Lúðvík Börkur Jónsson fjallar um jafnréttismál: “Margt hefur áunnist og öruggt að almennt hafa fráskildir feður tekið meiri ábyrgð á umönnun og velgengni barna sinna en áður tíðkaðist.”

Á ÍSLANDI hefur jafnréttismálum kynjanna fleygt fram á undanförnum áratugum og ber að þakka óeigingjarnt starf fjölda samtaka sem hafa látið sig málið skipta. Fjöldahreyfingar fylltu miðbæ Reykjavíkur og stóðu að stofnun stjórnmálaflokks sem síðar hafði áhrif á stefnu annarra flokka. Landinn lærði um launamisrétti, misrétti í stöðuveitingum, mæðrahyggju og stöðu einstæðra mæðra svo eitthvað sé nefnt. Gífurlegur árangur hefur náðst. Fyrir hönd dætra minna er ég þakklátur.
Undanfarin misseri hefur verið vaxandi umræða á öllum Norðurlöndunum um stöðu feðra sem ekki búa með börnum sínum. Margt hefur áunnist og öruggt að almennt hafa fráskildir feður tekið meiri ábyrgð á umönnun og velgengni barna sinna en áður tíðkaðist. Hlutirnir eru að þokast í rétta átt en víða er pottur brotinn í viðhorfum almennings og hins opinbera. Viðhorf eru enn í gildi þar sem trúverðugleiki feðra til aukinnar ábyrgðar er dreginn í efa. Þegar deilur koma upp um forsjármál, umgengni eða fjármál er stutt í gamlar kreddur og upplifa feður gamaldags viðhorf og að hluta til úrelt lagaumhverfi. Tekist er á við stjórnsýslu sem oftar en ekki er mönnuð konum sem litaðar eru af fyrri baráttu kvenna til aukinna réttinda. Meðan feðraorlof er talandi dæmi um nútímann er stutt síðan að úrskurður stjórnsýslunnar féll, þar sem áhugi föður til að fylgjast með fótbolta í sjónvarpi var notaður gegn honum í forsjárdeilu!

Félag ábyrgra feðra er virkt félag með rödd í réttindabaráttu feðra. Félagið á bræðrafélög á öllum Norðurlöndum sem eru ört vaxandi og eru þessi mál víðast hvar í mikilli endurskoðun. Ég vil biðla til feðra almennt um að kynna sér málstaðinn á heimasíðu félagsins: abyrgirfedur.is og gerast meðlimir í félaginu gegn greiðslu hóflegs ársgjalds, sem er 2.900 krónur. Jafnræði foreldra og réttur barna til þeirra beggja er jafnréttisbarátta sem vert er að leggja lið.

Höfundur er framkvæmdarstjóri og í stjórn í Félagi ábyrgra feðra.

Mb.is, Laugardaginn 22. október, 2005 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0