7. ágúst birti Fréttablaðið stutta grein eftir undirritaðan um umgengnistálmanir gegn forsjárlausum feðrum. Daginn eftir birti blaðið síðan stutt viðtal við Valborgu Snævarr hæstarréttarlögmann þar sem hún benti feðrum á að sækja rétt sinn til sýslumanna því lögin væru í fínu lagi.

Sem formaður Félags ábyrgra feðra tek ég undir með Valborgu um að lögin séu allgóð og framfylgi allvel jafnréttissjónarmiðum t.d. með því að hygla ekki mæðrum umfram feður. Bæði gildandi og ný barnalög hljóma mjög réttlætisleg og setja hagsmuni og þarfir barnanna á oddinn eins og vera ber. Valborg bendir einmitt á að umgengni sé réttur barns til að umgangast foreldra sína. Ég vildi að opinberir aðilar sem koma að úrskurðum eða lögformlegri afgreiðslu umgengnismála huguðu fyrst og fremst að hagsmunum og þörfum barnanna.

Forsjárlausir feður leita að sjálfsögðu til sýslumanns í umgengnismálum því það er eina úrræði þeirra. Þeir leggja mál sitt oft skilmerkilega og málefnalega fyrir sýslumenn. Fengnir eru sérfræðingar til að fjalla um málin. Börnin eru jafnvel kölluð til. Báðir foreldrarnir eru mjög gjarnan álíka hæfir til að ala upp börnin. Konan hefur hins vegar forsjána (eða lögheimili barnsins) og getur tálmað umgengni við föðurinn og fær því betri tækifæri til að byggja upp traust samband við barnið. Síðan er hún gjarnan verðlaunuð með því að sýslumaður úrskurðar takmarkaða umgengni barns og föður. Það er ekki síst gegn þessu misrétti sem Félag ábyrgra feðra berst.

Eftir viðtöl við nálega 1000 feður á undanförnum árum sé ég að sýslumenn vinna ekki alltaf eftir lögunum. Þeir úrskurða feðrum alltof oft umgengni eftir kröfum mæðranna. Hjá sýslumönnum er feðrum jafnvel sagt að þeir þurfi ekki að umgangast börnin sín, að sýslumenn eigi að gæta hagsmuna móðurinnar en ekki að huga að umgengni barns og föður.

Nýlega var hæfum föður úrskurðuð umgengni við tvö börn sín í samtals 27 daga á ári. Hvaða hagsmunum og þörfum getur slíkur úrskurður þjónað? Slík umgengni er líka langtum minni en lagt var til í greinargerð með barnalagafrumvarpinu sl. haust. Þar er talað um aðra hverja helgi, dag þess á milli, mánuð að sumri og fleira. Slík umgengni getur varla verið minni en 86 dagar á ári. Félag ábyrgra feðra hefur óskað eftir að lögfest verði 118 daga lágmarksumgengni á ári svo hægt sé að byggja upp traust og gott samband milli barns og foreldris.

Félag ábyrgra feðra berst ekki gegn einstaklingum eða kyni heldur gegn kerfi sem mismunar feðrum og forsjárlausum foreldrum, kerfi sem vinnur fyrir mæður. Lögheimili barna fráskilinna foreldra er í yfir 90% tilvika hjá móðurinni, burtséð frá því hvort forsjáin er sameiginleg eða í höndum móðurinnar. Kerfið vinnur alls ekki útfrá hagsmunum barnanna, sem eru einmitt að eiga sem best samskipti við báða foreldra heldur virðist kerfið líta á umgengni við föðurinn sem annars flokks lífsreynslu.

Garðar Baldvinsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 14. ágúst 2003

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0