Heimir HilmarssonFélag um foreldrajafnrétti hefur um langt árabil barist fyrir jafnrétti í sifjamálum. Það er sannfæring okkar að jafnrétti í sifjamálum sé best til þess fallið að verja réttindi barna og auk þess grundvöllur að jafnrétti á vinnumarkaði og þar með jafnrétti í áhrifastöðum í þjóðfélaginu. Á Íslandi hefur jafnrétti verið nokkuð óumdeilt þó útfærslan og framkvæmdin vefjist oft fyrir fólki og veki þrálátlegar deilur. Jafnrétti á sviði sifjaréttar virðist vefjast sérstaklega mikið fyrir mörgum og jafnvel þeim sem ættu að þekkja nokkuð vel til málaflokksins. Þannig hefur því verið fleygt fram í umræðunni að foreldrajafnrétti geti stangast á við réttindi barns. Foreldrajafnrétti er nýyrði í íslensku máli frá árinu 2008 þegar Félag ábyrgra feðra breytti nafni félagsins í Félag um foreldrajafnrétti í samræmi við stefnumál félagsins. Nú sex árum síðar á fólk jafnvel enn í vandræðum með að segja orðið foreldrajafnrétti og því kannski eðlilegt að merking þess flækist enn fyrir einhverjum. Hugtakið foreldrajafnrétti snýst hins vegar einfaldlega um að barn hafi jafnan rétt til beggja foreldra sinna og að báðir foreldrar standi jafnir fyrir lögum.

Andheiti við foreldrajafnrétti er foreldramisrétti. Ef foreldrajafnrétti stangast á við rétt barns eru þá réttindi barna tryggð frekar með foreldramisrétti?


Réttindi barnalaga

Félag um foreldrajafnrétti hefur bent á mörg atriði í lögum og framkvæmd laga þar sem móður réttur er í fyrsta sæti, réttur ríkisins í öðru sæti, réttur barnsins í þriðja sæti og réttur föður í fjórða og síðasta sæti. Þar erum við að benda á foreldramisrétti. Það foreldramisrétti sem við bendum á stangast algerlega á við réttindi barns enda koma réttindi barns langt á eftir réttindum móður. Þó svo réttindi barns kæmu á undan réttindum móður, þá er foreldramisrétti alltaf andstætt réttindum barns, enda hefur barn þá ekki sama rétt til beggja foreldra.

Félag um foreldrajafnrétti vill færa réttindi barna úr þriðja sæti upp í það fyrsta. Fram fyrir móður og ríki. Þá viljum við færa réttindi föður upp fyrir réttindi ríkisins og til jafns við réttindi móður. Þannig setur foreldrajafnrétti barnið í fyrsta sætið, foreldra jafna í annað sætið og ríkið í þriðja sætið.

 

 


Foreldrajafnrétti

Stefnumál Félags um foreldrajafnrétti eiga sér öll stoð í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Réttur barns skal vera án mismununar af nokkru tagi gagnvart barni og/eða aðstæðum foreldra þess. Aðildarríki skulu virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra og stórfjölskyldu. Barn skal hafa rétt til þess að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Barn skal hafa rétt til þess að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þar með talið fjölskyldutengslum sínum. Aðildarríki skulu bregðast við og veita börnum vernd ef þau eru svipt fjölskyldutengslum. Aðildarríki skulu tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þess. Aðildarríki skulu virða rétt og skyldur foreldra og veita þeim leiðsögn. Aðildarríki skulu tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns og komi því sameiginlega til þroska. Aðildarríki skulu láta foreldrum í té efnislega aðstoð og sjá fyrir stuðningsúrræðum svo foreldrar geti séð fyrir lífsafkomu barnsins.

 

Ef foreldrajafnrétti stangast á við réttindi barns, þá gerir Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna það einnig.

Heimir Hilmarsson
varaformaður Félags um foreldrajafnrétti

 

Grein áður birt í Fréttatímanum 4.4.2014.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0