Halldór Laxness sagði eitt sinn eitthvað á þá leið að Íslendingar gætu talað heil ósköp þangað til þeir kæmu að kjarna málsins. Þá yrðu þeir hálfhræddir og brygðu á það ráð að þagna. Líklega er nokkuð til í þessu enda þarf þöggun alls ekki alltaf að vera meðvituð; hún getur allt eins stafað af því að fólk sé tregt við að lýsa viðhorfum sínum af ótta við afleiðingarnar.

Einn þeirra samfélagshópa á Íslandi sem hefur löngum mætt þögninni þegar mál hans ber á góma eru forsjárlausir feður. Það á ekki síst við um þá sem standa eða hafa staðið í forræðisdeilum við barnsmæður sínar enda segir normið að börnin skuli vera hjá móðurinni. Samkvæmt þjóðskrá voru rúmlega 11 þúsund einstæðar mæður og 895 einstæðir feður með börn á framfæri 1. desember 2003. Ekki er neinum blöðum um það að fletta að miklu fleiri feður hefðu viljað fá forræði barna sinna en þessir tæplega 900. Hver sú tala er skal hins vegar látið ósagt.

Í norsku heimildarmyndinni Far på mors visa, sem Ríkissjónvarpið sýndi sl. sumar, lýsti einn viðmælandinn því hvernig honum fannst öllum gáttum kerfisins lokað fyrir sjónarmiðum hans og hagsmunum. (Hann þurfti m.a.s. að undirgangast niðurlægjandi mat á því hvort hann væri hæfur faðir með því að umgangast börn sín undir eftirliti sendifulltrúa frá hinu opinbera.) Fjöldi einstæðra feðra á Íslandi hefur lýst svipaðri reynslu af því að sækja sinn rétt, þó ekki væri nema til umgengni við börn sín.

Það er mikilvægur þáttur í alvöru jafnréttisbaráttu að útrýma þessu misrétti. Það gamla viðhorf að karlar eigi fyrst og síðast að vinna og skaffa skylduliði sínu peninga en konur að vagga börnum þeirra, er öllum til trafala. Samt er það óskaplega útbreitt og rótgróið á ólíklegustu stöðum. Samfélagið lítur t.d. þá sem ekki standa skil á meðlagsgreiðslum hornauga og dæmir alla jafnt, hvort sem þeir geta borgað meðlögin eða ekki. Þegar svo ber undir að forræði barns kemur í hlut föður spyrjum við hvað hafi verið að móðurinni.

Að kantsetja forsjárlausa feður – eða hvaða samfélagshóp sem er – er ekki bara rangt heldur líka hættulegt. Í Bandaríkjunum eru forsjárlausir feður gríðarlega margir í alls kyns samtökum sem daðra við fasisma og æfa vopnaburð öllum stundum. Þetta eru menn sem finnst þeir hafa tapað öllu – fjölskyldu, atvinnu, sjálfsvirðingu – vegna þess að ríkið fyrirlíti þá hátt og lágt. Þess vegna hata þeir ríkið og allt sem þeir tengja við ríkið: dómskerfið, skattkerfið, lögregluna, stjórnmálamenn, lögfræðinga, félagsráðgjafa og svo framvegis. Þeir treysta engu nema vopnabræðrunum og búa sig undir að sækja sinn rétt einn góðan veðurdag.

Vitaskuld eru aðstæður á Íslandi ekki þannig að gremja þeirra, sem finnast þeir vera útlagar í eigin landi, fái útrás eftir slíkum leiðum. En það eru alltaf takmörk fyrir því hvað hægt er að troða á fólki án þess að illa fari og sjaldnast mjög eftirsóknarvert að komast að því hverjar afleiðingarnar verði.
sh
29.10.2005
www.murinn.is

Sjá nánar: http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1777&gerd=Frettir&arg=6

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0