Stefán Guðmundsson svarar grein Guðrúnar Guðlaugsdóttur: “Börn eiga rétt til beggja foreldra sinna, fyrir og eftir skilnað.” BLAÐAMAÐUR Morgunblaðsins Guðrún Guðlaugsdóttir skrifaði grein í blaðið 10. nóvember sl., en hún hafði áður; 23.október sl. skrifað á svipuðum nótum.

Við lestur greinarinnar, andvarpaði undirritaður – og taldi sig hafa rekið í gamalt efni í nýju blaði. En við frekari þankagang rann upp fyrir undirrituðum að hér væri á ferðinni glettin manneskja með bráðfyndnar skoðanir. Til að byrja með er þó rétt að leiðrétta umræddan greinarhöfund og benda honum á að títtnefnd börn voru ekki 3 og 5 ára. Umræddur dómur var kveðinn upp í febrúar 2004; börnin fædd 1996 og 1999. Flestum telst þá til að þau séu u.þ.b. 5 og 8 ára. Framhaldsdómur í málinu gekk í okt. síðastliðnum og þá eru börnin orðin 6 og 9 ára samkv. venjulegum reiknireglum.

Guðrún segir að umrætt orðalag í dómi, um að börnin séu ung að aldri og þurfi meira á móður sinni að halda, þurfi ekki að koma á óvart. Fullur skilningur hafi ríkt í samfélaginu um gildi þess fyrir börn að njóta móður sinnar. Sleppir því að minnast á feður og gildi barna til að njóta feðra sinna; eðli þessa gamanmáls samkvæmt. Þetta styrkir hún svo með því að segja ennfremur: “Þetta fyrirkomulag hefur enda gefist vel svo sem aldalöng dæmi sanna.”

En svo brýtur greinarhöfundur blað og segir til rökstuðnings sinni kímnu skoðun: “Meira að segja hinir herskáu og hörðu Spartverjar létu mæður um uppeldi sona sinna til 7 ára aldurs þeirra, er tekið var til að þjálfa þá til hernaðar.” Hún á þá auðvitað við að þá hafi feður þeirra tekið við uppeldi þeirra eða karlpeningurinn á þeim tíma. Spartverjar hafa m.ö.o. verið öldum á undan okkur Íslendingum, hið minnsta, í þessum málefnum.

Í fyrsta lagi – þá treystu þeir karlmönnum fyrir börnum, þótt “ung væru að aldri” og í öðru lagi fellur þessi rökfærsla um sjálfa sig þegar aldur umræddra barna í dómsmálinu er skoðaður.

Spartverjar treystu feðrum og karlmönnum fyrir uppeldi sona sinna frá 7 ára aldri; samkv. heimildum greinarhöfundar; og á þeim tímum virtust 7 ára drengir ekki þurfa meira á móður sinni að halda – merkilegt nokk. En á árinu 2005 í íslensku samfélagi er það viðtekin venja að feður fái ekki að ala upp sín börn, ef til skilnaðar kemur, og gildir þá einu á hvaða aldri þau eru, eða hversu hæfir þeir eru til hlutverksins. Jafnvel hæfari.

Greinarhöfundur fer inn á líffræðilegar rökfærslur í gamanmáli sínu og útilokað að skilja þær á annan hátt en að feður komi ekki til skjalanna í tengslum og tilfinningalífi barna sinna fyrr en löngu eftir barnsburð. Þeir séu í raun lakara foreldrið fyrir börn. Hafi Guðrún ekki betri vitneskju, telur undirritaður sér skylt að upplýsa hana um eftirfarandi: Talið er að börn byrji að mynda tengsl í móðurkviði við 20. viku meðgöngu; um það leyti sem þau fara að heyra, og skynja raddir og “snertingu” beggja foreldra, sem svo þróast og verður barni eðlislægt sem kemur í heiminn. Rannsóknir sýna að börn mynda yfirleitt sterkust tengsl við báða foreldra sína strax eftir fæðingu og á fyrsta æviárinu. Undirritaður treystir sér ekki eins og greinarhöfundur til að meta það heilt yfir hvort tengsl barna eftir fyrsta æviárið verða sterkari við móður eða föður þegar báðir foreldrar hafa annast barnið jafnmikið – að tímabundinni brjóstagjöf undanskilinni.

Jafnrétti kynjanna, þ.m.t. launajafnrétti, jafnrétti til starfa, menntunar og lífs, sem og mannréttindi barnanna okkar virðast ekki eiga uppá pallborðið hjá greinarhöfundi. Það eitt og sér hlýtur að vekja konur þessa samfélags til umhugsunar um það hversu víða leynast skoðanir frá tímum Spartverja; og þó ívið eldri.

Guðrún telur sig líka þekkja dæmi um að karlar hafi tekið börn og falið um tíma til að þeir standi betur að vígi ef til forsjárdeilu kæmi, og telur slíkar aðgerðir geta valdið slæmu tilfinningalegu veganesti barna. Það kann að vera að karlar hagi sér með þessum hætti og er það miður; en í ljósi þess að konur hafa börn eftir skilnað í 90% tilfella – þá myndi einhver sjá ástæðu til að ætla að karlar væru í miklum minnihluta með slíka hegðun.

Þegar hér er komið sögu, þverr áhugi undirritaðs til að hugleiða frekar hið forna gamanmál Guðrúnar, en getur eigi látið hjá líða að upplýsa hana um eftirfarandi: Börn eiga eitt heimili fyrir skilnað foreldra. Eftir skilnað eiga börn 2 heimili, annað hjá móður og hitt hjá föður. Börn eiga rétt til beggja foreldra sinna, fyrir og eftir skilnað. Allar rannsóknir benda til þess að það sé börnum fyrir bestu að umgangast báða foreldra sína sem jafnast – fyrir og eftir skilnað, svo fremi að jafnræði ríki í hæfi foreldranna til síns hlutverks. Ótal rannsóknir benda til ört vaxandi hegðunarvandamála barna og unglinga, þegar tengsl þeirra og samvistir við annað foreldrið minnka verulega eða rofna alfarið.

Að lokum vill undirritaður þakka Guðrúnu fyrir bráðmikla skemmtun og lystilega skautun í kringum staðreyndir nútímans; en skorar á hana að halda hiklaust áfram að segja frá gömlum tímum. Synir og dætur þessa lands munu eflaust fagna frekari “upplýsingum” af deyjandi viðhorfum úr fortíðinni.

Stefán Guðmundsson
Höfundur er stjórnarmaður í Félagi ábyrgra feðra
Mbl Miðvikudaginn 16. nóvember, 2005 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0