Erindi á kynningarfundi Kjarks, sjálfshjálparhóps vegna ofbeldis, haldinn í Glerárkirkju á Akureyri, laugardaginn 28. febrúar 2004.

Foreldrasvipting hefur geigvænleg langtímaáhrif á börn sem fyrir henni verða. Samkvæmt erlendum rannsóknum eru börn sem eru svipt föður sínum mjög viðkvæm og eiga á hættu margvísleg vandamál þegar þau eldast, einkum varðandi fíkniefni, geðræn vandamál, afbrot og jafnvel sjálfsvíg. Ég ætla að ræða foreldrasviptingu og falskar ásakanir eins og þær hafa birst mér í starfi mínu og í nokkrum rannsóknum í Bandaríkjunum.

Af hverju „föðursvipting“? Ég mun nota orðin til skiptis. Í rannsóknum eru konur yfir 90% þeirra sem beita foreldrasviptingu – og hluti vandans er talinn liggja í því að vegna þeirra viðmiða í menningu okkar að móðirin fái forsjá eftir skilnað í næstum 95% tilvika er langalgengast að börn séu svipt feðrum sínum. Félag ábyrgra feðra telur nauðsynlegt að breyta þessu viðmiði þannig að forsjá fari álíka oft til föður og móður eða lögheimili sé álíka oft hjá föður og móður. Fyrir utan þá sanngirni sem slíkt viðmið gæfi af samfélaginu þá er þetta auðvitað réttlætismál fyrir konur því þessi breyting gæfi þeim aukin tækifæri á vinnumarkaði en ekki síður réttlætismál fyrir karla því með henni fengju þeir viðurkenningu á því sem feministar hafa barist fyrir: að feður séu jafn mikilvægir í lífi barna sinna og móðirin er.

Fyrst nokkur orð um falskar ásakanir sem fylgja iðulega foreldrasviptingu, misalvarlegar, en alvarlegastar eru ásakanir um kynferðislega misnotkun. Þær eru alvarlegastar af því að enginn glæpur er alvarlegri og engan glæp er jafn erfitt að fyrirgefa og kynferðislega misnotkun á börnum, hvað þá þegar foreldrar eiga í hlut. Félag ábyrgra feðra fyrirlítur hvers konar ofbeldi. Ofbeldi gagnvart börnum er félaginu sérstakur þyrnir í augum, enda markmið félagsins að bæta tengsl feðra við börn sín.

Einkenni falskra ásakana, einkum um kynferðislega misnotkun

Vísindamenn eru ásáttir um allnokkur helstu einkenni falskra ásakana og hafa þau hlotið viðurkenningu í fræðaheiminum og allnokkra meðal lögmanna í Norður-Ameríku. Einkennin falskra ásakana um kynferðislega misnotkun eru þessi:

1. Ásökunin kemur fram eftir aðskilnað og stundum á fyrstu stigum í sjálfu skilnaðarferlinu.

2. Fjölskyldan á sér sögu um ágreining sem ekki hefur jafnast og dulinn innri vanda.

3. Konan (sem ásakar) er oft móðursjúk eða jaðarpersónuleiki eða er reið, í vörn og réttlætingarfull.

4. Karlinn (sem er ásakaður) er venjulega passívur, umhyggjusamur og skortir „karlmennskulega“ eiginleika.

5. Barnið er gjarnan stelpa undir átta ára aldri.

6. Ásakanirnar koma fram í forsjárdeilu.

7. Móðirin fer með barnið til „sérfræðings“ sem staðfestir misnotkunina og bendir á föðurinn sem hinn brotlega.

8. Rétturinn bregst við upplýsingum sérfræðingsins með því að stöðva eða takmarka mjög umgengni.

Samkvæmt mörgum rannsóknum eru konur sem leggja fram falskar ásakanir iðulega haldnar einhverjum persónaleikaröskunum. Þær persónuleikaraskanir eru þrenns konar í meginatriðum:

1. Leikaraskapur. Einstaklingurinn virðist ákafur, áhyggjufullur og taugaspenntur og telur sjálfa sig vera fórnarlamb fyrrverandi maka. Hún kveður hann ráðskast með sig, þvinga sig og misnota líkamlega og andlega og telur nú barn sitt í sömu hættu að verða fórnarlamb hans. Túlkun hennar á hegðun barnsins virðist vera hluti af tilfinningum hennar sjálfrar og hún hefur óvenjulegar og tilefnislausar áhyggjur af barni sínu kynferðislega. Hún skoðar kynfæri barnsins jafnvel reglulega, fer ítrekað með barnið í læknisskoðun eða yfirheyrir barnið um hugsanlegar kynferðislegar athafnir.

