Danski sálfræðingurinn Sven Aage Madsen segir aukinn þátt feðra í fæðingu og umönnun barna af hinu góða og muni vafalaust breyta hinni stöðluðu föðurímynd. Urður Gunnarsdóttir blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við Madsen í Kaupmannahöfn.

Reynslan sýnir að það hefur reynst vel að ýta við feðrum til að þeir taki meiri þátt í barnauppeldinu, hvort sem þeir vilja það í upphafi eður ei. Það er bæði þeim og barninu í hag, það sem mestu máli skiptir er að foreldrar séu nálægir og gefi sér tíma með börnum sínum. Þetta á ekki síður við um feður en mæður.

Svo segir Sven Aage Madsen, yfirsálfræðingur við barnadeild Ríkisspítalans í Kaupmannahöfn, en hann heldur fyrirlestur um upplifun feðra af fæðingunni, svo og tímanum á undan og eftir. Fyrirlesturinn er hluti ráðstefnu sem haldin verður í Háskólanum á Akureyri í dag, 23. mars, um þær breytingar sem eru að verða í kjölfar hinna nýju laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Madsen þekkir vel til þessara mála og byggir ekki aðeins á rannsóknum sínum og samstarfsmanna sinna heldur einnig áratuga reynslu af viðtölum við börn og fullorðna. Hann segist ekki í nokkrum vafa um mikilvægi þessa skrefs, börnum og foreldrum þeirra til góða. Hvort það leiðir til algers jafnréttis vill Madsen ekki spá um. “Jafnrétti gengur í bylgjum, það er ómögulegt að segja til um það.”

Hlekkjuðu sig við sjúkrarúmin

Rannsókn Madsens og samstarfsmannana var gerð á fimm ára tímabili og byggðist á samtölum við nýbakaða feður, sem langflestir eru á þrítugsaldri, fæddir eftir 1970, svo rannsóknin gefur hugmynd um það sem koma skal. Madsen segir að meðal þess sem rannsakað var hafi verið hve margir feður voru viðstaddir fæðingar en þeir reyndust 97%.

“Ég veit ekki hvort fólk gerir sér grein fyrir hvílík gjörbylting þetta er. Það sem er athyglisvert við hana er að hún tengist því að konur hættu að eiga börn heima, barnsfæðingarnar færðust yfir til sjúkrahúsanna. Þar kusu konurnar að eiginmennirnir væru þeim til halds og trausts frekar en t.d. mæður eða systur. Þetta segir heilmikið um þróun kjarnafjölskyldunnar,” segir Madsen og heldur áfram: “Feðurnir voru viðstaddir fæðinguna af því að konurnar vildu það, þeir voru ekki allir ýkja áhugasamir í upphafi en urðu við ósk eiginkvennanna. Þetta vatt svo upp á sig og þegar verðandi foreldrum varð að fullu ljós þessi möguleiki hófst mikil barátta fyrir að veita feðrum aðgang að fæðingarstofunum.

Þótt sum sjúkrahús leyfðu feðrum að vera viðstaddir átti það ekki við þau öll og hart var tekist á, þess voru dæmi að verðandi feður hlekkjuðu sig við sjúkrarúm til þess að leggja áherslu á að þeir vildu vera viðstaddir.” Madsen segir það algengan misskilning kvenna að ef karlar gætu valið myndu flestir vilja komast hjá að vera viðstaddir fæðinguna. “Við spurðum feður að þessu og 98% vilja vera viðstödd, þetta hefur breyst mikið frá því sem var. Þeir segjast vilja veita konum sínum stuðning og svo auðvitað að vera viðstaddir er barnið þeirra kemur í heiminn.”

