Garðar Baldvinsson skrifar í tilefni af Alþjóðlegri viku foreldrajafnréttis: “Sameiginleg forsjá og jöfn umönnun barna eftir skilnað kemur börnunum best.”
Í UMRÆÐUM undanfarið um tilhögun forsjármála og hugsanlegar breytingar á þeim, hefur núverandi fyrirkomulag, þ.e. að við skilnað fari forsjá barna til annars foreldrisins, verið mikið gagnrýnt.
Helstu forsendur gagnrýninnar eru að með eins foreldris forsjá er hitt foreldrið (það forsjárlausa, faðirinn í yfir 90% tilvika) gert óþarft eða í mesta lagi eins konar skemmtanastjóri. Samkvæmt rannsóknum í Englandi missa t.d. 40% forsjárlausra foreldra (feðra) allt samband við börn sín eftir skilnað. Það þýðir að u.þ.b. 40% skilnaðarbarna missa allt samband við feður sína. Mjög líklegt er að hlutfallið sé svipað á Íslandi. Það þýðir að 8.400 skilnaðarbörn búa við föðurleysi.

Félag ábyrgra feðra leggur mikla áherslu á að sameiginleg forsjá með jafnri umönnun sé eðlilegasta fyrirkomulagið eftir skilnað eða sambúðarslit og best til þess fallið að leysa úr ágreiningi sem upp getur komið og langbesta úrræðið sem býðst til að gera börnum áfall skilnaðar sem auðveldast og takmarka áhrif hans á framtíð barnanna.

Rannsóknir erlendis gefa mjög sterklega til kynna að sameiginleg forsjá með jafnri umönnun komi bæði börnum og foreldrum best. Þetta fyrirkomulag gerir ráð fyrir að báðir foreldrar séu hæfir til að takast á hendur ábyrgðina sem foreldrahlutverkið krefst, rétt eins og gert er ráð fyrir með flest fólk fyrirfram, þ.e. sem eignast börn. Fyrirkomulagið felur m.a. í sér eftirfarandi:

1 ) Báðir foreldrar hafa veruleg og viðvarandi samskipti með börnum sínum (hér er átt við að lágmarki 30% af umönnunartímanum). Með þessu hafa börnin fjölskyldutengsl við báða foreldra sína.

2 ) Báðir foreldrar hafa jafna stöðu gagnvart lögunum, þar á meðal gagnvart skólum, læknum o.s.frv.

3 ) Báðir foreldrar taka þátt í mikilvægum ákvörðunum um líf barnsins.

4 ) Báðir foreldrar styðja barnið tilfinningalega jafnt sem fjárhagslega.

Helstu og sterkustu rökin fyrir þessu fyrirkomulagi eru þessi:

Börnin fá þá tilfinningu að báðir foreldrar sinni þeim, annist þau og elski. Þessi tilfinning viðheldur heilbrigðri sjálfsmynd barnanna.

Þar sem hvorugt foreldrið er sigurvegari og hitt tapar öllu eru valdahlutföll jöfn, samskipti haldast í jafnvægi og skilnaður foreldranna verður minna áfall fyrir börnin. Foreldrarnir vita frá upphafi að þau þurfa að deila ábyrgð og völdum varðandi barnið og hafa því engan ávinning af ágreiningi eða deilum eins og núverandi fyrirkomulag býður því miður upp á.

Með jafnri umönnun fá börnin þá tilfinningu að þau þurfi ekki að gera upp á milli foreldra sinna. Þau upplifa ekki brotna sjálfsmynd af þessum sökum.

Skilnaður er alltaf áfall, hvort heldur hann verður af fúsum vilja eða ekki. Áfallið er oft mest fyrir börnin. Með sameiginlegri forsjá og jafnri umönnun er mjög dregið úr áhrifum áfallsins og börnin fá fleiri tækifæri til að þroska eigið sjálf en ella.

Útilokun annars foreldrisins frá ábyrgð og ákvörðunum um framtíð barnsins eftir skilnað jafngildir því að þetta foreldri hafi enga ábyrgð eða ákvörðunarvald í lífi barnsins fyrir skilnað. Það hljóta allir að sjá hversu fáránleg sú hugmynd er. Það kann jafnvel að vera mannréttindabrot gagnvart foreldrinu og barninu.

Hagsmunir barnsins eru best tryggðir með virkri þátttöku beggja foreldra. Það verður að teljast grimmúðlegt og ómennskt að halda öðru foreldrinu frá barni sínu svo fremi að ekki sé um óhæfa foreldra að ræða. Að sama skapi er það óhæfa að halda barni frá ömmum og öfum, nema ríkar ástæður liggi til.

Það eru mannréttindi barna að þekkja, tengjast og mynda fjölskyldutengsl við báða foreldra sína. Stríð getur ekki eyðilagt þessi mannréttindi. Af hverju ætti skilnaður að geta það?

Foreldrar sem mynda og viðhalda eðlilegum tengslum við börn sín eru tilbúnari en ella til að leggja út peninga vegna uppeldis og menntunar barnanna.

Þessi vika frá 26. september til 2. október, er alþjóðleg vika foreldrajafnréttis. Félag ábyrgra feðra á Íslandi, Fathers 4 Justice í Bretlandi og víðar, sem og fleiri samtök víðs vegar um heiminn standa nú fyrir margvíslegum aðgerðum til að minna á þau sjálfsögðu réttindi allra barna að báðir foreldrar annist uppeldi þeirra. Aðskilnaður frá foreldri er eitt versta atlæti sem börnum er boðið upp á í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar. Allir ættu að geta tekið undir að gott atlæti í æsku geri fólk betur búið undir lífið en vont atlæti, að gott atlæti er það eina sem þjónar hagsmunum barnsins.

Höfundurinn Garðar Baldvinsson er formaður Félags ábyrgra feðra.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0