Foreldrarnir gegna því mikilvæga hlutverki í lífi barnsins að vera því fyrirmynd sem barnið lifir eftir og miðar sig við alla ævi. Það liggur því í augum uppi að foreldrunum ber skylda til þess eftir skilnað að draga sem mest úr því tapi sem skilnaðurinn veldur barninu.

Þeirri skyldu sinna foreldrarnir best með því að leyfa barninu að hafa báðar fyrirmyndir til staðar í lífinu. Hér er nauðsynlegt að minna á þau mannréttindi sem felast í fjölskyldurétti hvers einstaklings samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland er aðili að. Þessi réttur felur það í sér að sérhver einstaklingur á að geta upplifað sig sem fjölskyldu með sínum nánustu, burtséð frá fjölskyldugerð. Þetta þýðir að eftir skilnað hefur barnið rétt á að upplifa samband sitt við föður sinn sem fjölskyldusamband, og faðirinn hefur nákvæmlega sama rétt gagnvart barni sínu eftir skilnað.

Í máli Sophiu Hansen gegn tyrkneska ríkinu fyrir Mannréttinda-dómstóli Evrópu fagnaði hún sigri. Barátta hennar sýnir getu einstaklings til að berjast fyrir sínum málum, jafnvel á alþjóðavettvangi.

Sophia Hansen var beitt mannréttindabrotum af hálfu barnsföður síns og tyrkneska ríkinu, en þau fólust í fullum umgengnistálmunum. Börn hennar voru beitt harkalegum mannréttindabrotum með algerri móðursviptingu. Slík svipting foreldris er ævinlega fólskuleg misnotkun á börnum því foreldrarnir eru þungamiðjan í lífi þeirra.

Hér á Íslandi búa þúsundir barna við föðursviptingu og þá misnotkun sem þeirri sviptingu fylgir. Opinber yfirvöld, sýslumenn, barnaverndarnefndir, skólar og ráðgjafar, ala á föðursviptingu t.d. með úrskurðum um að barn geti umgengist föður sinn í einn mánuð eða jafnvel aðeins einn dag á ári. Þannig eru þúsundir íslenskra feðra í þeirri stöðu sem Sophia Hansen er í, að sjá ekki börnin sín langtímum saman, fá ekki upplýsingar um þau frá yfirvöldum, lögheimili þeirra er flutt, símar lokaðir, og jafnvel nöfnum breytt.

Réttur barna til að umgangast báða foreldara sína er því í reynd engu betri á Íslandi en í Tyrklandi. Félag ábyrgra feðra vinnur núna að því að vísa ákveðnu máli til Mannréttinda-dómstóls Evrópu til umfjöllunur þar sem félagið telur einsýnt að mannréttindabrot af sama tagi séu framin hérlendis á hverjum degi.

Félag ábyrgra feðra leggur áherslu á mannréttindi barnanna, að fá ráðrúm til að byggja upp traust og gott samband við báða foreldra sína. Í landslögum eru þessi réttindi áréttuð með því að forsjárforeldri (í meira en 90% tilvika móðirin) hefur þeirri skyldu að gegna að sjá til þess að forsjárlausa foreldrið geti rækt umgengni við barn sitt. Þessi réttindi eru margbrotin á hverjum degi hér á Íslandi, gegn börnum og gegn feðrum og mæðrum.

Föður- og móðursvipting hefur geigvænleg langtímaáhrif á börn sem fyrir henni verða. Erlendar rannsókir hafa sýnt að börn sem svipt eru öðru foreldri sínu eru líklegri til að lenda í ógæfu síðar á lísfleiðinni. Sem dæmi þá eru þau 5 sinnum líklegri til að fremja sjálfsmorð, 32 sinnum líklegri til að flýja að heiman, 20 sinnum líklegri til að eiga við hegðunarvanda að stríða, 14 sinnum líklegri til að nauðga, 9 sinnum líklegri til að hætta í skóla, 20 sinnum líklegri til að enda í fangelsi.

Garðar Baldvinsson
Formaður FÁF

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0