Öll þekkjum við myndir af feðrum sem voru afskiptalitlir af börnum sínum, notaðir sem grýlur og refsivendir. Hefðbundin verkaskipting sem var við lýði öld fram af öld kannski um allan heim gerði ráð fyrir að karlinn færi út af heimilinu að afla matar en konan héldi sig innandyra að annast flest annað eins og matseld og uppeldi barnanna.

Umönnun og framfærsla barna

Ef slík hjón skildu að skiptum gat konan átt á hættu að lenda á vergangi með öll börnin en karlinn héldi eignum – og veldi kannski einhver börnin til að taka við búinu. Þannig var ábyrgðin skýrt aðskilin. Á fyrri hluta tuttugustu aldar var þessi verkaskipting enn við lýði og það var gegn henni sem kvenréttindabaráttan snerist um og uppúr 1970. Á þessum tíma urðu til ýmsar goðsagnir og ímyndir, t.d. um að feður vildu sem minnst afskipti af börnum sínum og að fráskildir forðuðust allir feður börnin sín sem mest þeir mættu. Í bókmenntum langt fram eftir öldinni t.d. eru feður gjarnan hálfgerðir fautar við börn sín og hafa fyrst og fremst það hlutverk að skaffa. Smám saman varð til sú ímynd af feðrum að þeir vildu ekki börnin sín og að fráskildir væru þeir afbrotamenn. Kvíabryggja var notuð til að fangelsa feður sem ekki borguðu meðlagið. Þessi mynd er lífseig með endemum því enn heyrast þær raddir að fráskildir karlar komi ekkert nálægt börnum sínum eftir skilnað. Þannig segir í athugasemdum með frumvarpi um framkvæmd meðlagsgreiðslna sem lagt var fram árið 2002 að í yfir 90 % skilnaðartilvika fari konur með forsjá barnanna og „eru einar um umönnun og framfærslu þeirra“. Mig langar að ræða þessa skoðun sem kemur fram í athugasemdunum.

Ímyndir eftir kvenréttindabaráttu á áttunda og níunda áratugnum

Feður sviptir börnum sínum

Þegar ég eignaðist fyrsta barn mitt 1988 hafði kvenréttindabaráttan ásamt öðru leitt til þess að verkaskipting kynjanna hafði riðlast mjög og stóðu bæði kynin frammi fyrir allt öðrum heimi en kynslóð foreldra þeirra. Aukin atvinnuþátttaka kvenna og ekki síður vitundarvakning meðal karla réttlætti kröfur kvenna um að ábyrgð þeirra á heimilishaldi og barnauppeldi væri að hluta létt af þeim og að karlar tækju að sama skapi að sér þá ábyrgð.

Karlar voru að sjálfsögðu ekki þolendur þessara breytinga heldur tóku þeir nýrri hlutverkaskipan feginshendi. Öfugt við þá ímynd sem oft er haldið á lofti að karlar hafi áður viljað vera án afskipta af börnum sínum hafa samtöl mín við karlmenn sem tilheyra kynslóð foreldra minna leitt í ljós að karlmenn fyrri tíðar öfunda feður sem hafa fengið að taka þátt í fæðingu barna sinna; öfunda margir hverjir þá sem fá að njóta þess að fylgja börnum sínum vaxa úr grasi (eða malbiki öllu heldur); öfunda feður sem fá að njóta þess að leika sér með börnum sínum á forsendum barnanna sjálfra.

Feðrum okkar sem höfum notið þessa finnst þeir hafa misst mikils. Það sem mér finnst þessir karlmenn vera að segja er í rauninni að þeim finnist gamla hlutverkaskipanin hafa hlunnfarið þá ekkert síður en konurnar. Þegar farið er að ræða við feður fyrri tíðar kemur semsé iðulega í ljós að þeim finnst þeir hafa verið sviptir börnum sínum. Ekki að þeir hafi hafnað þeim eins og ímyndin segir, heldur að hlutverkið hafi svipt þá börnunum. Rétt eins og uppeldishlutverk kvenna svipti þær möguleikum til starfsframa.

Mjúkir karlmenn

Á síðustu áratugum tuttugustu aldar urðu þannig afdrifarík skil milli kynslóða, ekki aðeins kvenna og mæðra, heldur ekki síður hjá körlum og feðrum. Þeir sem urðu feður í kjölfar þeirra samfélagsbreytinga sem fylgdu auknum kvenréttindum þessara áratuga stóðu nefnilega á svipaðan hátt og konurnar frammi fyrir nýjum heimi án þess að búa við stuðning traustra fyrirmynda sem uppeldið sér venjulega um að veita. Hér á ég ekki bara við það að karlmenn höfðu ekki beinlínis stundað það að skipta á ungabörnum eða þrífa klósettin.

Ég á ekki síður við að karlmenn höfðu ekki, sem hópur, sem kyn, staðið í því að deila ábyrgð á heimilinu, að ræða það hvernig líðan þeirra sjálfra birtist augljóslega í framkomu þeirra t.d. við matarborðið. Þeir áttu ekki því að venjast að semja um vinnutíma utan heimilisins því verksvið þeirra og jafnvel meginlífssvið þeirra hafði alltaf verið utan heimilisins. Þeir voru óvanir því að verða að fresta tilteknum störfum utan eða innan veggja heimilisins til að sinna börnum sínum hvort heldur þau voru frísk eða veik. Þessi mál voru skilgreind sem mjúk mál og karlar sem sinntu þeim kallaðir mjúkir karlmenn.

Kúgarar kvenna?

