Ég hef verið að skoða úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) og eins og oft áður þá rek ég mig á forsendur sem ég skil ekki hvaðan eru fengnar. Hvernig getur forsjárfyrirkomulag og lögheimilisskráning barns haft afgerandi áhrif á framfærslukostnað þess? Tökum hér smá dæmi.

Jón og Gunna eiga saman eitt barn, Sóley, og þau eru bæði við nám við Háskóla Íslands. Bæði njóta þau aðstoðar LÍN vegna framfærslu sinnar og Sóleyjar.

Jón og Gunna hafa allt frá upphafi sinnt Sóleyju saman til jafns og eftir að þau slíta samvistum, þá gera þau það áfram. Jón greiðir lögbundið lágmarksmeðlag til Gunnu, þau búa bæði á stúdentagörðum og umönnun er skipt í viku og viku.

Þá fara bæði Jón og Gunna í nýja sambúð með aðila sem einnig er í Háskóla Íslands og eru á námslánum.

Sjáum nú hvernig LÍN mætir framfærslu barns til Jóns og Gunnu miðað við ofangreint fyrirkomulag, annars vegar þegar Jón og Gunna deila sameiginlegri forsjá og hins vegar þegar Gunna fari ein með forsjá og deilir henni svo með nýjum maka.

Tafla 1. Jón og Gunna búa saman á einu heimili með Sóleyju

   Meðlag  Lán v. framfærslu  Lán v. meðlags  Til framfærslu á námsári  Til framfærslu á mánuði
 Jón        304.380        304.380          33.820
 Gunna        304.380        304.380          33.820
 Samtals        608.760          67.640

 

Tafla 2. Jón og Gunna búa á tveimur heimilum með Sóleyju, umgengni jöfn og sameiginleg forsjá

   Meðlag  Lán v. framfærslu  Lán v. meðlags  Til framfærslu á námsári  Til framfærslu á mánuði
 Jón     – 226.575        274.950        201.240        249.615          27.735
 Gunna        226.575        274.950        501.525          55.725
 Samtals        751.140          83.460

 

Tafla 3. Jón og Gunna búa á tveimur heimilum með Sóleyju, umgengni jöfn og sameiginleg forsjá, bæði með nýjan maka

   Meðlag  Lán v. framfærslu  Lán v. meðlags  Til framfærslu á námsári  Til framfærslu á mánuði
 Jón     – 226.575        152.190        201.240        126.855          14.095
 Maki Jóns
 Gunna        226.575        152.190        378.765          42.085
 Maki Gunnu
 Samtals        505.620          56.180

 

Tafla 4. Jón og Gunna búa á tveimur heimilum með Sóleyju, umgengni jöfn en Gunna fer ein með forsjá Sóleyjar

   Meðlag  Lán v. framfærslu  Lán v. meðlags  Til framfærslu á námsári  Til framfærslu á mánuði
 Jón      – 226.575        201.240        – 25.335          – 2.815
 Gunna        226.575        549.900        776.475          86.275
 Samtals        751.140          83.460

 

Tafla 5. Jón og Gunna búa á tveimur heimilum með Sóleyju, umgengni jöfn og Gunna deilir forsjá með nýjum maka, Jón er forsjárlaus

   Meðlag  Lán v. framfærslu  Lán v. meðlags  Til framfærslu á námsári  Til framfærslu á mánuði
 Jón     – 226.575        201.240        – 25.335          – 2.815
 Maki Jóns
 Gunna        226.575        304.380        530.955          58.995
 Maki Gunnu        304.380        304.380          33.820
 Samtals        810.000          90.000

 

Ef Gunna og nýr maki deila forsjá barnsins og faðirinn er forsjárlaus, þá gerir LÍN ráð fyrir að heimili Gunnu þurfi 92.815 kr. á mánuði til þess að framfæra Sóleyju. Jón þarf minna en ekkert, þrátt fyrir helmings umgengni, eða -2.815 kr. á mánuði.

Hér um bil það sama er þegar Gunna er einstæð og fer ein með forsjá Sóleyjar, þá gerir LÍN ráð fyrir að Sóley þurfi 86.275 kr. á mánuði til framfærslu og Jón þarf enn minna en ekkert til þess að mæta framfærslu aðra hvora viku.

Stjórn LÍN virðist hafa fundið út að sameiginleg forsjá minnki til muna framfærslukostnað barns og fróðlegt væri að skoða þær forsendur sem þar liggja á bakvið.

Þannig er framfærslukostnaður vegna Sóleyjar aðeins 56.180 kr. á mánuði í stað 92.815 ef foreldrarnir fara sameiginlega með forsjá þegar báðir foreldrar eru komnir í nýja sambúð, miðað við stuðning LÍN. LÍN telur þó að það sé um þrisvar sinnum dýrara að framfleyta Sóleyju á lögheimili hennar en þar sem hún er í umgengni, þó umgengni sé jöfn.

Sameiginleg forsjá virðist ekki virka eins vel til sparnaðar ef foreldrarnir eru án maka á tveimur heimilum. Þá er framfærsla Sóleyjar orðin 83.460 og nú er ekki lengur þrisvar sinnum dýrara að framfleyta henni á lögheimili sinu heldur er munurinn „aðeins“ tvöfaldur.

Kannski er einna sérkennilegast við úthlutunarreglur LÍN að þeir virðast telja það um fimmtungi ódýrara að framfleyta Sóleyju ef hún býr á tveimur heimilum með sitt hvoru foreldrinu báðum í nýju sambandi, en ef hún býr á einu heimili með foreldrum sínum saman.

Ég er efins um að viðbót á námslán vegna barna hafi verið ígrunduð og ég efast um að þær standist jafnræðisreglu. Getur það verið að forsjárfyrirkomulag og lögheimilisskráning hafi svona afgerandi áhrif á framfærslukostnað barns? Getur verið að sama barnið kosti í framfærslu frá 56.180 og upp í 92.815 kr. á mánuði eingöngu út frá forsjá? Getur verið að lögheimilisforeldri þurfi 92.815 kr. á mánuði til þess að framfæra barnið aðra hvora viku á meðan hitt foreldrið þarf mínus 2.815 kr. fyrir framfærslu sama tíma?

 

-Heimir Hilmarsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0