2. Réttlát reiði – tilbrigði við leikaraskap. Konan leggur í upphafi fram vitsmunalega vel upp byggt mál sem stutt er og réttlætt með mörgum staðreyndum, myndum og skoðunum sem styðja mál hennar. Hún kemur sjálf þannig fyrir að hún sé full réttlátrar reiði og áhyggjum yfir hegðun fyrrverandi maka. En þegar hún er beðin að útskýra tiltekin atriði verður hún fjandsamleg, treg og bæði passív og æst. Hún rökræðir og jafnvel andmælir nákvæmum spurningum, er líkleg til að rjúfa samband við matsmanninn sem þannig vefengir fullyrðingar hennar og hótar jafnvel að fara í mál eða setja fram kvörtun um siðferðisbrest.

3. Manneskja á mörkunum (jaðarpersónuleiki). Vegna skilnaðarins sjálfs og álagsins sem honum fylgir bregst þessi persóna oft við á mjög brenglaðan hátt og missir jafnvel tengsl við raunveruleikann. Þessi kona þekkist jafnvel best á þeim einkennilegu og skrýtnu lýsingum sem hún gefur á atvikum í sögu sinni.

Þótt ásakanirnar séu falskar og eigi ekki við rök að styðjast er þó ekki hægt að segja að þær séu vísvitandi uppspuni í þeim tilgangi að öðlast forsjá með börnunum. Umfjöllun um ofbeldi, kynferðislegt jafnt sem andlegt og líkamlegt, og ábendingar á opinberum vettvangi um einkenni og afleiðingar þess, svo og margvísleg meðferð sem í boði er í samfélaginu virðist öllu heldur hafa þau áhrif að margir verði óðir og uppvægir yfir möguleikum á misnotkun. Þetta fólk getur óafvitandi farið að þróa með sér hugmyndir um ásakanir, sem þá verða falskar.

Það sem einkennir falskar ásakanir og greinir þær frá ásökunum sem eiga við rök að styðjast er helst þetta:

1. sá ásakaði heldur staðfastlega fram sakleysi sínu

2. sérfræðingar komast að þeirri niðurstöðu, eftir að skoða öll gögn, að ásakanirnar séu falskar

3.réttarkerfið finnur enga misnotkun.

Foreldrasvipting

Rannsóknir sýna að mæður eru miklu líklegri til að heilaþvo börnin en feðurnir. Ástæðurnar geta verið margvíslegar, og kannski hefur kynferði í raun ekkert með þessa tilhneigingu að gera. Tvær meginskýringar koma oftast fram: konur fá oftar forsjá og eiga því hægari heimatök við að heilaþvo börnin, og af ótta við að missa forsjána svo hún verði sameiginleg einsog nú er farið að tíðkast leiðast mæður frekar út í að heilaþvo börnin. Báðar skýringar eiga þó rót í því sama: kona tapar í skilnaðinum ef hún fær ekki forsjá barnanna.

Því má segja að meginhvati heilaþvottarins sé ótti og tap. Einn rannsakandi orðaði það svo að foreldrið sé svipt fyrra lífi sínu og fari þá í staðinn að svipta aðra. Því eigi faðir jafn auðvelt með að heilaþvo barn og móðirin ef hann lendir í viðkvæmri stöðu.

Heilaþvottur einn dugir ekki til að um foreldrasviptingu sé að ræða. Skilgreining fræðimanna á foreldrasviptingu er öllu heldur á þessa leið:

… margvísleg tækni til að hafa áhrif á þankagang barnsins eins og heilaþvottur ásamt ómeðvituðum og dulvituðum ferlum hjá sviptingarforeldrinu en barnið þarf einnig að leggja fram ákveðinn skerf til að niðra hitt foreldrið sem það telur sig hata (oft kallað svipta foreldrið). [Cook, Gardner ofl.]

