Félag ábyrgra feðra mótmælir harðlega yfirlýsingum tveggja dómara

í Mogunblaðin þann 12. febrúar er fjallað um forsjármál og lagafrumvarp dómsmálaráðherra sem gerir ráð fyrir að sameiginleg forsjá verði lögfest sem meginregla við skilnað og sambúðarslit foreldra. Þar tjá sig tveir dómarar um lagafrumvarp sem er til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga

Jónas Jóhannsson dómari við Héraðsdóm Reykjaness telur að um “Réttarfarsslys” verði að ræða nái frumvarpið fram að ganga.

Guðrún Erlendsdóttir hæstarréttardómari segist vera algerlega andvíg þvi að gera sameiginlega forsjá að meginreglu við skilnað.

Slíkar yfirlýsingar dómara eru fáheyrðar en renna styrkari stoðum undir það álit Félags ábyrgra feðra að kerfið og dómstólar þjáist af úreltum fortíðarviðhorfum og ríkulegu kynjamisrétti á kostnað hagsmuna barna okkar.

Umrætt lagafrumvarp miðar fyrst og fremst að því að bæta réttarstöðu barna til beggja foreldra sinna, eftir skilnað sem og að virða betur þá mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Frumvarpið er í anda réttarfarsþróunar í okkar nágrannalöndum.

Feður og börn hafa áttu undir högg að sækja í forsjármálum innan kerfisins og fyrir dómstólum. Án sameiginlegrar forsjár eru börn meira og minna svipt feðrum sínum; sem virkum þátttakendum í lífi og framtíð þeirra eftir skilnað.

Tími gamalla og úreltra viðhorfa verður að víkja fyrir réttarfarsbótum; með hagsmuni og réttindi barna til beggja foreldra sinna að leiðarljósi.

Félag ábyrgra feðra fordæmir þessar yfirlýsingar dómaranna. Trúverðugleiki dómstóla í forsjármálum beið mikinn hnekki með umræddum yfirlýsingum dómaranna – álitshnekki sem dómstólar máttu illa við. Dómararnir tveir hafa með yfirlýsingum sínum gert sjálfa sig vanhæfa með öllu, í forsjármálum.

Virðingarfyllst
Stjórn Félags ábyrgra feðra.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0