Heimir Hilmarsson svarar grein Guðrúnar Guðlaugsdóttur um forsjármál: “Börnin eiga rétt á báðum foreldrum áfram eftir skilnað…”

GUÐRÚN Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifaði grein undir fyrirsögninni “Börnum er oftast best komið hjá móður sinni”.
Eftir að hafa lesið þessa grein gat ég ekki annað en velt því fyrir mér hvort Guðrún sé að gera grín að þessum fornu viðmiðum eða hvort hún trúi virkilega því sem hún segir.

Hún vitnar til hinna herskáu og hörðu Spartverja til að rökstyðja að börn eigi að vera hjá mæðrum sínum til 7 ára aldurs.

Ef við tölum um Spartverja þá má geta þess að þar voru konur húsmæður og höfðu það megin hlutverk að ala af sér góða hermenn. Markmið uppeldis var að skapa hermenn í þágu ríkisins með skilyrðislausri hlýðni við ríkið, líkamshreysti, harðneskju og vopnfimi. Guðrún vill kannski koma okkur aftur til fornaldar (500 f.kr.-500 e.kr.), en ég held hún gleymi því að á þessum tíma var ekki rætt um jafnan rétt kynja í einu né neinu.

Guðrún skrifar greinina í kjölfar héraðsdóms þar sem 6 og 9 ára börn voru sett til móður á þeim forsendum að börn þurfi meira á móður en föður að halda. Vilji Guðrún vitna til Spartverja, þá ættu ofangreind börn að vera hjá föður eða á leið til föður, því Spartverjar eftirlétu feðrum uppeldi frá 7 ára aldri. Guðrún heldur því að vísu fram að börnin hafi verið 3 og 5 ára en það er nokkur tími síðan þau voru á þeim aldri.

Guðrún rökstyður með að meðganga og brjóstagjöf geri börn nánari mæðrum en feður. Ég þekki ekkert barn á þessum aldri sem enn er á brjósti né að rannsóknir sýni að börn á þessum aldri þurfi meira á móður að halda.

Guðrún talar um dæmi þess að karlar hafi tekið börn og falið um tíma til að þeir standi betur að vígi ef til forsjárdeilu kæmi. Ekki veit ég hvort hún eigi við óskylda karla, stjúpa eða feður barnanna og ekki minnist hún á að mæður fremja líka þann verknað sem hún lýsir, verknað sem raunar er óásættanlegur. Þetta breytir ekki þeirri einföldu staðreynd að börn hafa í yfir 90% tilfella lögheimili hjá móður og 97% af meðlagsgreiðendum eru feður.

Einnig rökstyður hún þetta með líkamlegri gerð mannfólks. Ég geri þá ráð fyrir að hún sé að tala um að leg og brjóst séu nauðsynleg til að vera forsjárforeldri. Það vekur þá spurningu hjá mér hvort kona sem verður fyrir því að missa leg eða brjóst vegna sjúkdóms verði þá fyrir vikið ekki eins hæf til að hafa forsjá yfir börnum sínum. Þessi rökstuðningur Guðrúnar er því vægast sagt veikur og stórfurðulegur.

Guðrún telur ekki nauðsynlegt að lögleiða sameiginlega forsjá. Að hafa þennan valkost sé í raun nóg. Ég spyr á móti valkostur hvers? Reynslan segir okkur að við slíkar aðstæður þá hefur konan algert neitunarvald og það er í hennar valdi hvort hún leyfir föður að halda forsjá. Hagsmunir barns koma þar hvergi nærri.

Frakkar hafa langa reynslu af þessum málum og þar hefur dómurum verið heimilt að dæma í sameiginlega forsjá síðan 1987. Árið 1993 breyttu Frakkar lögum á þann veg að ríkar ástæður þarf til að svipta foreldri forsjá og sönnunarbyrði á vanhæfi foreldris sé á því foreldri sem fer fram á eins foreldris forsjá. Þessi breyting varð til þess að sameiginleg forsjá er í 90% tilvika í Frakklandi. Frakkar hafa greinilega góða reynslu af þessum breytingum því árið 2002 bæta Frakkar enn við þessi lög og gefa dómurum heimild til að dæma um jafna umönnun milli foreldra, og það þarf ríka ástæðu til að annað foreldri missi forsjá barna sinna við skilnað.

Guðrún ruglar saman samskiptum foreldris og barns og samskiptum foreldra sín á milli. Það er rétt að foreldrum kemur oft ekki vel saman við og eftir skilnað. En það breytir ekki þörf barnanna til beggja foreldra. Börnin eiga rétt á báðum foreldrum áfram eftir skilnað óháð því hversu vel foreldrunum líkar við hvort annað.

Það er skylda foreldra að hugsa fyrst og fremst um hag barnanna og halda þeim utan við beiskju þá sem getur verið á milli foreldra.

Jöfn foreldraábyrgð eftir skilnað með jafna umönnun og valdajafnvægi milli foreldra er árangursríkast til að koma á friði milli foreldra.

Heimir Hilmarsson
Höfundur er tölvufræðingur og í stjórn Félags ábyrgra feðra.
Mbl Laugardaginn 26. nóvember, 2005 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0