Fjórir félagar í samtökum fráskilinna feðra í Bretlandi, Fathers 4 Justice eða Feður fylgjandi réttlæti, sem berjast fyrir því að feður fái meiri tíma með börnum sínum, lokuðu með aðgerðum sínum brú í nágrenni Bristol á annatíma í umferðinnni í dag.
Mennirnir, sem voru í gervum Köngulóarmannsins, Súpermanns, Batmans og Robin, klifruðu upp á brúna og reistu þar fána sem á stóð „Feður fylgjandi réttlæti berjast fyrir þínum rétti til að hitta börn þín.“ Rúmlega 20 félagar í samtökunum stóðu við brúna meðan á þessu stóð og sagði talsmaður þeirra að þeir hygðust standa mótmælastöðu við brúna í dag.

Lögregla lokaði brúnni af öryggisástæðum vegna mótmælaaðgerða feðranna. „Bíleigendum hefur verið neitað um aðgang að brúnni og svipar því til þess að félögum okkar er neitað um aðgang að börnum sínum,“ sagði Jeff Skinner einn félaga í Feðrum fylgjandi réttlæti.

Samtökin hafa áður vakið athygli á málstað sínum með áberandi hætti. Árið 2002 tóku 200 félagar í samtökunum til að mynda þátt í mótmælum á dómsskrifstofu, íklæddir jólasveinabúningum.

Samtökin segja mikinn meirihluta dómara veita mæðrum fullt forræði yfir börnum við skilnað og að lítið sé gert til að framfylgja fyrirskipunum dómstóla um umgengnisrétt feðra við börn sín. Feðurnir telja að í flestum tilfellum eigi börnin að eyða jafnmiklum tíma með hvoru foreldri fyrir sig.

Konur fá fullt forræði yfir börnum sínum í fjórum forræðismálum af fimm, sem koma fyrir dómstóla í Bretlandi.

Frétt frá mbl.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0