Sviptingin birtist með ýmsu móti. Barnið gefur gjarnan fráleitar skýringar á niðrandi ummælum og lýsingum sínum á svipta foreldrinu. Barnið finnur ekki til jákvæðra tilfinninga og neikvæðra gagnvart foreldrum sínum svo það eigi í erfiðleikum með að velja heldur er svipta foreldrið alltaf eingöngu haldið illum eiginleikum (eins konar djöfull í mannsmynd). Sum sviptingarbörn hætta jafnvel að kalla föður sinn föður, heldur t.d. „hann“, „karlinn“ eða „manninn“.

Börnin fara að gera allt sem sviptandi foreldrið segir þeim að gera, bæði af ótta og til að fá hvíld frá endalausum yfirheyrslum foreldrisins eða til þess eins að þóknast foreldrinu. Þess vegna verða sviptingarbörn oft að eins konar spegilmynd sviptandi foreldrisins og sjá ekkert gott í svipta foreldrinu og ekkert vont í elskaða foreldrinu. Foreldrasvipting minnir þannig á minnistap, því barnið virðist hafa tapað öllum góðum minningum. Jafnframt finna þessi börn ekki til neinnar sektar yfir því sem þau gera.

Foreldrasviptingin hefur enn tvær mun alvarlegri afleiðingar: umgengnistálmanir og falskar ásakanir (oft um kynferðislega misnotkun), eins og fyrr er nefnt. Erfitt er þó að fullyrða um hvort tálmanirnar stafi beinlínis af sviptingunni eða ekki, því oft eru þær hluti af víðtakara ferli þar sem aðilar bregðast við skilnaðinum og afleiðingum hans. Umfram allt bendir ferlið á sársaukann sem skilnaðurinn leiðir yfir alla aðila hans. Umgengnistálmanir spretta iðulega af ágreiningi og valda frekari ágreiningi, foreldrana fer jafnvel að greina á um umgengnina sem slíka og gildi hennar, og svipta foreldrið fer þá í framhaldinu að beita einhverri gagnsviptingu. Þessi spírall veldur nokkrum erfiðleikum við að greina foreldrasviptingu. Þeir erfiðleikar eru líka fyrir hendi með falskar ásakanir.

Röng ásökun – frá móður – um að faðir hafi beitt barnið ofbeldi veldur klofningi í huga barnsins. Það hættir að geta hugsað hlýlega til föður síns, allar hlýjar, jákvæðar og heilbrigðar hugsanir og tilfinningar í hans garð fá á sig blæ hins illa, orð móðurinnar um galla hans gera sérhverja tilfinningu til hans neikvæða. Barnið fær sektarkennd yfir því einu að hugsa til föður síns. Það fær ekki tækifæri, vegna umgengnistálmana, til að kynnast föður sínum eða viðhalda traustu sambandi. Það myndast gjá milli föður og barns. Föðursvipt barn kastar jafnvel grjóti í bíl föður síns leyfi hann sér að reyna að nálgast það hjá skóla barnsins. Það kastar ekki grjótinu af raunverulegu hatri á föðurnum heldur af innri togstreitu – það er búið að snúa barninu, kljúfa það, drepa í því föðurímyndina.

Jafnvel þótt ásakanir um ofbeldi og misnotkun séu í tísku þá er það versta í málinu einmitt að með fölskum ásökunum er barnið aðeins peð í refskák foreldranna og með slíkum ásökunum og þeirri foreldrsviptingu sem henni fylgir er barnið í rauninni misnotað af foreldri sínu. Þessi börn treysta stundum á dómskerfið til að grípa inn í. Foreldrarnir treysta hins vegar meira og meira á lögfræðinga sína. Annar mikill ókostur er að falskar ásakanir gera í reynd lítið úr vandamálinu sem raunveruleg misnotkun er og býr jafnvel til skálkaskjól fyrir þá sem raunverulega misnota börn.

Langflest skilnaðarmál leysast áður en til dómsuppkvaðn­ingar kemur. Fram að því er uppkvaðningin notuð til að knýja aðila til samninga. Þetta bendir til að jafnvel þótt samningar náist eru það þvingaðir samningar, þvingaðir fram í þeim ótta að ef til dóms kæmi myndi viðkomandi ekki ná góðum árangri. Og hvað er góður árangur í skilnaðarmáli? Einn lögmaður lýsti honum svo: þar sem allir í fjölskyldunni eru á beinu brautinni fimm árum eftir skilnaðinn. En auðvitað vilja allir árangur strax og heilaþvottur er því miður leið til skammtímaárangurs enda er slíkur þvottur orðinn partur af lagaklækjunum.

