Aukinn fjölbreytileiki í fjölskyldugerðum og vaxandi þátttaka feðra í umönnun barna þrátt fyrir að foreldrar búi ekki saman kallar á umræðu um hvernig löggjafinn kemur til móts við þá þróun. Markmið þessarar rannsóknar er að greina að hvaða leiti fjölskyldubótakerfið taki tilliti til þess að báðir foreldrar þurfa að sinna framfærslu og umgengni við börn þó foreldrar deili ekki sama heimili. Spurt er hvaða stuðning hið opinbera veitir foreldrum sem ekki búa saman vegna framfærslu barna sinna. Þá er spurt hver séu dæmigerð útgjöld vegna framfærslu í fjölskyldum barna þar sem foreldrar búa ekki saman. Að lokum er spurt hvernig ráðstöfunartekjur tekjur ólíkra tekjuhópa dugi fyrir útreiknuðum framfærslukostnaði.

Hér eru fjölbreyttum aðferðum beitt, auk stefnugreiningar er unnið með bótalíkön til að greina stuðning við ólíkar fjölskyldugerðir og fjölskyldulíkön til að greina hvort tekjur duga fyrir útreiknuðum framfærslukostnaði.

Svarið við rannsóknarspurningunum er afdráttarlaust, opinber stuðningur við barnafjölskyldur þegar foreldrar búa ekki saman miðast fyrst og fremst við svokallaða fyrirvinnuskipan þar sem konur bera ábyrgð á umönnun barna og karlar bera ábyrgð á framfærslu. Taka verður mið af því að mæður deila í yfirgnæfandi meirihluta lögheimili með eigin börnum. Öllum fjárhagslegum stuðningi er beint að lögheimili barns að undanskildum möguleikum foreldra til fæðingarorlofs. Lög og reglur um opinberan stuðning við barnafjölskyldur eru því í ósamræmi við megin áherslur hjúskapar- og barnaréttar og þingsályktunnar um fjölskyldustefnu sem leggur áherslu á ábyrgð beggja foreldra á umönnun og framfærslu barna. Niðurstöðurnar sýna ennfremur að ákveðin hópur umgengnisforeldra hefur ekki möguleika á að afla tekna sem duga til að mæta framfærslukostnaði samkvæmt dæmigerðu neysluviðmiði Velferðarráðuneytis.

Heimir Hilmarsson. (2012). Framfærsluskyldur foreldra sem ekki búa saman. Opinber stuðningur við barnafjölskyldur (BA-ritgerð). Háskóli Íslands, Félagsráðgjafardeild. Sótt af http://hdl.handle.net/1946/11629

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0