Stjórn Félags um foreldrajafnrétti hefur borist bréf frá lögmannsstofunni Lex dagsett 26. nóvember síðastliðinn þar sem hótað er málsókn á hendur félaginu vegna samsetta orðsins „barnaníðinga“ sem notað var í fréttatilkynningu Félagsins þann 19. október síðastliðinn.
Þeir sem leituðu til lögmannsstofunnar Lex gera það bæði fyrir hönd Félags forsjárforeldra og í eigin persónu, tveir karlar og þrjár konur. Konurnar þrjár hafa allar verið úrskurðaðar til sekta sem samtals skiptir milljónum króna fyrir brot á barnalögum nr. 76/2003 fyrir að misnota það vald sem foreldri hefur á barni sínu og brjóta gegn rétti barnsins til að njóta beggja foreldra sinna.
Félag um foreldrajafnrétti telur að virða eigi lög og reglur í hvívetna og lítur það mjög alvarlegum augum þegar félagsskapur sem segir sig standa vörð um réttindi barnsins skipi í stjórn með þeim hætti að formaður, varaformaður og ritari séu með úrskurði á bakinu fyrir brot gegn réttindum barna samkvæmt barnalögum.
Í fréttatilkynningu Félags um foreldrajafnrétti þann 19. október sl. kemur með mjög skírum hætti fram hvaða níðingsskap gegn börnum við erum að vísa í með okkar orðum.
Í tilkynningunni segir meðal annars að:
„Félag um foreldrajafnrétti hefur vitneskju um að bæði varaformaður og ritari Félags forsjárforeldra eru tálmunarmæður. Þær hafa verið úrskurðaðar til að greiða sektir fyrir það að brjóta á börnum sínum og önnur þeirra ítrekað. Það er forkastanlegt að embætti Umboðsmanns barna skuli vera notað til að koma á framfæri fólki sem brýtur svo gróft gegn börnum.“
Við töldum því full ljóst hvað við væri átt þegar við settum saman orðin barn og níðingur í málsgreininni að neðan sem hljómaði svo:
„Félag um foreldrajafnrétti harmar það að embætti Umboðsmanns barna hafi í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 18. október 2009 verið notað eins og um embætti Umboðsmanns tálmunarforeldra væri að ræða. Embætti umboðsmanns barna ætti að standa vörð um barnið eingöngu en ekki standa upp fyrir hóp barnaníðinga.“
Í stjórn Félags forsjárforeldra eru aðrir aðilar en mæðurnar sem úrskurðaðar hafa verið fyrir brot samkvæmt barnalögum og því ónákvæmlega farið með í textanum. Hafi einhver lagt aðra merkingu í samsetningu þessara orða þá biðjum við hlutaðeigandi velvirðingar á því. Við höfum þegar fjarlægt orðið úr tilkynningunni sem stendur á heimasíðu félagsins.
Stjórn Félags um foreldrajafnrétti.
Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0