Fjögur megineinkenni foreldrasviptingar

Í grein eftir J. Michael Bone og Michael R. Walsh sem birtist í The Florida Bar Journal í mars 1999 eru tekin saman 4 megineinkenni á foreldrasviptingu sem þurfi öll að skoðast fyrir rétti.

1. Umgengnistálmanir og rof á samskiptum.

Í verstu tilvikum leiða tálmanir eða ágreiningur til falskra ásakana eins og komið hefur fram. Stundum fullyrðir sviptandi foreldrið (forsjárforeldrið) að umgengni raski ró barnsins og að nauðsynlegt sé að það fái tíma til að aðlagast. Með þessu er svipta foreldrið orðið að einhverju öðru en foreldri. Börn þurfa ekki að aðlagast foreldrum sínum. Stundum er umgengnin kölluð óheppileg, eins og um leiðinlegt skylduverk sé að ræða. Allt þetta skaðar samband barns og forsjárlausa foreldrisins, sem í flestum tilvikum er faðirinn. Í þessum ferli er látið í veðri vaka að annað foreldrið skipti barnið öllu en hitt engu. Sé þessu viðhaldið nógu lengi rofnar sambandið alveg.

2. Tilhæfulausar ásakanir um misnotkun.

Falskar ásakanir um kynferðislega misnotkun eru meira en helmingur allra ásakana um slíkt. Sé ein ásökun fölsk í einhverju máli er nauðsynlegt að skoða allar ásakanir í málinu og gruna að þær séu falskar. Ásakanir um líkamlegt ofbeldi í kjölfar skilnaðar eru ekki algengar, enda koma fram merki um það (merki sem hægt er að sjá við rannsókn – en algengt er að þeir sem beita ofbeldi í reynd sjái til þess að fórnarlambið geti klætt af sér sýnileg merki). Algengustu áskanir sem feður eru bornir eftir skilnað og eiga ekki við rök að styðjast snúast um það sem kalla mætti tilfinningalegt ofbeldi. Þar er átt við margvíslega hegðun sem í reynd stafar af ágreiningi milli foreldranna um, t.d. um hversu lengi barnið megi vaka, hvaða myndir það megi sjá, hvenær nýr aðili er kynntur til sögunnar, eða eitthvað sem börnin gera sem annað foreldrið er mótfallið, t.d. tiltekin tómstundaiðkun, eða þátttaka í hópastarfi trúarhópa eða félagasamtaka. Í þessum tilvikum er ekki um ofbeldi að ræða, heldur eitthvað sem foreldrana greinir á um í uppeldinu. Þótt flest af þessu virðist smámunir geta þúsund slík atriði, daginn út og daginn inn, leitt til þess að áhrifin leiði til sviptingar fyrir barninu. Það má heldur ekki gleyma því að slíkur ágreiningur sem slíkur kallar ekki yfir barnið foreldrasviptingu, heldur það að annað foreldrið er tilbúið að hreyta ásökunum í hitt foreldrið í stað þess að beita varkárni, eins og ábyrgt foreldri myndi gera, styðja barnið til að elska hitt foreldið. Ábyrgt foreldri leyfir hinu foreldrinu að njóta vafans og lætur ásakanir bíða. Ásakandi foreldrið notar hins vegar hvert tækifæri til ásakana.

3. Sambandið rofnar eftir skilnað.

Hér er gert ráð fyrir því að fyrir skilnað hafi verið heilbrigðt samband barns og foreldris en að sambandið láti verulega á sjá eftir skilnað. Slíkt rof gerist ekki af sjálfu sér heldur þarf eitthvað til. Þetta er því einn mikilvægasti mælikvarðinn á foreldrasviptingu. Reyni faðirinn að viðhalda sambandinu með umgengni og öðrum athöfnum en börnin vilja ekki hitta hann eða hafa hann í sínu lífi þá hlýtur maður að spyrja hvort hér sé ekki um föðursviptingu að ræða. Heilbrigt samband rofnar ekki af sjálfu sér. Sé ekki hugað að því hvernig sambandið var fyrir skilnað gætu menn haldið að þetta hafi alltaf verið svona. Þess vegna er nauðsynlegt að huga að fortíðinni.