Og á sama hátt og konur urðu fyrir alls konar og jafnvel óvægnum fordómum í sinn garð fyrir að kunna ekki sitthvað á vinnumarkaðnum urðu karlar fyrir jafn hörðum og óvægnum fordómum fyrir kunnáttuleysi sitt á sviði heimilisins. En öfugt við konur sem hafa barist gegn fordómum í sinn garð hafa karlar lítið sem ekkert gert til að breyta fordómum í sinn garð heldur sitja þeir undir þessum dómum og láta þá jafnvel bæla sig og kúga.

Sú staðreynd að karlar hafa varla risið upp á afturlappirnar sjálfum sér til varnar á sér án efa skýringu að hluta til í því að málflutningur kvenfrelsisbaráttunnar hefur mikið snúist um að sýna konur sem fórnarlömb og karla sem kúgara þeirra. Karlmenn vilja að sjálfsögðu ekki standa uppi sem kúgarar kvenna heldur losna eins og þær úr viðjum aldagamallar hlutverkaskiptingar.

Móðurréttur – barn til kúgunar?

Þegar hjón skilja og kemur að því að fjalla um börnin og áframhaldandi tengsl þeirra og foreldranna er eins og samfélagið sjái hlutina með gleraugum mjög gamallar fortíðar. Feðurnir virðast þá hafa kúgað mæðurnar, þeir eiga þá ekki að vilja sjá börnin, enda hafa mæðurnar þá hvort eð er séð um uppeldið.

Niðurstaðan er því í yfirgnæfandi fjölda tilvika sú að eignum (og skuldum) er skipt til helminga en börnunum þannig að móðirin fær þau en faðirinn tiltekinn umgengnisrétt. Barnið er skráð hjá móðurinni og er a.m.k. gagnvart hinu opinbera því sem næst eign hennar, hún nýtur allra þeirra ívilnana sem veittar eru vegna barnanna, en faðirinn þeirra forréttinda að borga meðlag og hitta barnið einstöku sinnum. Ef móðirin leyfir það þá. Hún gæti allt eins kosið – og getur það því miður – að beita barninu gegn föðurnum eins og hverju öðru valda- og kúgunartæki – og því miður gerist það alltof oft.

Samfélagið tekur á vissan hátt undir með slíkum skilgreiningum, m.a. eins og með þeirri fullyrðingu í athugasemd með fyrrnefndu frumvarpi, að konan annist ein umönnun barnsins og framfærslu.

Ímyndir um aldamót

Skaffarar

Ef það væri rétt hefur ekkert breyst. En hafa ekki einmitt orðið breytingar? Líta ekki ungir feður svo á að þeir eigi og megi annast börnin til jafns við móðurina? Jú þeim finnst það. En þeim finnst líka að þeir verði að skaffa. Finnst ungum feðrum í dag eðlilegt að sinna heimilisstörfum? Já, en þeir verða líka að skaffa. Finnst ungum feðrum í dag eðlilegt að vera heima og sinna veiku barni? Já, en þeir verða að skaffa. Öllum þessum spurningum má að sjálfsögðu snúa upp á ungar mæður og leiða fram svipaða klemmu sem þær eru í. Klemman er í rauninni sáraeinföld: Við lifum núna breytingaskeið þar sem tveir heimar takast á, sá gamli og sá nýi.

Verkaskipting kynjanna hefur breyst, konur eru að komast jafnfætis körlum á vinnumarkaði og karlar jafnfætis konum á heimilinu. En á meðan konur sækja sér styrk í nýja stöðu sína sitja karlar einhvern veginn eftir og hafa ekki sótt styrk í sitt nýja hlutverk. Að annast börn og heimili til jafns við konur og leyfa konunum að sinna frama sínum jafn mikið og karlar gera. Til að þetta geti gerst þarf að komast á meira jafnvægi kynjanna, karlarnir þurfa þannig tvímælalaust að finna sér fyrirmyndir að styðjast við. Kannski ættu rithöfundar að skrifa svolítið um karla sem sinna heimilinu og tekst að sameina störf sín innan og utan veggja heimilisins.

Og kannski er nauðsynlegt að félög á borð við Félag ábyrgra feðra standi fyrir átaki um breytta sjálfsmynd karla, um gildi þess að vera faðir sem tekur uppeldishlutverk sitt jafn alvarlega og hlutverk sitt sem skaffara.

Karlar og tilfinningar

Til að ná fram slíku jafnvægi er nauðsynlegt að hið opinbera viðurkenni að breytingarnar séu ekki aðeins þær að konur taki meiri þátt í atvinnulífinu, heldur einmitt að karlar hljóta af þeim sökum að minnka eigin þátttöku að einhverju leyti. Samkvæmt nýlegum tölum vinna íslenskir karlmenn mest allra karla í norðanverðri Vestur-Evrópu utan heimilisins. Þeir vinna líka mun meira utan heimilis en konur. Þessi munur hlýtur að tröllríða öllu heimilishaldi í landinu. Þennan mun þarf að minnka ef við viljum kom á raunverulegu jafnrétti kynjanna og skapa fjölskyldum, heilum og sundruðum, lífvænleg skilyrði í heimi nýrrar verkaskiptingar.

Að mínu mati er besta ráðið til þess að viðurkenna að í slíkum heimi felst uppeldi og umönnun barna einmitt í því að báðir foreldrar annist börnin jafnt – hvernig sem högum fjölskyldunnar er annars háttað. Og hvað sem líður fordómum á borð við þá að umhyggjusemi sé kvenlegur eiginleiki og að tilfinningar megi helst ekki sjást á körlum. Foreldrar verða að ala börnum í brjósti þá vissu að eiginleikar eins og þessir séu óháðir kyni – það er eina vonin til að breyta samfélaginu í alvöru.

Upphaflega flutt 2002; lítillega breytt 2003.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0