. Því var það eitt af þeim markmiðum sem við settum okkur að vinna að hagsmunum þeirra. Og teljum við okkur þannig vinna þarft verk í þágu karlmanna á Íslandi.

Þegar einn meðlima VKB varð faðir fyrir rúmu ári síðan kom það til tals að ekki væri til neinn Feðradagur á Íslandi. Þetta þykir okkur í VKB mjög miður því eins og segir í 4. boðorðinu, þá skal heiðra föður sinn og móður. Því viljum við skora á fólk að halda heiðri feðra á Íslandi á lofti með því að tileinka þeim dag á íslenska almanakinu.

Feðradagurinn er haldinn hátíðlegur um allan heim, talið er að fyrst hafi verið haldið upp á feðradag í Bandaríkjunum í kringum 1908 eða 1909. Forseti Bandaríkjanna viðurkenndi svo feðradaginn sem sérstakan tyllidag nokkrum árum seinna og að dagurinn skyldi vera haldinn þriðja sunnudag í júní ár hvert. Flestar þær þjóðir sem hafa tekið upp feðradag hafa einnig notast við þessa dagsetningu. Við Íslendingar ættum að halda upp á feðradaginn í ár og væri vel til fundið að gera það næsta sunnudag, 19. júní, því hann er einmitt þriðji sunnudagurinn í júní. Við í VKB skorum því á forseta Íslands og þingmenn að viðurkenna bæði feðradag og mæðradag sem tyllidaga í íslensku almanaki. Einnig hvetjum við alla Íslendinga til þess að taka af skarið og halda upp á feðradaginn næstkomandi sunnudag og fara með pabba í ísbúðina, bjóða honum út að borða, gefa honum golfkylfu, hamar eða jafnvel uppþvottahanska.

Það er aldrei til nóg af dögum sem við tileinkum því fólki sem er stærstu fyrirmyndirnar í lífi okkar. Hvort sem það er pabbi eða mamma, þá eiga þau bæði skilið sinn dag sem þau eiga alveg út af fyrir sig og njóta sérstakrar meðferðar.

BORGÞÓR ÁSGEIRSSON,

félagsmálaráðherra VKB,

Kirkjuvegi 14, Vestmannaeyjum.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0