Ekkert fjallað um hlutverk föðurins

Feðurnir voru ennfremur spurðir um hvort þeir færu með konum sínum í mæðraskoðun og þess háttar. Um helmingur fer með konu sinni til læknisins, um 70% lærðu um undirbúning fæðingarinnar og 98% fóru með konum sínum í sónarskoðun. “Feðurnir segja að þeim finnist það gott að fara saman til læknisins en viðurkenndu jafnframt að þeim var ekki boðið að koma, læknirinn talaði ekki til þeirra og ekki var fjallað um föðurhlutverkið. Við leggjum til að þessu verði breytt, skilaboðin sem margir feður fá í tengslum við fæðinguna og undirbúning hennar er að hún komi þeim ekki við. Eftir fæðinguna fær nýbökuð móðir mat, föðurnum er sagt hvar sælgætissjálfsalinn sé. Hann fer svo heim, oft og tíðum í tóma íbúð og kemur í heimsókn.

Faðirinn er alltaf á hliðarlínunni, hann fær á tilfinninguna að hann sé ekki mikilvægur. Madsen segir feður verða að berjast fyrir jafnrétti á þessu sviði. Samfélagið breyti þessu tæpast, feður og mæður hafi komið því til leiðar að karlar fóru að vera viðstaddir fæðingar og nú verði að halda baráttunni áfram. Feður séu enn á hliðarlínunni hvað barneignarfrí varði, í flestum löndum. Vilji foreldrar jafna stöðu sína sé nauðsynlegt að þeir hugsi sig um áður en þeir skuldbinda sig um of fjárhagslega.

“Við hverju er t.d. að búast ef verðandi foreldrar kaupa sér nýtt og stærra hús rétt fyrir fæðinguna? Þar sem karlar eru í flestum tilfellum með hærri laun getur fjölskyldan fremur séð af launum konunnar. Menn vilja ekki taka sér frí því þá skerðast launin.”

Hinn nálægi faðir

Madsen viðurkennir að margir feður hafi takmarkaðan áhuga á að taka sér frí frá vinnu til þess að vera með börnum sínum en reynslan sýni að þeir sem það gera kunni að meta þau nánu tengsl sem myndast við barnið. Æ fleiri feður bætist í þennan hóp þar sem æ fleiri lönd eyrnamerki hluta fæðingarorlofs feðrunum og taki þeir ekki frí glatist það. “Þeir feður sem verja tíma með börnum sínum ungum tengjast þeim svo sterkum böndum að þeir hafa ekki síður samviskubit yfir að vera ekki heima hjá þeim en mæðurnar.

Það má ljóst vera að ég er fylgjandi þessum lögum, þau þvinga feðurna ekki til þess að vera með börnum sínum en gera gott betur en að gefa þeim kost á því. Ef til vill má tala um innri þvingun, foreldrarnir ræða þennan möguleika óneitanlega.

Breytir þetta hinum dæmigerða föður? “Það ætla ég rétt að vona, segir Madsen. “Feður hafa verið fjarlægir en þegar maður spyr fólk hvernig góður faðir sé er svarið ævinlega að hann sé nálægur. Að hann sé til staðar. Börn eiga rétt á því að geta leitað til beggja foreldranna með það sem liggur þeim á hjarta. Föðurhlutverkið er annað og meira en að leika við börnin, skemmta þeim og standa fyrir hið praktíska. Því víðtækara sem föðurhlutverkið er, því ríkara líf fyrir alla viðkomandi, föður, móður og barn.” Madsen segir að styrkist tengsl barna og feðra auki það líka möguleikana á því að þeir haldi góðu sambandi við börn sín ef til skilnaðar komi.

Sem betur fer séu danskir foreldarar í langflestum tilfellum sammála um forræði barnanna við skilnað, sú er raunin í yfir 90% tilvika og æ fleiri deila forræði. Þeir feður sem leita til dómstóla til þess að fá forræði barna sinna séu í langfæstum tilfellum í nánum tengslum við börn sín, dómsmál séu til marks um valdabaráttu. “Kannski munu æ nánari tengsl feðra og barna verða til þess að draga úr skilnuðum, að foreldrar haldi saman barnanna vegna. Það er kannski ekki svo slæm þróun, skilnaðir hafa óskaplega mikil áhrif á börn og eru sjaldnast betri lausn fyrir þau.

Það vill líka oft verða svo að þegar fólk skilur vegna þess að það er ekki ánægt kemst það að því að grasið er ekki grænna hinum megin.”

Úr Morgunblaðinu 23. mars 2001

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0