Vorið 2003 var tekið hópviðtal við verðandi feður og þeir spurði hvað þeim findist helst vanta í fræðslu á meðgöngunni. Könnun þessi er hluti lokaverkefni í ljósmóðurfræði og hluti af stærri rannsókn sem Helga Gottfreðsdóttir, lektor í ljósmóðurfræði er að gera um fræðsluþarfir verðandi feðra.

Tilgangurinn var tvíþættur. Annars vegar að fá innsýn í fræðsluþarfir verðandi feðra og gefa ljósmæðrum þannig hugmynd um sérstakar fræðsluþarfir þeirra. Hinsvegar er þetta forstig stærri rannsóknar og þróun mælitækis sem verður notað á síðari stigum ofangreindrar rannsóknar.

Fengnir voru sex verðandi feður til að mynda rýnihóp og mættu fimm þeirra í viðtalið. Hópurinn hittist einu sinni til að ræða um fræðsluþarfir sínar á meðgöngu. Megináherslan í viðtalinu var á fræðsluþarfir verðandi feðra um meðgöngu, fæðingu og fyrstu vikurnar eftir fæðingu barnsins ásamt því að ræða upplifun þeirra, viðhorf og hvaða stuðning þeir fá.

Meðganga

Í viðtalinu kom fram að þátttakendunum fannst litið vera rætt um feður og foreldrahlutverkið í fjölmiðlum og í þjóðfæelaginu yfirleitt. Þeim fannst umræðan opnast aðeins fyrir þremur árum þegar lög um fæðingarorlof feðra voru sett en eftir það hafi hún ekki verið áberandi. Mönnunum fannst að sú umræða sem færi fram í kringum þá væri á þeim nótum að eitthvað færi úrskeiðis eða gæti komið fyrir. Þetta er í samræmi við það sem kom fram í rannsókn sem gerð var í Svíþjóð 1999 þar sem verðandi feður töluðu um að sú umræða sem færi fram beindist frekar að erfiðleikum, aukinni ábyrgð og svefnlausum nóttum en gleðinni sem er samfara því að eignast barn.

Misjafnt var hversu oft feðurnir komu með konum sínum í meðgönguverndina og var það allt frá því að vera einstaka sinnum og upp í að koma í hvert skipti. Þetta samræmist því að verðandi feður séu æ meira að verða hluti af barneignarferlinu og sýni aukinn áhuga á því að vera þátttakendur í meðgöngunni, fæðingunni og foreldrahlutverkinu. Í viðtalinu kom fram að karlmennirnir koma með í meðgönguverndina til að “vera til staðar ef eitthvað kemur uppá.” og einn sagði: “Maður er öruggari með sig eftir því sem maður veit meira og heyrir meira þannig að… þessvegna kem ég með.”

Mennirnir voru allir ánægðir með meðgönguverndina. Þeir voru sammála um að þeim væri vel tekið af ljósmæðrum og fannst þeir vera gerðir að þátttakendum í því sem þar fór fram þó meira hafi verið talað við verðandi móður. Körlunum fannst auðvelt að spyrja ljósmóðurina þegar þeir vildu en fannst þeir ekki vera sérstaklega hvattir til þess. Þetta er í samræmi við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið.

Þegar hinir verðandi feður voru spurðir um líðan sína á “meðgöngunni” svöruðu flestir því að þeir væru kvíðnir og hefðu áhyggjur af því að eitthvað kæmi fyrir. Einn þeirra sagði “Ég reyni að búa mig nánast undir það versta… þó það sé leiðinleg tilhugsun, maður veit ekki alveg hverju maður á von á.” Þetta hefur einnig komið fram í öðrum rannsóknum.

Mennirnir voru allir sammála um að þeirra helsta hlutverk á meðgöngunni væti að vera stuðningsaðili fyrir konurnar og samræmist það líka niðurstöðum annarra rannsókna.

Allir mennirnir töluðu um að barnsmóðirin væri þeirra helsti stuðningsaðili þó þeir ræddu líka við aðra eins og vini og ættingja um meðgönguna. Enginn þátttakendanna hafði talað um meðgönguna eða barneignarferlið við föður sinn. Einn sagði að faðir hans vissi lítið um þessi mál og því væri ekki mikið á honum að græða. Þar sem karlmenn eru tiltölulega nýfarnir að vera þátttakendur í barneignarferlinu getur verið að þeim finnist feður sínir ekki fyrirmyndir hvað þetta varðar og leiti þess vegna ekki til þeirra um þessi mál.

Almennt voru þátttakendurnir ánægðir með þá fræðslu sem þeir höfðu fengið í meðgönguvernd og á foreldrafræðslunámskeiðum. Þeim fannst þó of mikil áhersla lögð á meðgönguna og lífeðlisfræðilegar breytingar sem verða hjá konunni. Í rannsókn sem gerð var í Bretlandi 1998-9 kom fram að mikil áhersla er lögð á líkamlega þætti í meðgönguverndinni og getur það komið niður á fræðslu um önnur efni sem verðandi foreldrar vilja fræðast um.

Mörgum fannst helst vanta upplýsingar um mataræði á meðgöngu og hvaða vítamín konum væri ráðlagt að taka. Einn nefndi líka lyfjanotkun á meðgöngu. Þetta kom líka fram í rannsókn sem gerð var af hjúkrunarfræðinemum, hér á Íslandi árið 2001. Hinsvegar kom þetta ekki fram í erlendum heimildum og því er hugsanlegt að erlendis hafi fólk greiðan aðgang að þessum upplýsingum.