4. Mikill ótti með barninu.

Þetta er sálfræðilegra en hinir þrír mælikvarðarnir. Hér er átt við að barnið hræðist að andmæla og vanþóknast sviptandi foreldrinu varðandi svipta foreldrið. Sviptandi foreldrið setur barninu afarkosti, að það verði að samsinna foreldrinu ellegar uppskera fjandskap og refsingar þess. Andmæli barnið foreldrinu er því bara sagt að búa þá hjá hinu foreldrinu. Þótt aldrei verði úr því eru skilaboðin skýr viðvörun. Barnið verður þannig fulltrúi sviptandi foreldrisins og lendir í stöðugum prófraunum um hollustu sína við það foreldri. Þegar kemur að umgengni mótmælir barnið hástöfum að þurfa að fara til hins foreldrisins. Sviptandi foreldrið virðist þá steinhissa og lætur jafnvel sem það hvetji til umgengninnar. Þessi staða er mjög algeng í fjölskyldum þar sem foreldrasvipting á sér stað. Með hollustu við sviptandi foreldrið forðar barnið sér frá höfnun þess. Á þennan hátt virðist barnið velja að fara ekki í umgengni en er í reynd orðið ófært um að taka sjálfstæða ákvörðun. Slík börn verða oft stjórnsöm og ráðskast með aðra, leika sama leik og hefur verið leikinn við þau. Þau verða einkar leikin í að lesa tilfinningalegt umhverfi sitt, segja hálfan sannleika og jafnvel helbera lygi; allt til að komast af við þessa sviptingu. Þau sjá sig eiginlega tilneydd að taka upp hugmyndir sviptandi foreldrisins og hafna hinu foreldrinu alveg, tala illa um það og ráðast á það. Þegar þessi börn segjast ekki vilja neina umgengni við annað foreldri sitt verða sérfræðingarnir einmitt að vera alveg sérstaklega vel á verði.

Þessir fjórir mælikvarðar koma iðulega allir saman og höfum við í Félagi ábyrgra feðra fengið ótal kvartanir vegna slíkra mála. Sýslumenn, lögfræðingar, ráðgjafar og ekki síst ráðgjafar sýslumanna, sjá ekki þessa sviptingu og taka yfirleitt ásakanir forsjárforeldrisins, mæðranna, trúanlegar og afleiðingin er einmitt sú að fjöldi íslenskra barna býr nú við að hafa glatað feðrum sínum sem eru ekki aðeins illmenni fyrir börnunum heldur ekki til lengur.

Úrræði

Samkvæmt R. Gardner er ein meginástæða þess að foreldrasvipting er svo algeng einmitt sú að foreldrar óttast að sameiginleg forsjá og jöfn umönnun muni aðeins halda togstreitunni gangandi um aldur og ævi. Að grípa til heilaþvottar virðist þó einmitt viðhalda togstreitunni en alls ekki leysa úr ágreiningnum. En lausnin felst ekki í að hafa forsjána hjá öðru foreldrinu því börn þurfa á báðum foreldrum að halda. Lykilatriðið er að dómskerfið viðurkenni foreldrasviptinguna.

Það þarf hins vegar að meta foreldrasviptinguna og finna leiðir til að vinna gegn henni. Dómarar þurfa að finna út hvenær sviptingin á að valda því að forsjáin fari frá sviptandi foreldrinu til hins, sem er saklaust. Ef dómarar taka á foreldrasviptingu sem einni gerð barnamisnotkunar og dæma seka foreldrið til einhvers konar refsingar, forsjársviptingar og hugsanlega sekta, þá fer fólk að hugsa sig tvisvar um áður en það beitir börnunum þannig fyrir sig í deilu við fyrrverandi maka.

Það þarf að benda foreldrum á það, eins og dómari einn í Bandaríkjunum gerði, að þeim ber skylda til þess að láta börnin sýna hinu foreldrinu virðingu, ást og umhyggju. Kannski þarf að hlusta betur á börnin. Samkvæmt nokkrum rannsóknum vilja 80% heilaþveginna barna að einhver taki eftir heilaþvottinum og að hann hætti – og 70% finna til léttis þegar það gerist. Þess vegna eru 90% barnanna samvinnuþýð í rannsóknum. Sum þeirra hafa jafnvel sitt eigið tungutak til að afhjúpa heilaþvottinn, t.d. „Þegar hún byrjar að tala um pabba virðist hún ekki geta hætt.“

