Í október 2003 var meðlag kr. 15.558- á mánuði. Fjöldi barna sem greitt er með var 1. desember 2001 20.998. Þeir sem greiða meðlög eru 12.062 (11.621 karlar og 441 kona). Þeir sem þiggja meðlög eru síðan 15.635 (upplýsingar frá Innheimtustofnun kyngreina ekki móttakendur meðlags).

Samtals eru það 48.715 manns sem tengjast meðlagsgreiðslum beint samkvæmt tölum Innheimtustofnunar. Flestir greiðendur og móttakendur (27.717) eiga síðan maka, þeir eiga systkini og foreldra, frændfólk og vini. Þeir sem tengjast foreldrunum gætu þannig verið um 50.000 manns. Það er þó óþarfi að velta slíku fyrir sér því hvernig sem á er litið er fjöldinn verulegur hluti þjóðarinnar.

Samfélagslegt vandamál

Allir sem lenda í skilnaði ganga í gegnum mikla erfiðleika, andlega og fjárhagslega, jafnvel líkamlega. Því miður lenda margir í vandamálum vegna forsjár- og umgengnismála en slíkur vandi leiðir oft til þess að fólk getur ekki unnið að eigin málum, hefur varla orku til að sinna eigin starfi og getur jafnvel ekki sinnt sjálfu sér. Þess vegna leiða skilnaðir oft á tíðum til þess að fólk vinnur svo mánuðum eða jafnvel árum skiptir á hálfum afköstum eða minna en það. Skilnaðir með erfiðum deilum eru því samfélagslegt vandamál og stórfelldur þjóðhagslegur vandi.

Félag ábyrgra feðra hefur því miður allt of oft afskipti af málum þar sem skilnaðurinn gengur þannig fyrir sig að karlinn gengur burt frá konu og börnum, lætur þeim eftir íbúð, bíl og aðrar eigur, gengur að samningi um fjárskipti, forsjá og umgengni sem gerir ráð fyrir að konan fái allar eigur, karlinn taki að sér skuldirnar, konan fái forsjána en umgengnin látin liggja í lausu lofti. Karlinn á að borga meðlag strax frá skilnaði.

Húsnæði skilyrði

Þessi háttur, sem sýslumenn skrifa upp á þrátt fyrir að þetta sé fjarri réttlæti og bæði anda og bókstaf laganna, leiðir auðvitað til þess að karlinn sekkur í skuldafen (engar eignir aðeins skuldir) sem dýpkar aðeins við greiðslu meðlaga. Í flestum tilfellum kemst sem betur fer á umgengni og til að faðirinn geti annast barn eða börn í umgengni verður hann að finna sér sem allra fyrst annað húsnæði, sem hann reynir oftast að kaupa. Slík fjárfesting er honum þó gjarnan ofviða. Karlinn er því allt í einu kominn í þá aðstöðu að skulda stórfé vegna fyrra hjónabands, þurfa að greiða meðlag, þurfa að koma sér upp nýju húsnæði og þurfa að standa straum af framfærslu barnanna á meðan þau eru í umgengni hjá honum. Í sumum tilvikum flytja fyrrverandi hjón langt í burtu hvort frá öðru og þarf þá karlinn einnig að standa straum af kostnaði við umgengnina – sem getur orðið verulegur ef barnið býr langt frá, t.d. hinum megin á landinu.

Karlinn nýtur engrar aðstoðar af hálfu hins opinbera, fær ekki húsaleigubætur ef hann leigir, og ekki vaxtabætur í samræmi við skuldbindingar sínar ef hann kaupir húsnæði. Hann nýtur ekki ívilnunar við húsnæðiskaupin. Hann nýtur engra bóta. Karlinn verður að fjármagna eigið líf algerlega af eigin rammleik.

Kikna undan álaginu

Konan, sem er að mörgu leyti skilgreind sem einstæð móðir, nýtur margvíslegrar ívilnunar og jafnvel beinna bóta frá hinu opinbera. Aðstöðumunur fráskilinna foreldra getur orðið yfirgengilegur eftir því hvort um karl eða konu er að ræða (aðeins örfáar konur greiða meðlag og eru þannig í stöðu sem karlar eru í að 97%). Getur munur á ráðstöfunarfé yfir árið oltið á milljónum þótt vinnutekjur séu þær sömu, eins og rætt er um vef Félags ábyrgra feðra.

Fjárhagsstaða karlsins eftir skilnað er í allt of mörgum tilfellum því sú að hann er stórskuldugur, á ekkert frá fyrra lífi, og eru skuldbindingar hans langt umfram tekjumöguleika hans. Þessi staða endurspeglast nokkuð glöggt í greiðsluhlutfalli meðlags til Innheimtustofnunar, en undanfarin ár hefur það verið nálægt 70% af kröfum. Meðlagsgreiðendur í greiðsluerfiðleikum eru 4.085 og árið 2001 lentu af þeim 243 í gjaldþrotaskiptum. Kannski segja þessar síðustu tölur okkur, ekki að meðlag sé of hátt, heldur einmitt að í allt of mörgum tilvikum sé þrengt svo mjög að körlum fjárhagslega að þeir kikni undan álaginu, lendi í erfiðleikum með fjármálin og loks í gjaldþroti. Slíkir erfiðleikar ofan á erfiðleika með umgengni og þá um leið með samband við börnin sín dregur því miður nokkra karla á ári til sjálfsvígs.

Landlægt karlahatur?

Þessar slöku heimtur af meðlagi eru hins vegar oft notaðar gegn forsjárlausum feðrum til að gera lítið úr þeim og setja þá alla undir þann hatt að vilja ekki sinna börnunum og borga ekki einu sinni meðlagið. Félag ábyrgra feðra telur þvert á móti að þessar tölur segi sögu af þrengingum sem samfélagið á mikla sök á með því að láta það viðgangast að karlar fái ekki að sjá börn sín eftir skilnað, að láta það viðgangast að karlar gangi frá fyrri fjölskyldu slyppir og snauðir með allar skuldir á bakinu, að láta það viðgangast að karlar njóti engrar aðstoðar í samfélaginu. Félag ábyrgra feðra telur að samfélagið láti þetta viðgangast af því að hér á landi er landlægt karlahatur sem breiðst hefur út undir merkjum femínisma og kvenréttindabaráttu. Félag ábyrgra feðra vill að þessi mál séu rannsökuð útfrá hugmyndafræði þess jafnréttis sem jafnréttislög kveða á um, útfrá hugmyndum um jafnan rétt einstaklinga til þroska, og útfrá hugmyndum þeim sem barnalög kveða á um að hagsmunir barnanna skuli ávallt hafðir að leiðarljósi.

Félag ábyrgra feðra er sannfært um að hagsmunir barnanna krefjist þess í raun að feðrum sé ekki síður hjálpað en mæðrum til að sinna og rækja uppeldishlutverk sitt eftir skilnað, á sama hátt og feður gera í síauknum mæli í hjónabandi og sambúð.

Greinin birtist í DV 17. október 2003.
Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0