Sunnudaginn 12. nóvember, 2006 – Aðsent efni

Foreldrajafnrétti bestu hagsmunir barna

Víðir Ragnarsson fjallar um foreldrajafnrétti

Víðir Ragnarsson fjallar um foreldrajafnrétti: “Sterk tengsl og ríkuleg samvera við báða foreldra eru öllum börnum mikilvæg.”

 DAG búa rúmlega 18 þúsund íslensk börn hjá einstæðum foreldrum eða rétt rúmlega 23% íslenskra barna, þetta hlutfall er enn hærra í Reykjavík þar sem tæplega þriðjungur barna býr hjá einstæðum foreldrum. Fjöldi barna sem alin eru upp af einu foreldri hefur vaxið jafnt og þétt á síðustu árum og áratugum, til að mynda bjuggu um 16% íslenskra barna hjá einstæðum foreldrum árið 1995 eða tæplega 13 þúsund börn.

Börn einstæðra foreldra eiga erfiðara uppdráttar

Erlendar rannsóknir á högum barna sem búa hjá einstæðum foreldrum sýna að þessum börnum vegnar á margan hátt verr en börnum sem alast upp hjá báðum foreldrum. Þessar rannsóknir sýna að börn sem alin eru upp af einu foreldri glíma í ríkari mæli við hegðunar- og tilfinningavanda en önnur börn. Menntun þeirra er almennt styttri en annarra barna, fleiri þeirra hafa einungis lokið grunnmenntun, þau ljúka síður langskólanámi og námsárangur þeirra er lakari.

En hvernig vegnar börnum einstæðra foreldra á Íslandi? Rannsóknir sýna sömu tilhneigingu hér á landi, að fjölskyldugerð virðist skipta miklu máli þegar horft er á líðan og velferð íslenskra barna og unglinga.

Upplýsingar um börn sem barnaverndarnefndir á Íslandi hafa afskipti af leiða í ljós að tæplega 60% þeirra búa ekki hjá báðum foreldrum sínum. Af þeim börnum sem sótt er um meðferð fyrir á meðferðarheimilum á vegum Barnaverndarstofu búa um 80% þeirra ekki hjá báðum kynforeldrum sínum. Tölur frá árunum 1996 til 2000 um heimilislaus börn sem leituðu athvarfs í Rauðakrosshúsinu sýna að einungis 11% þeirra bjuggu með báðum foreldrum.

Ríkuleg og traust samskipti foreldra og barna eru mikilvæg

Fræðimenn hafa bent á að aðgengi barna að fleiri en einum fullorðnum uppeldisaðila skiptir verulegu máli í uppeldi barna. Þeim börnum sem hafa aðgengi að, verja tíma með og mynda góð tengsl við báða foreldra sína vegnar betur og verða síður fyrir áföllum.

Ríkuleg samvera unglinga og foreldra dregur úr líkum á vímuefnaneyslu unglinga. Unglingar sem verja miklum tíma með foreldrum sínum og eru í góðum tengslum við þá hefja síður neyslu vímuefna, þeir eiga jafnframt auðveldara með að standast neikvæðan þrýsting jafnaldra. Unglingar sem eru í góðum tengslum við foreldra sína eru síður líklegir til að stríða við félagsleg eða sálræn vandkvæði og eru bæði ólíklegri til að vera gerendur eða þolendur ofbeldis.

Báðir foreldrar virkir uppalendur barna eftir skilnað

Að vel takist til við tengslamyndun foreldra og barna virðist því vera lykilatriði þegar velferð barna er annars vegar, það sem best þjónar hagsmunum barna eru ríkulegar samvistir við báða foreldra sína. Í Svíþjóð hefur sameiginleg forsjá verið valkostur í kjölfar skilnaða í rúmlega hálfa öld og meginregla í áratugi. Í ljósi þessarar löngu reynslu af sameiginlegri forsjá hafa Svíar haft möguleika á að kanna í langtímarannsóknum afdrif barna sem búa við ólík form umgengni. Niðurstaðan frá Svíþjóð og hér eru rannsóknir frá öðrum löndum samhljóma, er sú að börnum sem búið hafa við jafna búsetu foreldra vegnar betur en börnum sem búa við minni umgengni við föður. Af þeim sænsku foreldrum sem slitu samvistum á árinu 2005 kusu 20% jafna búsetu fyrir börnin sín, sem er tíföldun á 10 árum. Forsendur fyrir því að slíkt fyrirkomulag virki er að foreldra búi nálægt hvort öðru, börn og fullorðnir séu sammála um fyrirkomulagið og jákvæð samskipti ríki milli foreldranna. Báðir foreldrar halda reisn sinni sem virkir uppalendur barnanna sinna og rof á sér ekki stað í tengslamyndun milli barnanna og foreldra þeirra.

Íslensk stjórnvöld hafa tækifæri til að tryggja velferð og bæta félagslega og tilfinningalega stöðu þúsunda íslenskra barna. Þetta geta stjórnvöld gert með því að lögfesta sameiginlega forsjá sem meginreglu allt frá fæðingu barns. Nauðsynlegt er að færa dómstólum heimildir til að dæma sameiginlega forsjá þegar sannanlega er um tvo hæfa uppalendur að ræða. Tryggja þarf að forsjárlausir foreldrar hafi jafnan rétt á við foreldri með forsjá til að afla sér upplýsinga um börn sín. Einnig er brýnt að jafna skattalega stöðu foreldra sem hafa framfærsluskyldu óháð forsjá. Í dag eru forsjárlausir skattlagðir sem barnlausir og ekki er tekið tillit til samvista barns við það foreldri sem það býr ekki hjá við ákvörðun meðlags. Allar aðgerðir stjórnvalda til að jafna stöðu foreldra eru aðgerðir sem tryggja velferð barna, slíkt er alltaf börnunum okkar fyrir bestu. Foreldrajafnrétti er því ávallt bestu hagsmunir barna og foreldra.

Höfundur er félagsfræðingur og félagi í Félagi ábyrgra feðra.

 

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0