Gísli Gíslason fjallar um foreldraábyrgð: “Það þarf að tryggja að foreldrar beri ávallt sem jafnasta ábyrgð á börnum sínum allan uppvöxtinn, óháð hjúskaparstöðu foreldra.”

VEIGAMIKLAR breytingar hafa orðið í samfélaginu á síðustu áratugum. Konur sóttu út á vinnnumarkaðinn og börnin fóru í leikskóla. Víða hallar á hlut kvenna á vinnumarkaði. Nærtækt er að benda á að fáar konur eru á meðal 100 launahæstu manna og fáar konur eru á meðal æðstu stjórnenda stórfyrirtækja landsins. Getur verið að skýringuna sé að finna í forsjár- og umönnunarmálum barna?
Á Íslandi, eins og í hinum vestræna heimi, er tíðni skilnaða há og algengt að blóðforeldrar barns búi ekki saman. Á Íslandi eru ríflega 12.000 meðlagsgreiðendur. Af þeim eru 96% karlar en aðeins um 3% konur. Börn búa í yfir 90% tilfella hjá móður eftir skilnað. Hvergi í okkar samfélagi er kynbundinn munur meiri.

Enn þann dag í dag er staðalímynd samfélagsins sú að barn skuli að öllu jöfnu búa hjá móður eftir skilnað. Ef barn býr hjá föður eftir skilnað, þá er spurt, hvort heldur upphátt eða í hljóði: “Hvað var að hjá móður?”

Konur gátu lent í því að karlar væru frekar ráðnir í störf, vegna þess að þær hygðu á barneignir. Með lögum um fæðingarorlof var körlum tryggður sambærilegur réttur og konum til orlofstöku vegna barneigna. Í dag taka bæði kynin fæðingarorlof og standa þannig jafnt gagnvart vinnuveitanda að þessu leyti. Hér bætti aukinn réttur karla stöðu kvenna á vinnumarkaði.

Foreldraábyrgð rýrir sveigjanleika og veikir því miður stöðu einstaklings á vinnumarkaði. Í dag hvílir foreldraábyrgð meira á mæðrum, sérstaklega ef kynforeldrar búa ekki saman. Vísasta leiðin til að halda áfram að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði er að jafna stöðu kynjanna í uppeldis- og umönnunarhlutverkum barna sinna. Það þarf að tryggja að foreldrar beri ávallt sem jafnasta ábyrgð á börnum sínum allan uppvöxtinn, óháð hjúskaparstöðu foreldra. Þegar fullkomnu foreldrajafnrétti er náð, þá munu konur ná launajafnrétti á vinnumarkaði. Ekki fyrr.

Gísli Gíslason
Höfundur er markaðsstjóri og formaður Félags ábyrgra feðra.

mbl.is Miðvikudaginn 14. desember, 2005 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0