Hulda Karen Ólafsdóttir fjallar um ráðstefnu um fæðingarorlof í Hafnarfirði: “Í ár eru 5 ár liðin frá því að ný lög um fæðingar- og foreldraorlof voru samþykkt á Alþingi.”
HINN 23. september mun lýðræðis- og jafnréttisnefnd Hafnarfjarðar, í samstarfi við Kvenréttindafélag Íslands efna til ráðstefnu í Hafnarfirði undir yfirskriftinni Foreldrar og fæðingarorlofið.

Með ráðstefnunni vill nefndin og KRFÍ skapa umræðu um framkvæmd fæðingarorlofs á Íslandi. Í ár eru 5 ár liðin frá því að ný lög um fæðingar- og foreldraorlof voru samþykkt á Alþingi. Lögin þóttu og þykja enn mikil réttarbót, einkum að því er varðar rétt feðra til fæðingarorlofs, en samkvæmt lögunum eiga foreldrar sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði auk sameiginlegs réttar á þremur mánuðum til viðbótar.

Markmiðin með hinum sjálfstæða rétti til handa feðrum voru m.a. að hvetja karla til að gegna skyldum sínum gagnvart börnum sínum og fjölskyldulífi til jafns við konur og að gera báðum foreldrum það auðveldara að samræma skyldur sem lagðar eru á herðar þeirra í starfi og einkalífi. Það má því segja að með lögfestingu fæðingarorlofs til handa feðrum hafi verið tekið mikilvægt skref í átt til jafnréttis kynjanna en atvinnuþátttaka kvenna mælist óvíða meiri en á Íslandi og því nauðsynlegt að íslenskir foreldrar hafi tækifæri til að deila með sér ábyrgð á fjölskyldu og heimili og að samræma atvinnu- og fjölskyldulíf.

Umræða um framkvæmd fæðingarorlofs hefur borið á góma á undanförnum mánuðum. Flestir þekkja mál framkvæmdastjóra KEA sem gerði starfslokasamning við fyrirtækið um svipað leyti og hann hugðist nýta rétt sinn til töku fæðingarorlofs. Því miður er KEA-málið ekkert einsdæmi og allt of margir foreldrar, bæði konur og karlar, hafa lent í vandræðum og jafnvel uppsögnum í tengslum við töku fæðingarorlofs. Í umræðunni hefur ekki mikið borið á þessum málum enda oft erfitt um vik fyrir þá sem lenda í þessari lífsreynslu að tjá sig um hana.
Á fyrrnefndri ráðstefnu mun Lóa Aldísardóttir fréttakona á Talstöðinni greina frá sinni reynslu í þessu sambandi. Lýðræðis- og jafnréttisnefnd er á þeirri skoðun að samfélagið í heild sinni, og þá ekki síst atvinnurekendur, verði að standa vörð um fæðingarorlofslögin og að tryggja verði að framkvæmdin sé með þeim hætti að foreldrar upplifi ekki að atvinnuöryggi þeirra sé í hættu vegna barneigna.

Löggjöf, ein og sér, dugir skammt ef ekki er vilji til að fylgja henni eftir og virða markmið hennar. Umræða er mikilvæg í þessu samband og vonandi tekst með ráðstefnunni Foreldrar og fæðingarorlofið að varpa nokkru ljósi á málefnið en auk Lóu Aldísardóttur munu eftirfarandi fyrirlesarar skoða framkvæmdina frá mismunandi sjónarhorni: Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, Edda Jónsdóttir frá Kvenréttindafélagi Íslands, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor við kennaradeild Háskólans á Akureyri, Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi Alcan á Íslandi hf. og Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir lögfræðingur.

Lýðræðis- og jafnréttisnefnd hvetur alla sem áhuga hafa á málefninu að mæta í Hásali v. Strandgötu í Hafnarfirði (Safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju) á föstudag 23. september kl. 13:00, ráðstefnunni lýkur kl. 16:30. Aðgangur er ókeypis en vinsamlegast tilkynnið þátttöku á netfangið annaj@hafnarfjordur.is eða í síma 585-5503 fyrir hádegi fimmtudagsins 22. september. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar www.hafnarfjordur.is.

Höfundur er formaður lýðræðis- og jafnréttisnefndar Hafnarfjar

Hulda Karen Ólafsdóttir

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0