Þegar rætt er um sameiginlega forsjá milli hjóna sem eru að skilja er það karlinn sem þarf að sækja það mál en konan þarf ekki annað en bíða átekta, hún þarf ekki að sækja málið. Bæði konan sjálf, samfélagið og ekki síst lögfræðiumhverfið (lögfræðingar, sýslumenn og fulltrúar þeirra, ráðgjafar og fleiri sem ætla má að starfi við að túlka lög um þessi mál) ganga að því gefnu að konan hafi rétt til að halda börnunum undir sinni umsjá og vernd en að faðirinn þurfi að óska eftir sameiginlegri forsjá. Um leið hefur móðirin samkvæmt þessum þankagangi vald til að synja þessu.

Það væri því mikilvægt að kanna hug og aðstæður þeirra mæðra sem hafna málaleitan um sameiginlega forsjá. Benda má á að því fyrr sem samið er um sameiginlega forsjá því fyrr beina foreldrarnir meginathyglinni að börnunum sjálfum og þeirra hagsmunum, þörfum og óskum, en leggja á sama hátt til hliðar eigin ágreining þegar kemur að börnunum.

Þess vegna er sameiginleg forsjá einmitt hagsmunamál barnanna. Ekki aðeins barnanna heldur einnig lögfræðiumhverfisins sem þá getur einbeitt sér að því sem mestu skiptir í ráðgjöfinni, að beina kröftum foreldranna að því að efla börnin, gæta hagsmuna þeirra og sinna þörfum þeirra. Ráðgjöfin getur þá snúist um það sem hún á að snúast um, þ.e. að leiðbeina foreldrum að sinna uppeldisskyldum sínum, en ekki samskiptaerfiðleikum í og eftir hjónaband. Það er þó sáralítið samhengi á milli þess hvernig fólki tekst að ráða fram úr þeim erfiðleikum og hvernig því tekst að sinna sameiginlegri forsjá.

Það að upp úr sambandinu slitni segir ekkert til um hvernig fólkinu tekst að semja um málefni barnanna – að því tilskildu að samið sé um sameiginlega forsjá sem fyrst eftir skilnað. Hér er nauðsynlegt að benda á að þegar skilnaður er orðinn staðreynd og öll beiskjan sem honum fylgir kemur í veg fyrir að fólkið geti samið um nokkurn skapaðan hlut þá eru mun meiri líkur til að hagsmunum barnanna sé borgið ef foreldrarnir geta gengið að sameiginlegri forsjá vísri en þurfa ekki að semja um forsjána einnig.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0