Frá málþinginu um siðferði á netinu.
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.isAlmennar reglur gildi á heimilum um netnotkun
Á vef SAFT er að finna 10 netheilræði til foreldra vegna netnotkunar barna. Þar eru foreldrar m.a. hvattir til þess að kynna börnum sínum netið, vafra með þeim um það og finna vefsetur sem eru skemmtileg og við hæfi barna. Fólk er hvatt til að reyna að komast að samkomulagi við börn um almennar reglur um netnotkun á heimilum, svo sem hvernig eigi að fara með persónulegar upplýsingar.
Foreldrar þurfa að taka sig verulega á og kynna sér og læra á netið og notkun barna sinna á því,” segir Ketill B. Magnússon siðfræðingur en hann hélt erindi á ráðstefnu um siðferði á netinu, sem var haldin í gær, á alþjóðlegum netöryggisdegi. Siðferðilegar spurningar um netnotkun, menntun barna fyrir nútímann og stafræna framtíð íslensks æskufólks voru meðal umræðuefna á ráðstefnunni, en hún var haldin á vegum SAFT, sem er vakningarverkefni á vegum Heimilis og skóla um jákvæða og örugga notkun barna og unglinga á netinu og tengdum miðlum. Meðal markmiða ráðstefnunnar var að vekja umræður og umhugsun um netið sem opinberan vettvang og gagnvirkan fjölmiðil, nauðsyn þess að færa almennt siðferði og umgengnisreglur yfir á þennan miðil og að skólakerfið bregðist við gjörbreyttum aðstæðum í upplýsingasamfélaginu.
Anna Margrét Sigurðardóttir, verkefnisstjóri SAFT-verkefnisins hjá Heimili og skóla og einn skipuleggjenda ráðstefnunnar, segir að í tilefni hins alþjóðlega öryggisdags hafi verið opnaður bloggvefur á síðunni saft.is en þar muni fara fram opin umræða um siðferði á netinu sem allir séu hvattir til að taka þátt í.

Meðal fyrirlesara á ráðstefnu SAFT var Isabella Santa, sérfræðingur um vitundarvakningu hjá ENISA, Evrópustofnuninni um net- og upplýsingaöryggi, en hún ræddi um siðferði og mikilvægi þess að fólk sé meðvitað um netöryggi. ENISA er ný stofnun sem ætlað er það hlutverk að vinna að vakningu um öryggi í notkun upplýsingatækni og netsins. Stofnunin vinnur að því að taka saman upplýsingar um stöðu þessara mála í öllum löndum Evrópu og kanna hvaða leiðir reynast bestar í því að stuðla að vitundarvakningu um þau. Santa sagði á ráðstefnunni að mismunandi þættir gætu orðið til þess að ógna upplýsingaöryggi.

Nefna mætti sem dæmi þjófnað á gögnum sem innihéldu viðkvæmar eða mikilvægar upplýsingar, bilun í hugbúnaði og truflanir á netsambandi. Santa lagði áherslu á að aukin meðvitund almennings, einstaklinga og fyrirtækja væri besta vopnið í baráttunni fyrir upplýsingaöryggi. Þann öryggisvanda sem fólk lenti í við notkun netsins og tengdra miðla mætti oftast rekja til mannlegra orsaka og vanþekkingar fólks á miðlunum.

Með því að vera meðvitaður og kynna sér eðli miðlanna gæti fólk bæði forðast öryggisvanda og um leið hagað sér siðlega. Hættan á að viðkomandi dreifði óafvitandi óæskilegu efni um netið vegna vanþekkingar sinnar minnkaði með aukinni þekkingu.

Lesa ekki bloggsíður barna
Ketill B. Magnússon benti á í erindi sínu að mikilvægt væri að huga að því hvar börn fara inn á netið og hvaða stuðning þau fái. “Í skólanum vinna þau með kennurum og undir eftirliti þeirra, en mestur tími barna á netinu fer þó fram í heimatölvum. Því þarf að skoða hvernig aðstæður eru þar, hvort foreldrar leiðbeini börnum og ræði við þau um hvað ber að varast,” segir Ketill. Í erindinu sem hann flutti á ráðstefnunni ræddi Ketill meðal annars um siðferði á netinu og spurði hvort það væri frábrugðið siðferði í veruleikanum. Ketill kveðst telja að sömu viðmið eigi að gilda en ýmislegt geri að verkum að fólki finnist að svo sé ekki. Hann nefnir sem dæmi barn sem heldur úti bloggsíðu, eða dagbók á netinu, og spyr foreldri sitt hvort það hafi lesið dagbókina. Margir foreldrar vilji ekki lesa dagbækur barna sinna af tillitssemi við þau. Um það sem ritað er á vefinn gildi hins vegar ekki trúnaður, það geti allir lesið. “Það sem við segjum í netdagbókinni, hvernig við birtumst þar, ætti að lúta sömu viðmiðum og við höfum í eðlilegum, beinum samskiptum við fólk,” segir Ketill. Huga verði að því, jafnt í raunveruleikanum sem sýndarveruleikanum, að bera virðingu fyrir fólki og gæta að því hvernig talað er til þess.

Uppeldið endar ekki við lyklaborðið
Lára Stefánsdóttir, ráðgjafi um upplýsingatækni og menntun, hélt erindi á ráðstefnunni undir yfirskriftinni Að mennta börn fyrir nútímann. Hún benti á að uppeldi barna endaði ekki við lyklaborðið, heldur væri vinna sem talsvert þyrfti að hafa fyrir. Börnum og ungmennum séu lagðar lífsreglur á ýmsum sviðum, svo sem hvernig þau eigi að haga sér í kennslustofu, koma fram, jafnvel borða snyrtilega, en þegar komi að netinu gildi engar reglur. Margir virtust ekki átta sig á því að það sem sett væri á netið gætu allir lesið. “Hverjum dettur í hug að setja leyndarmál á netið? Þeim sem ekki hafa hlotið menntun í nútímanum,” sagði Lára. Ábyrgðina á því bæru kennarar og foreldrar barna.

mbl.is Miðvikudaginn 8. febrúar, 2006 – Innlendar fréttir
Fréttaskýring | Fundur um siðferði á netinu

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0