Fræðimenn greinir á um nákvæmar skilgreiningar á vandanum og lausnunum, en þeir eru sammála um að foreldrasvipting er raunveruleiki sem allt of mörg börn búa við. Og þeir eru sammála um að þennan raunveruleika þurfi að viðurkenna, að bæði fræðimenn, lögmenn og dómskerfið þurfi að viðurkenna foreldrasviptingu sem vandamál, að viðurkenna að það sé margslungið ferli þar sem annað foreldrið og barnið skapa sameiginlega einhvern heim sem hitt foreldrið er talið búa í, en þekkir ekki. Það þarf að viðurkenna að foreldrasvipting er til og að slík viðurkenning sé mikilvægasta skrefið í bili til að ráða einhverja bót á þessu vandamáli. Sumir benda á að dómskerfið þurfi alveg sérstaklega að viðurkenna þetta vandamál, því að foreldrasvipting er ekki eitthvert stig sem börnin ganga í gegnum og átta sig svo síðar á að var bara einhver vitleysa. Börnin búa við þessa sviptingu jafnvel alla ævi.

Föðursvipting er vissulega gamall arfur frá þeirri tíð þegar skilnaður leiddi til þess að faðirinn hvarf úr lífi barnsins sem ævinlega var skilið eftir hjá móður sinni. Þess vegna hafa skilnaðarbörn svona illt orð á sér. Femínismi síðustu áratuga hefur breytt þessum hlutum verulega. Nú taka feður ríkan þátt í uppeldi og umönnun barna sinna, eiga rétt á feðraorlofi og teljast framfærendur barna sinna. Þangað til þeir skilja. Þá taka við þessir gömlu fordómar. Femínisminn á drjúgan þátt í þessum fordómum því miður. Innbyggt í femínisma er ákveðin andúð á körlum, eins konar karlasvipting í samfélaginu, mjög eindregin svertun karlmennskuímynda, eins og kom greinilega fram í Morgunblaðinu um síðustu helgi (22. febrúar 2004): „Ég held að hluta heimilisofbeldis megi skýra með því að það sé hluti af menningu okkar. Við búum við karlaveldi, þ.e. samfélaginu er í meginatriðum stýrt af karlmönnum, þeir eru einfaldlega vanir því að hafa valdið“. (Brynhildur Flóvenz í viðtali) Ef við skoðum greiningar femínista á samfélaginu síðustu áratugi þá er ljóst að allt sem miður fer í samfélaginu stafar að þeirra mati af karllegum gildum, karllegri hugsun, karllegum aðferðum og svo framvegis.

Sú krafa femínista að gera karla að ábyrgum feðrum er þannig reist á tvískinnungi og sá tvískunnungur kemur skýrast fram í því að feður eru álitnir óþarfir eftir skilnað enda voru þeir kannski bara börn sem konan þurfti líka að ala upp í hjónabandinu eða sambúðinni. Þessi skilaboð byggjast líka á því að konur séu umhyggjusamari og það standi nær eðli þeirra en karla að annast börnin. En það verður auðvitað ekki bæði sleppt og haldið. Um leið og við förum að skoða vandamálin hljótum við líka að sjá að endurskoðun á þessum gildum er eitt helsta vopn kvenna í jafnréttisbaráttunni.

Karlmenn sem fá þessi skilaboð um að þeir séu verr til þess fallnir að sinna uppeldi og umönnun barnanna, lenda í svipaðri togstreitu og föðursvipt barn – tilraunir þeirra til að taka í alvöru ábyrgð á uppeldi barna sinna eru á dulbúinn hátt dæmdar sem svik við konuna og á endanum svik við þá sjálfa. Þessir karlmenn eru ekki einu sinni hálfir menn, þeir eru geltir og fullir af efa – sams konar efa og sáð er í huga barna með fölskum ásökunum í garð feðra þeirra.

Þess vegna þarf að breyta því viðhorfi að karlar séu óhæfir til forsjár og einmitt efla jafnrétti foreldra í forsjármálum, efla jafnrétti barna til beggja foreldra.

Loks vil ég benda á það sem einn fræðimaður hefur sagt: í okkar heimi skipta fjölskyldugildi miklu máli. En sundruð fjölskylda hefur einnig gildi og sinn rétt sem þarf að virða og varðveita til að hindra enn frekari sundrun og jafnvel hrun. Með aðgerðaleysi hættum við á að fórna heilli kynslóð barna á altari foreldrasviptingar og dæmum hana til fjölskyldubrenglunar, til að glata foreldrum sínum ævilangt.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0