Skilnaður er að mörgu leyti sambærilegur við ástvinamissi. Munurinn er þó sá að ástvinamissir er viðurkennt sorgarferli, en skilnaður ekki. Þess vegna býðst svo lítil aðstoð, hjá vinum og vandamönnum – sem skilja illa þær þjáningar sem skilnaðurinn leiðir yfir fólk, skilja ekki þær geðsveiflur sem honum fylgja, þá sorg og vanlíðan sem liggur í sjálfum skilnaðinum.

Hið opinbera veitir engin grið, allir þurfa að ganga frá málum eins fljótt og hægt er, ganga frá forsjá, frá umgengni, frá eignaskiptum. Þegar allir eru í sárum eiga foreldrar, sem áður elskuðust en hatast oft nú, að ganga frá málum sem snerta þá inn að kviku sjálfs lífsins – eins og allt sé eðlilegt og í stakasta lagi. Þegar búið er að ganga frá þessum málum og reyndar áður kemur að umgengni, þegar börnin hætta að vera alla daga hjá báðum foreldrum sínum og fara að vera hjá þeim af og til. Þá þurfa foreldrar að skerpa hugmyndir sínar um uppeldi, um samband sitt við börnin, og jafnvel eigin lífssýn.

Regla og festa

Börn þurfa reglu á lífi sínu og festu af hálfu foreldra sinna. Lífið þarf að vera í föstum skorðum, þess vegna m.a. er nauðsynlegt að börnin viti alltaf hvenær þau eiga að skipta um bústað og fara frá einu foreldri til annars.

Börnum er nauðsynlegt að lifa hversdagslegu lífi með ákveðinni tilbreytingu – rétt eins og fullorðnu fólki. Þess vegna er þeim lífsnauðsynlegt að lifa með báðum foreldrum sínum eftir skilnað – við venjulegar aðstæður þeirra. Hér á vefnum segir Hugo Þórisson sálfræðingur (smelltu hér) að hversdagsleikinn sé grunnþáttur í lífi barnanna, skapi þeim öryggi, gefi þeim færi á að kynnast föðurnum í gleði og leik. Að faðirinn þurfi að búa börnum sínum eðlilegt heimili þar sem barnið hefur sína hluti á sínum stað og getur gengið að þeim vísum.

Skemmtanastjóri – gildra margra

Eftir skilnað kemst auðvitað mikið rót á líf fólks. Skilnaði fylgir iðulega mikil depurð, allt virðist í upplausn, streita og kaos ríkja. Oft fylgja líka miklar áhyggjur af fjármálum (sjá hér um fjárhagserfiðleika feðra eftir skilnað). Við þessar undarlegu og oft dapurlegu aðstæður fyllast feður gjarnan þeirri hugmynd að þeir séu að missa börn sín, líkt og við dauða. Þeir verða hræddir um að standa ekki undir væntingum barna sinna og gera sér furðulegar hugmyndir um það hvers börnin vænta.

Andspænis tálmunum og ásökunum móðurinnar svo og að því er þeim virðist algeru valdi hennar á lífi barnanna eru feðurnir bjargarlausir og finnst þeir jafnvel ekki verðugir barna sinna. Margir falla í þá gryfju að fara að kaupa athygli barnanna, fara með þau á alls konar skemmtanir, í húsdýragarðinn, á pizzustaði, í bíó, á aðra staði þar sem ódýra plat-lífsfyllingu er að finna. Þetta er stórhættulegt fyrir samband föður og barns.

Eftir nokkurra mánuða ráp milli pizzustaða, bíóa og annarra svona staða, kemur að því að börnin sjálf segja hingað og ekki lengra. Þau einfaldlega kvarta yfir því að vera á þessu endalausa rápi, það sé ekki skemmtilegt, þau geti aldrei verið með pabba bara heima. Þetta er mjög mikilvægt fyrir börnin: að vera hjá föður sínum, ekki endilega með honum. Einnig þurfa börn stundum einfaldlega að vera í sama herbergi og faðir þeirra, ekki til að vera með honum, heldur horfa á hann gera það sem hann þarf að gera, hvað svo sem það er, að elda, vera í tölvunni, skipta um ljósaperur, ryksuga, tala við fólk í símann eða hvaðeina.

Á sama hátt hafa börn þörf fyrir að vera heima hjá pabba og gera það sem þeim líkar, að lesa, leika, leira, lita, skrifa, vera í tölvunni, horfa á sjónvarp, eiga kyrrláta stund. Hvaðeina. Rétt eins og fullorðnir. Samband barns og foreldra byggir enda ekki á því að gera hluti saman, heldur á því að lifa lífinu saman. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram góðu sambandi, vera eins mikið með barninu og frekast er kostur, gera eins mikið og margt með því og þér dettur í hug, og hnýta böndin við barnið þannig eins fast og hægt er.

Hlýja og ást

Félag ábyrgra feðra vill eindregið mæla með því að feður hlúi vel að börnum sínum almennt, ekki síst í aðskilnaðarkvíða sem oft hrjáir bæði börn og feður við þau umskipti að börnin fara frá einu foreldri til annars. Gott er að faðma barnið að sér og tjá því væntumþykju sína, skýra málið fyrir því eða ræða við það um stöðuna. Sú hlýja sem barnið finnur með þessu móti er besta vörnin sem hugsast getur því hún bindur barnið foreldri sínu (föður) og styrkir það til frekari átaka við lífið. Þannig er hægt að snúa áfallinu sem skilnaðurinn er upp í styrk sem barnið býr að alla ævi.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0