Aukin réttur barns til að ráða því hjá hvoru foreldi það kýs að búa var staðfestur í hæstarétti í forsjármáli í gær að mati Júlíusar Vífils Ingvasonar héraðsdómslögmanns. Hann segir þetta merkan áfanga og tíðindi að forsjá sé breytt í bráðabirgðaúrskurði.

Í Barnalögum frá 2003 segir að foreldrum beri að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefi tilefni til. Þar segir að afstaða barns skuli fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast. Þetta hefur þó sjaldnast verið raunin og má nefna nýlegt dæmi þar sem hæstiréttur samþykkti að 15 ára stúlka yrði flutt nauðug til móður sinnar en stúlkan hafði ítrekað lýst því yfir að hún vildi búa hjá föður sínum. Hæstiréttur klofnaði í afstöðu sinni og skiluðu tveir dómarar séráliti þar sem þeir töldu að fara ætti að vilja stúlkunnar.

Hæstiréttur virðist nú hafa breytt afstöðu sinni og ákveðið að virða vilja barns ef marka má dóm sem kveðinn var upp í forsjármáli 13 ára drengs í gær. Þá staðfesti hæstiréttur úrskurð héraðsdóms Vestfjarðar sem fór að eindregnum vilja drengsins og veitti móður hans bráðabirgðaforsjá en drengurinn hafði búið hjá föður sínum síðan hann var tíu ára.

Faðir drengsins óskaði þá eftir svokallaðri aðfararheimild eins og gerðist í máli stúlkunnar sem heimilar að barnið sé sótt með lögregluvaldi. Á þetta var fallist en þegar drengurinn neitaði enn staðfastlega að yfirgefa heimili móður sinnar ákvað Héraðsdómur Vestfjarða að heimildinni yrði ekki beitt.

Enn á eftir að úrskurða í hinu eiginlega forsjármáli en Júlíus Vífill segir afar sjaldgæft að forsjá sé breytt í bráðabirgðaúrskurði.

Tekið af fréttavef ruv.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0