Karlar eru gáfaðri en konur. Þetta hefur gáfaðri helmingur mannkyns svo sem alltaf vitað, en nú er komin vísindaleg staðfesting og það frá femínista. Það eru meiri líkur á því að karlmaður hljóti Nóbelsverðlaun en kvenmaður. Það eru líka meiri líkur á því að karl komist áfram í lífinu en kona. Ástæðan: karlar eru betur gefnir – eða því heldur í það minnsta Richard Lynn, ákaflega umdeildur sálfræðiprófessor fram.

Hann hefur gert viðamikla rannsókn í slagtogi við Paul Irwing, annan og virtari sálfræðiprófessor sem segist vera femínisti. Niðurstöðurnar verða birtar í vísindatímaritinu British Journal of Psychology í nóvember.

Ein meginniðurstaðan er sú að karlar hafa að jafnaði fimm stigum hærri greindarvísitölu en konur. Fyrir hverja konu sem er með greindarvísitölu yfir hundrað og þrjátíu eru þrír karlar, og fyrir hverja konu yfir hundrað fjörutíu og fimm eru fimm komma fimm karlar.

Vísindamennirnir telja þetta skýra af hverju fleiri karlar eru stórmeistarar í skák en konur, fleiri stærðfræðiséní og Nóbelsverðlaunahafar.

Ekki láta þó allir þessa rannsókn sannfæra sig, og benda til dæmis á að konur standi sig að jafnaði betur á prófum í skólum á Bretlandi, og að fleiri konur en karlar ljúki háskólaprófum að doktorsgráðum undanskildum.

Vísindamennirnir hafa að sjálfsögðu skýringar, til að mynda að konur séu samviskusamari og eigi auðveldara með að standast mikið álag í lengri tíma.

Og loks telja þeir að flest okkar hafi lítið að gera við greindarvísitölu yfir hundrað tuttugu og fimm, þar sem það nægi til að komast vel af í lífinu. Hærri greindarvísitölu þurfi í raun einungis til afreksverka. Einn efasemdarmaðurinn – kona – bendir raunar á að stundum hafi verið bent á að fleiri karlar en konur séu einhverfir og að hugsanlega séu tengsl á milli einhverfu og þeirrar sérkennilegu einbeitingar sem þurfi til að vera stærðfræðiséní eða stórmeistari í skák.

Fétt frá Stöð 2 26.08.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0