Áberandi var hvað þátttakendur virtust hafa fengið litla fræðslu um fósturrannsóknir. Þeir höfðu allir farið í mómskoðun með konum sínum en aðeins einn þeirra sagðist hafa fengið einhverja fræðslu um tilgang 19 vikna ómskoðunar áður en þau fóru í hana. Flestir sögðust ekki hafa skilið hvað þeir sáu í ómskoðuninni. Sumir fengu engar útskýringar meðan á ómskoðuninni stóð og einn sagði: “Þær [ljósmæðurnar] renna þarna fram og tilbaka og gera einhverjar mælingar.” Aðrir sögðust hafa fengið mjög góðar útskýringar og einn sagði: “Sú sem gerði ómskoðunina útskýrði mjög vel og maður kom fróðari út.” Samkvæmt rannsókn sem gerð var í Svíþjóð árið 1997, á fenginni fræðslu verðandi foreldra fyrir og á meðan á ómskoðun stóð, kom fram að 85% feðranna sögðust hafa fengið nægar upplýsingar í ómskoðuninni og einungis 18% þeirra sögðust ekki hafa skilið það sem þeir sáu á skjánum.

Í mörgum heimildum kemur fram að eitt af því helsta sem karlmenn vilja meiri fræðslu um á meðgöngu er kynlíf. Mönnunum sem rætt var við fannst þeir hins vegar ekki þurfa meiri fræðslu um það og einn sagði: “það er alveg sama hvaða bækling og bók ég opna, alltaf skal vera kafli um kynlíf”

Í viðtalinu kom fram vanmáttakennd karlmannanna og óöryggi. Flestir þeirra virtust treysta á að konurnar vissu hvernig ætti að bregðast við ef eitthvað óvænt kæmi uppá. Það kom líka fram að mönnunum fannst þeir ekki hafa stjórn á þeim aðstæðum sem þeir eru í. Þrátt fyrir þessar neikvæðu tilfinningar kom líka fram bjartsýni og tilhlökkun. Samkvæmt heimildum eru allar þessar tilfinningar algengar hjá karlmönnum sem eiga von á barni.

Fæðing

Mismunandi viðhorf komu fram varðandi fæðinguna. Einn þátttakendanna var ósáttur við að gert væri ráð fyrir að allir feður væru viðstaddir fæðingu barnsins síns. Hann sagði: “Og ég hef sjálfur verið mjög tvístígandi með þetta hvort mig langi yfir höfuð til að vera viðstaddur. Bara út af því að ég er ekkert viss um að ég muni bara getað höndlað það.” Þetta er ekki í samræmi við almenna umræðu þar sem gert er ráð fyrir að allir verðandi feður hafi áhuga á að vera viðstaddir fæðingu barnsins síns.

Mennirnir voru misjafnlega öruggir varðandi aðdraganda fæðingarinnar. Tveir sögðust treysta á konurnar sínar, einn hafði engar áhyggjur og tveir töluðu um að þetta hafi verið rætt á foreldrafræðslunámskeiði. Annar þeirra sagði: “Ég væri óöruggur ef ekki hefði verið fyrir foreldranámskeiðið.” Samkvæmt rannsókn sem gerð var í Finnlandi,1993, vilja karlmenn fræðast um þætti eins og hvenær á að fara á fæðingadeildina og hvað á að taka með þangað til að undirbúa sig undir byrjandi fæðingu.

Hinir verðandi feður höfðu töluverðar áhyggjur af því að eitthvað kæmi fyrir í fæðingunni. Niðurstöður annarra styðja þetta. Einnig höfðu þeir áhyggjur af hlutverki sínu í fæðingunni og að standa sig ekki þar. Einn sagði að það sem hann hefði áhyggjur af væri: “yfirlið, að ég geri allt vitlaust hvað það varðar… (hlær) að það fari allt að snúast um mig en ekki… fæðinguna.” Þetta hefur líka komið fram í fleiri rannsóknum.

Eftir fæðingu

Mönnunum fannst vanta meiri fræðslu um foreldrahlutverkið og umönnun ungbarna. Einn þeirra sagði: “Mér finnst vanta þegar kemur að mínum þætti. Þegar ég á að koma og fara að gera eitthvað, sem er… fyrst af einhverri alvöru í fæðingunni og svo náttúrulega þegar barnið er komið í heiminn þar er ég alveg tómur þrátt fyrir að hafa sótt foreldranámskeið í næstum því 20 klukkutíma.” Margar rannsóknir hafa sýnt fram á þetta.

Flestum mönnunum fannst þeir ekki hafa nógu miklar upplýsingar um réttindi sín í tengslum við barneignir og þeir töldu óþarflega flókið að sækja um fæðingarorlof til Tryggingastofnunar ríkisins. Þeir ætluðu allir að taka sér fæðingaorlof en voru ekki búnir að gera það upp við sig hversu lengi eða hvenær þeir tækju það. Einn talaði um að hann yrði minna í vinnunni en venjulega, annar sagði að þrír mánuðir í einu væru allt of mikið en þriðji ætlaði að taka 6 mánaða fæðingarorlof. Í rannsókn sem gerð var hér á Íslandi 1998 kom fram að fæstir feður voru í raun algjörlega lausir úr vinnu á orlofstímabilinu ýmist vegna aðstæðna í vinnunni eða eigin óska.

Heimild: Rannveig Bryndís Ragnarsdóttir, (2003) Fræðsluþarfir verðandi feðra, Lokaverkefni í ljósmóðurfræði, Háskóli Íslands, Hjúkrunarfræðideild

Sjá nánar: http://www.ljosmodir.is/Default.asp?Page=NotePad&ID=28

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0