Í ÁRSBYRJUN 2005 samþykkti ríkisstjórnin að skipuð yrði fjölskyldunefnd að tillögu forsætisráðherra. Við skipan nefndarinnar þann 4. febrúar lét Halldór svo þessi orð falla: “Það er bjargföst trú mín að samheldin og ástrík fjölskylda sé kjarninn í hverju þjóðfélagi.
 
Þann kjarna þarf að styrkja og treysta og við höfum komið til móts við breyttar kröfur með fæðingarorlofi fyrir báða foreldra, sem var mikið jafnréttismál. Að sama skapi höfum við lagt áherslu á að allir geti eignast sitt eigið húsnæði. En betur má ef duga skal. Ég hef því ákveðið að setja af stað vinnu við að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar.” Halldór Ásgrímsson.

Þarna glöddumst við í hljóði og fögnuðum því að loksins kæmi að því að ríkisstjórnin ætlaði sér að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar og þar á meðal einstæðra foreldra. Hugtakið “fjölskylda” virðist þó ekki ná til allra fjölskylduforma hjá ríkisstjórninni, því við skipan nefndarinnar kom aldrei til greina að leita eftir fulltrúa frá einstæðum foreldrum sem þó eru yfir 12.000 manns. Og þrátt fyrir ítrekaðar kröfur og óskir forsvarsmanna Félags einstæðra foreldra þá hefur Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Björn Ingi, aðstoðarmaður forsætisráðherra og formaður fjölskyldunefndar, ítrekað neitað félaginu um hvers konar þátttöku í starfi nefndarinnar, jafnt um sæti í nefndinni og áheyrnarfulltrúa. Varð það tillaga ráðuneytisins í lokabréfi sínu að einstæðir foreldrar skyldu skrá sig í önnur félög sem nú þegar hafa fulltrúa í fjölskyldunefnd. Það er augljóst að okkur var ekki ætluð þátttaka og að ekki stæði til að athuga sérstaklega málefni einstæðra foreldra. Nú ári síðar hefur nefndin ekki tekið upp eitt málefni er varðar einstæða foreldra og börn þeirra og ætlar seint að taka við sér í þeim málefnum. Það er krafa okkar að fá að taka beinan þátt í störfum nefndarinnar og frá því víkjum við ekki.

Það sem varðar fæðingarorlof
Þegar fæðingarorlof var fest í lög gleymdist aftur að huga að öðru fjölskylduformi en sambúðar- og hjónafólki. Foreldrum og börnum er með þessum lögum gert kleift að vera heima með barnið fyrstu 9 mánuði af ævi þess. Þetta eru forréttindi sem þó allir fá ekki að njóta. Þær mæður sem vegna ýmissa ástæðna hafa ekki maka til að sinna nýfæddu barni eru neyddar til að ljúka fæðingarorlofi þegar barnið er orðið 6 mánaða, nema skerða laun og lengja orlofið. Þrátt fyrir ábendingar og ítrekaðar kröfur til félagsmálaráðherra frá því í ágúst 2004 um að leiðrétta þennan galla í fæðingarorlofskerfinu hefur Árni Magnússon látið það alveg ógert að svara erindum hvað þetta varðar sem og koma með lausn á því óréttlæti sem þar á sér stað.

Húsnæðismál
Í dag er staða húsnæðislána og húsnæðismála þannig að nánast ómögulegt er fyrir einstætt foreldri að festa sér kaup á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Ekki standa þeim til boða sértæk lán sem miða við aðstæður, laun og eignir og þurfa að lágmarki að eiga 2.500.000 kr. til útborgunar og hafa 197.000 kr. til ráðstöfunar, að öðru leyti geta þau ekki eignast húsnæði. Þeir einstæðu foreldrar sem þó hafa átt eða getað keypt sér húsnæði sitja ekki við sama borð og sambúðar- og hjónafólk hvað varðar vaxtabætur og eignatengingu. Réttur til vaxtabóta fellur niður hjá einstæðu foreldri þegar nettóeign þess er orðin 5,9 milljónir króna, en það gerist ekki fyrr en 3,9 milljónum seinna hjá sambúðar- og hjónafólki eða þegar nettóeign þess er orðin 9,8 milljónir. Þar að auki eru hámarks vaxtabætur einstæðra foreldra rúmum 62.000 lægri en hjá sambúðar- og hjónafólki. Í þessu felst gífurlegur ójöfnuður.

Nú spyrjum við
Hvar er fjölskyldustefna ríkistjórnarinnar í málefnum 12.000 einstæðra foreldra og 20.000 barna einstæðra foreldra? Hvaða hlutverk ætlar forsætisráðherra og ríkisstjórn einstæðum foreldrum í þjóðfélaginu? Því fá ekki öll börn möguleika á að vera 9 mánuði heima hjá foreldri í fæðingarorlofi? Hvernig stendur á því að aðeins hluti einstæðra foreldra á kost á húsnæðisláni, hvernig hyggst ríkisstjórnin létta undir með einstæðum foreldrum og hvar í ósköpunum eru mæðra- og feðralaunin, hyggst ríkisstjórnin eitthvað lagfæra þau til hins betra eða er ætlunin að útrýma eða leggja niður mæðra- og feðralaun að öllu leyti?

Og síðast en ekki síst, er það enn skýr stefna hjá Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra og Birni Inga, formanni fjölskyldunefndar, að halda forsvarsmönnum einstæðra foreldra algerlega frá störfum fjölskyldunefndarinnar, eða verður einstæðum foreldrum að einhverju leyti boðin þátttaka í starfi nefndarinnar?

Höfundur er formaður Félags einstæðra foreldra.

mbl.is 11.03.2006

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0