SAMEINUÐU þjóðirnar lögðu til að 15. maí skyldi verða alþjóðlegur dagur fjölskyldunnar. Þetta var gert með samþykkt 47/237 sem var staðfest þann 20. september árið 1993 Aðildarríki gætu einnig notað aðra dagsetningu, sem dag fjölskyldunnar ef það hentaði betur í viðkomandi ríki, en lönd voru hvatt til að helga einn dag á ári fjölskyldunni.

 

Þema fjölskyldudagsins árið 2006 er “Breyttar fjölskyldur: Áskorun og möguleikar” eða “Changing Families: Challenges and Opportunities” svo notað sé hin engilsaxneska útgáfa. Um hinn alþjóðlega fjölskyldudag má sjá á vefsíðunni:
http://www.un.org/esa/socdev/family/IntObs/IDF/IDFFrames/IDF2006.htm

Í hinni hefðbundnu kjarnafjölskyldu var faðirinn útivinnandi, skaffari heimilisins og móðirin heimavinnandi. Fyrir um 30 árum fóru konur í auknum mæli út á vinnumarkaðinn. Í framhaldi fóru flest börn á barnaheimili og í dag er viðurkennt að leikskóli er fyrsta skólastigið. Hlutverk nútíma föðurins er annað en feðra okkar. Í dag er ætlast til að feður og mæður séu jafnvíg á vinnumarkaði og við heimilisstörfin. Feður taka virkan þátt í uppeldi barna, njóta m.a. réttinda á við mæður í fæðingarorlofi. Viðurkennt er að barn skal njóta uppeldis beggja foreldra. Þessi gildi eru í góðu lagi á meðan foreldrar búa saman. Um þetta er almenn sátt í samfélaginu. Við skilnað kollvarpast þessi gildi. Feður verða þá aftur skaffarar (meðlagsgreiðendur) eins og í hinni gömlu kjarnafölskyldu. Þeim er ýtt til hliðar frá uppeldi barnanna, en fá þau hugsanlega í heimsókn aðra hverja helgi. Það eru alls engar rannsóknir sem sýna að þetta sé barni fyrir bestu. Þvert á móti sýna rannsóknir að þegar skilnaður foreldra er orðin staðreynd er aldrei mikilvægara fyrir börn að hafa náið samband við báða foreldra. Erlendar rannsóknir sýna að skilnaðarbörn sem njóta áfram ríkra samvista við báða foreldra spjara sig betur en önnur skilnaðarbörn.

Það er mikilvægt að samfélagið fjalli um fjölskylduna og allar gerðir fjölskyldna og hvernig við tryggjum best velferð barnanna. Fjölskyldan er áfram hornsteinn í okkar samfélagi. Hún er orðin fjölbreyttari og flóknari. Félag ábyrgra feðra berst fyrir því að þau gildi séu viðurkennd að forsjárlaust foreldri, sem oftast er faðir, skuli áfram njóta fjölskyldulífs með börnum sínum og börnin njóti ávallt uppeldis beggja foreldra. Viðurkennt verði að börn á Íslandi eigi heima á tveimur heimilum þegar foreldrar búa ekki saman. Það er ögrun fyrir samfélag nútímans að tryggja öllum börnum þessi réttindi. Viðurkennd verði sú staðreynd að foreldrajafnrétti séu bestu hagsmunir barna. Þetta er í anda réttarfarsþróunar erlendis.

Barátta Félags ábyrgra feðra er í anda þess, sem Sameinuðu þjóðirnar lögðu upp með árið 1993 þegar hinn alþjóðlegi fjölskyldudagur var stofnaður, en barátta félagsins er ekki síður í anda þess þema sem dagurinn ber í dag, “Breyttar fjölskyldur: Áskorun og möguleikar”. Það væri þarft verkefni fyrir Alþingi Íslendinga að fjalla um hvort Íslendingar ættu ekki að merkja fjölskyldunni einn dag á dagatalinu, en ekki síður er mikilvægt að löggjafinn tryggi foreldrajafnrétti á Íslandi, enda eru það bestu hagsmunir barnanna okkar.
Gísli Gíslason
Höfundur er markaðsstjóri og formaður Félags ábyrgra feðra.
mbl.is Föstudaginn 19. maí, 2006 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0