Gísli Gíslason fjallar um forsjá skilnaðarbarna: “Jöfn búseta skilnaðarbarna til skiptis hjá báðum foreldrum kemur vel út fyrir börn.”

Í HINUM vestræna heimi búa börn oftast hjá mæðrum sínum eftir skilnað foreldra, en hafa einnig samvistir við föður, í mismiklum mæli þó. Flestar erlendar rannsóknir sýna að með minnkandi þátttöku föður í uppeldinu eiga börn oftar erfitt uppdráttar.

Bandarískar rannsóknir hafa sýnt fram á að börn frá föðurlausum heimilum eftir skilnað eru:
*5 sinnum líklegri til að fremja sjálfsmorð
*32 sinnum líklegri til að flýja að heiman
*20 sinnum líklegri til að eiga við hegðunarvanda að stríða
*14 sinnum líklegri til að nauðga
*9 sinnum líklegri til að hætta í skóla
*20 sinnum líklegri til að enda í fangelsi
Það ætti öllum að vera ljóst að nærvera beggja foreldra er barni geysilega mikilvæg.

Sameiginleg forsjá
Á Íslandi hefur frá árinu 1992 verið hægt að semja um sameiginlega forsjá barna þegar foreldrar skilja. Foreldrar verða þá að vera sammála um slíkt, annars fer forsjá til annars foreldrisins, oftast nær móður. Innihald sameiginlegrar forsjár hér á landi er rýrt, enda hefur það foreldri sem barnið á lögheimili hjá áfram stöðu einstæðs foreldris og hitt að mestu stöðu forsjárlauss foreldris. Munurinn á eins foreldris forsjá og sameiginlegri forsjá er því meiri í orði en á borði.

Sameiginleg forsjá og jöfn búseta barna eftir skilnað
Víða í nágrannalöndum fara báðir foreldrar sjálfkrafa áfram með forsjá barna eftir skilnað. Þar eru skilaboð löggjafans skýr: Uppeldisskyldum foreldra lýkur ekki þótt parasamband hætti.
Í Svíþjóð hefur sameiginleg forsjá verið til frá árinu 1949 og í dag er ekki óalgengt að börn hafi jafna búsetu hjá báðum foreldrum eftir skilnað. Árið 2001 höfðu 17% skilnaðarbarna jafna búsetu sem var fjórföld aukning á 10 ára tímabili. Margir hafa efasemdir um slíkt fyrirkomulag hér á landi og telja börnunum fyrir bestu að hafa aðeins einn samastað og þá hjá móður, en hafi jafnframt ákveðnar samverustundir við föður.
Í bókinni “Skilsmissa börn berättar” eða “Skilnaðarbörn segja frá” frá árinu 2002 fjalla sænsku Öberg-hjónin, Bente og Gunnar, um rannsókn þar sem þau töluðu á árunum 1978-1982 við 60 pör sem voru að skilja og börn þeirra. Um 20 árum eftir skilnað var aftur rætt við 50 “börn”, 25 konur og 25 karla. Við skilnaðinn lögðu foreldrarnir upp með að börnin myndu búa jafnt hjá báðum foreldrum. Öberg-hjónin gerðu ráð fyrir að um eitt af hverjum fimm börnum myndu lenda afvega í lífinu, eins og algengt er með skilnaðarbörn, og vonuðust til að hlutfall ógæfubarna yrði ekki hærra við þetta sambúðarform. Niðurstaðan varð sláandi. Einungis eitt af þeim 50 börnum, sem haft var samband við, hafði lent illa afvega í lífinu. Fimm aðrir höfðu tímabundið lent í minniháttar vandamálum, en voru öll fjölskyldufólk í góðri stöðu þegar Öberg-hjónin hittu þau aftur. Ályktun Öberg-hjónanna var skýr eftir þessa rannsókn: Látum búsetu barna vera sem jafnasta hjá báðum foreldrum eftir skilnað, þegar það er hægt. Öberg-hjónin benda á nokkur skilyrði sem þurfi að uppfylla til að slíkt fyrirkomulag gangi. Það er m.a. að foreldrar búi nálægt hvort öðru, báðir foreldrar og barn vilji þetta fyrirkomulag og foreldrar geti haft samskipti sín á milli. Öberg-hjónin bentu einnig á að í slíku fyrirkomulagi hafi allir áfram hlutverk, hvorugt foreldrið er tapari í skilnaðinum og börnin njóta áfram ástúðar beggja foreldra. Langflestum af þeim 50 einstaklingum, sem Öberg-hjónin töluðu við og bjuggu til skiptis hjá báðum foreldrum eftir skilnað þeirra, fannst þetta gott fyrirkomulag og myndu einnig vilja slíkt fyrirkomulag fyrir sín börn ef þau lentu í skilnaði við sinn maka.
Á Íslandi eru um 4.000 börn í hverjum árgangi. Af þeim eru um 1.100 börn sem greitt er meðlag með, þar sem kynforeldrarnir búa ekki saman. Ef eitt af hverjum fimm skilnaðarbörnum á Íslandi lendir í vandræðum þá eru það 220 af 1.100 börnum í árgangi . Ef það er einungis eitt af hverjum 50 eins og reyndin var samkvæmt rannsóknum Öberg-hjónanna, við jafna búsetu, þá fækkar þessum ógæfueinstaklingum úr 220 í 22 börn í hverjum árgangi. Þetta þýddi að 200 börnum á Íslandi í hverjum árgangi myndi vegna betur!

Niðurlag
Á Íslandi þarf að þróa áfram sameiginlega forsjá yfir í jafna foreldraábyrgð. Það þarf að auka skilnaðarráðgjöf, þannig að báðir foreldrar nái sem fyrst áttum eftir skilnað og báðir foreldrar hafi áfram virkt hlutverk í lífi barna sinna. Það næst best með því að börn hafi sem jafnasta búsetu. Útgjöld vegna aukinnar ráðgjafar myndu spara hinu opinbera útgjöld í ýmsum meðferðarmálum fyrir unglinga sem og heilbrigðisþjónustu og fangelsimálum, þar sem færri börn færu vill vegar í lífinu. Hagsmunir barnanna okkar eru í húfi.

Grein birtist í Morgunblaðinu 17 oktober 2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0