Ég er handviss um það, bæði af trú og af reynslu, að sameiginleg forsjá með sem jafnastri umgengni við börnin hjálpar báðum aðilum til að jafna sig eftir skilnaðinn, en það hjálpar líka börnunum við að takast á við þetta áfall sem það er þeim þegar foreldrarnir ráða ekki lengur við lífið með hinum og skilnaður verður staðreynd.

Það er barninu nefnilega líka áfall að vera alltaf hjá öðru foreldrinu og hitta hitt aðeins aðra hverja helgi – við annarlegar aðstæður oft á tíðum en aldrei í hversdagslegu umhverfi. Hvað gerir þetta fyrir ímynd og hlutverk móðurinnar og föðurins. Hún er lífsakkeri, hann er trúður. Hún vinnur, hann leikur. Hún ræður, hann er valdalaus. Þá er auðvitað kerfinu sem feministar réðust á snúið við – og kannski er það draumur margra feminista. Ég veit hins vegar að mörgum körlum finnst með þessu að þeim hafi verið breytt í lifandi sæðisbanka og ekkert annað. Er þá næsta skref að beita indversku aðferðinni og eyða stúlkufóstrum? Nei, ég meina – hinni þar sem strákafóstrum er eytt? Jú, strákar eru og verða strákar, ekki satt? Hún vinnur, punktur.

Þetta tengist mjög því sem oft er nefnt í gagnrýni á sameiginlega forsjá og jafna umgengni við báða foreldra, festu og reglu í lífi barnsins. Auðvitað er börnum nauðsynlegt að líf þeirra sé í föstum skorðum. Sú kenning er oft túlkuð þannig að forsjá eins foreldris, móðurinnar, sé þess vegna nauðsynleg, að hún veiti lífi barnsins öryggi og festu. En það er auðvitað fölsk öryggiskennd, því fram að skilnaði var barnið ekki alið upp af henni einni, fjölskyldan samanstóð einnig af föðurnum, eða hvað? Mér finnst oft sem konur séu staddar á miðöldum og ekkert hafi breyst í hugsun þeirra og hugmyndaheimi síðan karlar tóku engan þátt í uppeldinu eða heimilisstörfunum.

Ágreiningur eins og sá hvort karlinn hengi rétt upp þvottinn eða ekki er til marks um þá breytingu sem ég ræddi um og hefur orðið á síðustu áratugum – áður fyrr var ekkert tilefni til slíks ágreinings. Að feðurnir geri nú ekki annað en láta börnin glápa endalaust á fótbolta í sjónvarpinu, er af sama meiði – til marks um breyttar aðstæður. Varla telst heimsókn til vinkvenna móðurinnar eða að leika með öðrum nánast ókunnum börnum þýðingarmeira í uppeldi.

Breytt hlutverkaskipting

En það er auðvitað ekki þetta sem málið snýst um. Meginmálið er breyting sú sem orðin er á hlutverkaskiptingunni: konur vinna utan heimilis og karlar taka þátt í rekstri og starfsemi heimilisins. Karlar og konur taka þessa dagana þátt í því sem áður fyrr var helgað hinu kyninu. Í þessu felst sú meginbreyting sem orðið hefur á samfélagsháttum okkar Vesturlandabúa síðustu þrjá áratugina eða svo. Þess vegna er hugmyndin um eina fyrirvinnu, eitt lífsakkeri, eitt heimili sem festu og reglu, út í hött og tilheyrir gömlum tíma sem er liðinn og kemur vonandi aldrei aftur.

Þess vegna er það beinlínis rangt að eins foreldris forsjá sé barninu fyrir bestu. Það á ekki við nema í þeim fáu tilvikum að annað foreldrið sé beinlínis óhæft vegna sjúkdóms, ofbeldis eða annars ámóta. Eftir skilnað er barninu fyrir bestu að hafa sem best og nánast samband við þá sem standa því næst: foreldra þess. Þar sem slíkt samband getur ekki orðið innan veggja eins heimilis er barninu fyrir bestu að alast upp til jafns á heimilum beggja foreldra sinna.

Þótt sameiginleg forsjá þurfi ekki að þýða að samvera barnanna við foreldrana sé jöfn er ljóst af könnunum t.d. í Bandaríkjunum og Ástralíu að tíðari samvistir við föðurinn en aðra hverja helgi eins og algengast er hér á landi auðvelda barninu mjög að aðlagast nýjum aðstæðum og ekki síður við að byggja upp heilsteypta og heilbrigða sjálfsmynd. Einnig má benda á að samkvæmt sömu könnunum eru drengir sem alast upp hjá fráskildum feðrum sínum í betri tengslum við umhverfi sitt, hvort heldur er átt við fjölskyldu, skóla eða samfélag.

Rétturinn til fjölskyldulífs

Foreldrarnir gegna því mikilvæga hlutverki í lífi barnsins að vera því fyrirmynd sem barnið lifir eftir og miðar sig við alla ævi. Það liggur því í augum uppi að foreldrunum ber skylda til þess eftir skilnað að draga sem mest úr því tapi sem skilnaðurinn veldur barninu. Þeirri skyldu sinna foreldrarnir best með því að leyfa barninu að hafa báðar fyrirmyndir til staðar í lífinu.

Hér er nauðsynlegt að minna á þau mannréttindi sem felast í fjölskyldurétti hvers einstaklings samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland er aðili að. Þessi réttur felur það í sér að sérhver einstaklingur á að geta upplifað sig sem fjölskyldu með sínum nánustu, burtséð frá fjölskyldugerð. Þetta þýðir að eftir skilnað hefur barnið rétt á að upplifa samband sitt við föður sinn sem fjölskyldusamband, og faðirinn hefur nákvæmlega sama rétt gagnvart barni sínu eftir skilnað.

Garðar Baldvinsson
formaður Félags ábyrgra feðra

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0