Ingibjörg Rafnar, sem tók við starfi umboðsmanns barna 1. janúar á þessu ári, segir að almennt megi segja að Íslendingar búi efnislega mjög vel að börnum sínum, “ekki síst þegar við berum okkur saman við önnur lönd”, segir hún í samtali við Morgunblaðið.
“En það má alltaf gera betur og það er vissulega ákveðið áhyggjuefni að hér á landi, eins og í öðrum vestrænum ríkjum, séu hegðunar- og geðraskanir barna og ungmenna vaxandi vandamál. Við þurfum, sem samfélag, að fara að huga að orsökum þess. Þurfum að taka á þessum vanda og bæta þjónustuna.”

Hún segir þróunina í málefnum barna og ungmenna þá sömu hér á landi og annars staðar á Vesturlöndum. “Frændur okkar á Norðurlöndunum hafa til dæmis sömu sögu að segja, einnig Bretar og aðrar þjóðir í Vestur-Evrópu.”

Þegar Ingibjörg er spurð hvort Íslendingar geti eitthvað lært af þessum þjóðum á þessu sviði segir hún svo eflaust vera, en þær geti “hugsanlega líka lært af okkur. Við búum í litlu, einsleitu jafnréttissamfélagi þar sem á að vera tiltölulega einfaldara en víða annars staðar að skilgreina vandann”.

Ingibjörg bjó erlendis um nokkurra ára skeið og spurð segir hún stöðu í málefnum barna og ungmenna í sjálfu sér ekki hafa komið sér á óvart þegar hún kom aftur heim. “Þegar skýrsla heilbrigðisráðherra um þessi mál var birt í febrúar sýndi hún reyndar að ástandið var alvarlegra en við höfðum almennt talið.” Hún segir að ráðherra hafi falið aðilum að vinna að málinu í framhaldi skýrslunnar og eðlilegt væri að kalla senn eftir aðgerðum, því bráðum væri ár liðið frá því skýrslan var birt.

Ingibjörg segir vissulega ýmislegt að gerast og bendir t.d. á að unnið sé að stækkun Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) sem hafi verið mjög þarft, og því horfi til betri vegar að því leyti.

Umboðsmanni barna berast fjölbreytt erindi, en embættið kemur að málum með mjög almennum hætti, að sögn Ingibjargar. “Ýmis stjórnvöld vinna að meðferð einstakra mála en við erum meira í því að skoða málaflokkinn í heild sinni. Við skoðum að vísu einstök mál, en þá til að athuga hvort þau sýni manni að bæta þurfi lagaumgjörð eða að framkvæmd laga sé ábótavant, og embættið kemur þá með ábendingar um það hvað betur megi gera.”

Starfsmenn embættisins eru aðeins þrír, sem setur því þröngar skorður að sögn Ingibjargar, en embættið tekur einnig þátt í samstarfi við aðra. Hún nefnir Verndum bernskuna, verkefni á vegum forsætisráðuneytisins, Biskups Íslands, Heimilis og skóla og Velferðarsjóðs barna, auk Umboðsmanns barna. “Við höfum viljað vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi uppeldishlutverksins og skapa umræðu um það.”

Ingibjörg segir að vissulega beri foreldrar fyrst og fremst ábyrgð á uppeldi barna sinna og að verja þau fyrir utanaðkomandi áhrifum, “en nú er svo komið að mínu áliti að foreldrar eigi rétt á því að samfélagið styðji þá í því vandasama hlutverki sem foreldrahlutverkið er”.

Áreiti er mikið og Ingibjörg hefur áhyggjur af friðleysi barna. “Það er mikilvægt að við leyfum börnum að vera börn og mér finnst við ættum að huga að því hvort ekki sé rétt að fara að tala um friðhelgi bernskunnar með sama hætti og við höfum talað um friðhelgi einstaklings og fjölskyldu,” sagði Ingibjörg Rafnar.

mbl.is 31.12.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0